Baldur Guðlaugsson
Baldur Guðlaugsson
KRAFA Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, um að kyrrsetning eigna hans yrði dæmd ógild var í gær tekin til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

KRAFA Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, um að kyrrsetning eigna hans yrði dæmd ógild var í gær tekin til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Björn Þorvaldsson saksóknari krafðist frávísunar þar sem Baldur gæti ekki kært kyrrsetninguna á grundvelli þess lagaákvæðis sem vísað var til.

Sýslumaðurinn í Reykjavík kyrrsetti í nóvember, að beiðni sérstaks saksóknara, nær 193 milljóna söluhagnað Baldurs á hlutabréfum í Landsbankanum sem hann seldi stuttu fyrir hrun, í september 2008.

Kyrrsetningu er beitt ef hætta er á undanskotum eigna, þær glatist eða rýrni að mun.

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Baldurs, sagði kyrrsetningu eignanna óvægna, tilefnislausa og nær fordæmalausa og að mál Baldurs uppfyllti ekki þrjú skilyrði kyrrsetningar. Ákvæðinu væri afar sjaldan beitt og það hefði jafnvel staðið til að fella það úr nýju sakamálalögunum.

Björn sagði ákvæði um kyrrsetningu m.a. metið eftir eðli brota. Þá vísaði hann til fjársvikamáls í Tryggingastofnun ríkisins en þar hefði kyrrsetningu verið beitt athugasemdalaust gegn fjölda aðila.

Vænta má niðurstöðu í máli Baldurs innan mánaðar.

sigrunrosa@mbl.is