NÚ HEFUR það opinberast endanlega að vinstristjórnin er ekki fær um að verja hagsmuni þjóðarinnar gagnvart erlendum ríkjum. Blaðamannafundurinn í stjórnarráðinu hefði allt eins getað verið haldinn í Downingsstræti 10.

NÚ HEFUR það opinberast endanlega að vinstristjórnin er ekki fær um að verja hagsmuni þjóðarinnar gagnvart erlendum ríkjum. Blaðamannafundurinn í stjórnarráðinu hefði allt eins getað verið haldinn í Downingsstræti 10. Í stað þess að nota tækifærið og kynna málstað okkar fór fundurinn í að skammast út í forseta lýðveldisins og mála skrattann á vegginn.

Á næstu vikum munum við verða vitni að hræðsluherferð ríkisstjórnarinnar, markmiðið verður að hræða þjóðina til hlýðni við Icesave nauðasamninginn, sem pólitískir embættismenn nenntu ekki að verjast. Hræða til hlýðni svo stjórnin haldi velli.

Íslendingar eru lítil þjóð sem þessa stundina er stjórnað af stjórnmálamönnum með lítið hjarta. Ljósið í myrkrinu er að enn lifir þó lýðræðið.

Það er þjóðin sem er með stórt hjarta og með réttlætið að vopni mun hún sigra.

Sanngjarn samningur er krafa fólksins, krafa þeirra sem eiga að borga.

Höfundur er varaþingmaður.