Karen Elísabet Halldórsdóttir
Karen Elísabet Halldórsdóttir
Eftir Karenu Elísabetu Halldórsdóttur: "Uppgjöf á grundvelli þess að hlutirnir séu „leiðinlegir“ er ekki í boði..."

NÚ BER svo við að forseti Íslands hefur ákveðið að vera samkvæmur sjálfum sér og auk þess hlusta á rödd þjóðar sinnar og alþingismanna hvort sem þeir eru í ríkisstjórn eður ei.

Margir tóku andköf þegar forsetinn neitaði að skrifa undir ríkisábyrgðina. Gífuryrðin létu ekki á sér standa og mátti sjá fréttamenn fara offari í spurningum sínum, svo mikil voru tíðindin. Enda kom þetta á óvart. Forsetinn hafði neitað óskabarni sínu um undirritun á vondan víxil. Börnin hans fóru samstundis í fýlu og sögðu að allt væri ónýtt. Svo mikið kom þeim þetta á óvart að þau virtust engan veginn tilbúin til þess að mæta þessum tíðindum. Afleiðingar hroka þeirra mátti strax sjá í illa upplýstum erlendum fjölmiðlum og barnalegum viðbrögðum þeirra um vilja ekki ferðast með forsetanum.

Þrátt fyrir að þetta mál hafi verið reifað endalaust að því virðist á Alþingi þá er einnig merkilegt að sjá og heyra hversu margir eru illa upplýstir um þennan samning. Það er kannski ekki furða þar sem almannatengsl Íslands og sér í lagi núverandi ríkisstjórnar, og þeirrar sem var í hruninu, hafa verið til skammar. Margir héldu til að mynda að nú væri verið að kjósa um samninginn sjálfan eða jafnvel að borga ekki neitt. Hið rétta er auðvitað að í lok ágúst 2009 samþykktu íslensk stjórnvöld að þau myndu standa við skuldbindingar sínar gagnvart innistæðueigendum í Bretlandi og Hollandi. Það hefur ekkert breyst. Það sætir því furðu þetta upphlaup í erlendum fjölmiðlum sem og íslenskum. Nú er verið að kjósa um útvatnaða fyrirvara frá því í október um ríkisábyrgð. Það sem er afar sárt að sjá í íslenskri umræðu er að sumir virðast afskrifa þetta mál eins og að nóg sé komið og að þetta sé svo „leiðinlegt“. Mörg verk eru leiðinleg en nauðsyn þeirra verður að vera í fyrirrúmi. Þegar velta á fyrir sér hvers vegna u.þ.b. 60.000 Íslendingar hvöttu til að forseti undirritaði ekki þennan víxil þarf að hafa eftirfarandi í huga áður málið er sett til hliðar sem „leiðinlegt“.

Frá því í janúar 2009 hafa Íslendingar greitt eða munu greiða vexti af „láni“ Breta og Hollendinga. Þetta eru 100.000.000 á dag.

Það hefur aldrei verið raunhæft að Ísland myndi sleppa alfarið við að greiða þetta „lán“ til baka þrátt fyrir gallaða löggjöf.

Ísland mun greiða meira en innistæðutrygginguna vegna vaxta og kostnaðar Breta og Hollendinga við umstangið.

Hvort 300.000 manna örþjóð getur staðið undir þessum skuldbindingum hafa verið skiptar skoðanir um, því miður virðast þær vera hápólitískar frekar en raunhæfar.

Skattar af innistæðum í Bretalandi og Hollandi fóru til þarlendra stjórnvalda.

AGS hefur gefið út að þessi höfnun skipti ekki máli.

Allar hótanir ríkistjórnarinnar um „hrikalegar“ afleiðingar hafa ekki gengið eftir frá því að krafan um undirritun hófst. Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi en umhugsunarverður. Ég tel að það verði enn „leiðinlegra“ að greiða þessar fjárhæðir til baka með blóði, svita og tárum barna okkar og barnabarna ef þau kjósa að eiga hér heima. Þegar við horfum fram á bága heilbrigðisþjónustu og svelt menntakerfi munum við hugsa til baka og sjá að þolinmæði og kraft þarf til að ganga í erfið verk. Uppgjöf á grundvelli þess að hlutirnir séu „leiðinlegir“ er ekki í boði fyrir þá framtíð sem okkur sárvantar að trúa núna á.

Höfundur er BA í sálfræði og MS í mannauðsstjórnun.