— Morgunblaðið/Ómar
BJÖRNINN og Skautafélag Reykjavíkur áttust við í Egilshöllinni í gærkvöldi á Íslandsmóti karla í íshokkíi. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði sex mörk gegn þremur mörkum SR-inga.

BJÖRNINN og Skautafélag Reykjavíkur áttust við í Egilshöllinni í gærkvöldi á Íslandsmóti karla í íshokkíi. Leiknum lauk með sigri Bjarnarins sem gerði sex mörk gegn þremur mörkum SR-inga. Þetta var þriðji sigurleikur Bjarnarins í röð en áður hafði liðið einungis unnið einn leik.

Jafnræði var með liðunum í fyrstu lotu og langt var liðið á lotuna þegar Björninn komst yfir með marki frá Ólafi Hrafni Björnssyni. Bjarnarmenn ætluðu sér greinilega að reyna halda forystunni fram að hléi, en SR-ingar voru á öðru máli og innan við tveimur mínútum seinna jafnaði Þórhallur Viðarsson metin fyrir SR.

Áfram var nokkurt jafnræði með liðunum í annarri lotu þótt Bjarnarmenn væru öllu grimmari. Og fyrir það uppskáru þeir verðskuldað þrjú mörk í annarri lotu. Það voru Birgir Hansen, Sigursteinn Sighvatsson og Matthías S. Sigurðsson sem gerðu mörkin. Staðan því 4:1 Birninum í vil þegar annarri lotu lauk.

Þeir bræður Egill og Gauti Þormóðssynir voru hins vegar á öðru máli og með tveimur mörkum um miðja þriðju lotu komu þeir SR-ingum inn í leikinn aftur. En það voru Bjarnarmenn sem áttu lokaorðin; Gunnar Guðmundsson og fyrrnefndur Matthías gulltryggðu sigur Bjarnarins.

SR-ingar söknuðu markmanns síns, Ævars Þórs Björnssonar, sem var í leikbanni. Vörn SR-inga var þó með allra daufasta móti og að þessu sinni náðu Bjarnarmenn að nýta sér það vel.

Sergei Zakvar ánægður með sigurinn og sagði að leikurinn hefði unnist á samvinnu leikmanna sem hefðu skautað mikið allt til enda. „Svo átti markmaðuinn minn, Styrmir Snorrason, mjög góðan leik og bjargaði okkur oft þegar á reyndi,“ sagði Sergei.