Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
LJÓST er að væntanleg lög um persónukjör munu ekki verða afgreidd í tæka tíð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí, að sögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, formanns allsherjarnefndar Alþingis.

LJÓST er að væntanleg lög um persónukjör munu ekki verða afgreidd í tæka tíð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí, að sögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, formanns allsherjarnefndar Alþingis. Málið verður að vísu tekið upp á ný þegar þing kemur saman en sveitarfélögin þurfa lengri undirbúningstíma en svo að hægt verði að notast við lögin í næstu kosningum, jafnvel þótt þau verði samþykkt á þinginu.

Samband íslenskra sveitarfélaga taldi í umsögn sinni um frumvarpið upp kosti við frumvarpið um persónukjör og einnig ýmsa ókosti, m.a. að jafnræði kynjanna yrði ekki tryggt og hætta yrði á innbyrðis átökum innan framboðslista í aðdraganda kosninga.

Fram kom að sú hugmynd nyti töluverðs stuðnings að að þessu sinni yrði aðeins kveðið á um heimild til að viðhafa persónukjör fremur en að skylda sveitarfélög til þess. Með því móti mætti gera tilraun með persónukjör í nokkrum sveitarfélögum við næstu sveitarstjórnarkosningar og meta í framhaldinu hvort ástæða væri til að lögfesta slíkt fyrirkomulag við sveitarstjórnar- og alþingiskosningar. kjon@mbl.is