Sigurður Thorlacius
Sigurður Thorlacius
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frá Sigurði Thorlacius, Árna Johnsen og Guðrúnu Birnu Jakobsdóttur: "MIKILL misskilningur hefur orðið í sumum erlendum fjölmiðlum eftir að forsetinn okkar synjaði nýjasta lagafrumvarpi um Icesave og gaf því ákvörðunarréttinn til þjóðarinnar."

MIKILL misskilningur hefur orðið í sumum erlendum fjölmiðlum eftir að forsetinn okkar synjaði nýjasta lagafrumvarpi um Icesave og gaf því ákvörðunarréttinn til þjóðarinnar. Margir erlendir fjölmiðlar virðast halda að við ætlum að hlaupast undan skuldum okkar og séum í raun prakkarar sem ætla að gefa skít í heiminn. Þetta er ekki aðeins gróf túlkun heldur einnig kolröng, því það er löngu staðfest að við ætlum að standa við lagalegar skuldbindingar okkar. Kosningin gengur ekki út á hvort við eigum að greiða skuldbindingar okkar vegna Icesave, heldur hvernig þeim greiðslum verður háttað og hvaða fyrirvarar muni gilda um þær. Einhvern veginn hefur það farið fram hjá stjórnvöldum að ítreka þetta og leiðrétta misskilninginn, þetta hlutverk virðist lenda í höndum óbreytts almúgans eða samtaka sjálfboðaliða eins og Indefence-hópsins.

Svo má spyrja sig hvort það geti virkilega verið að erlendir fjölmiðlar og erlend stjórnvöld séu svona illa að sér að skilja og túlka ákvörðun forseta okkar? Það höldum við ekki. Þetta er greinilega hræðsluáróður.

Bresk utanríkisþjónusta er þekkt fyrir hæfni sína í að berjast fyrir hagsmunum sínum eftir margra alda reynslu. Bresk og hollensk stjórnvöld eru að öllum líkindum búin að vera mánuðum saman að undirbúa gagnárás á íslenska ríkið ef svo færi að við samþykktum ekki Icesave. Hræðsluáróðurinn má sjá í „mistúlkun“ fjölmiðlanna, en undirliggjandi eru viðsemjendur okkar, það eru bresk og hollensk stjórnvöld, að hræða okkur til að samþykkja Icesave-samninginn.

Það merkilega við þetta er að ríkisstjórnin okkar virðist taka þátt í þessum hræðsluáróðri og spáir engu nema sóti og ösku ef Icesave-samningurinn verður ekki samþykktur í núverandi mynd. Þetta gerir engum gott og vísast væri fyrir ríkisstjórnina að taka sig á, rétta mál okkar á alþjóðlegum vettvangi og gera sér grein fyrir þeim hræðsluáróðri sem kemur og mun áfram koma frá viðsemjendum okkar. Þau ættu hins vegar að láta hjá líða að taka undir þennan hræðsluáróður gagnvart sinni eigin þjóð.

SIGURÐUR THORLACIUS,

ÁRNI JOHNSEN og

GUÐRÚN BIRNA

JAKOBSDÓTTIR,

nemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð og Háskóla Íslands.

Frá Sigurði Thorlacius, Árna Johnsen og Guðrúnu Birnu Jakobsdóttur