Aftur Bárujárn hafnaði í þriðja sæti GBOB í fyrra. Spurning hvað gerist nú?
Aftur Bárujárn hafnaði í þriðja sæti GBOB í fyrra. Spurning hvað gerist nú? — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HIN árlega hljómsveitakeppni Global Battle of the Bands hefst á föstudaginn kemur. Tvö undanúrslitakvöld verða haldin, þ.e. föstudaginn næsta og laugardaginn þar á eftir, en svo fara úrslit fram laugardaginn 23. janúar.

HIN árlega hljómsveitakeppni Global Battle of the Bands hefst á föstudaginn kemur. Tvö undanúrslitakvöld verða haldin, þ.e. föstudaginn næsta og laugardaginn þar á eftir, en svo fara úrslit fram laugardaginn 23. janúar. Keppnin er haldin í Sódómu Reykjavík og mun sigursveitin tryggja sér þátttökurétt í aðalkeppninni sem fram fer á tónleikastaðnum Scala í Lundúnum í apríl komandi. Í verðlaun þar eru tíu þúsund dollarar, vikudvöl í hljóðveri með upptökumanni í London og tíu daga tónleikaferð um England.

Fyrirkomulag keppninnar er afar opið, allar sveitir sem áhuga hafa á að taka þátt í henni geta það, að því tilskildu að þær leiki tvö frumsamin lög.

Í fyrra (2008 þ.e.) vann hljómsveitin Agent Fresco undankeppnina hér á landi en fyrri sigurvegarar eru Lights on the Highway (2004), Finnigan (2005), Perla (2006) og Cliff Clavin (2007).

Heillavænleg þróun

Franz Gunnarsson talar fyrir hönd hérlendra skipuleggjara.

„Þetta er semsagt GBOB 2009, en framkvæmdir drógust á langinn þar sem höfuðstöðvarnar í London eru komnar með nýjan framkvæmdastjóra og nýir fjárfestar eru auk þess komnir að málum.“

Úrslitin hafa færst fram til apríl af þessum sökum en nýir stjórar hafa hug á að koma keppninni í sjónvarpið og auka veg hennar á alla lund.

„Mér líst afskaplega vel á þessa þróun mála,“ segir Franz. „Við ætluðum á tímabili að hætta við en vorum hvattir áfram af hljómsveitum að halda þetta. Ég lít á þetta fyrst og fremst sem leið til að halda tækifærum fyrir íslenskar sveitir opnum, því flesta dreymir jú um að koma tónlist sinni á framfæri víðar en bara hér.“

Franz segir að löndin sem halda undanúrslitakeppni séu vel yfir þrjátíu og nú standi yfir vinna sem miði að því að löndin hafi meira samráð sín á milli hvað framkvæmdir varðar en áður hefur verið.

Góður skóli

„Úti eru t.d. keyrðir einhverjir Global Battle-túrar og það væri frábært ef íslensk sveit ætti kost á að komast inn í einn slíkan,“ segir Franz. „Þá hefur verðlaunaféð verið lækkað niður í 10.000 dollara en á móti kemur að sveitin á kost á að dvelja vikutíma í hljóðveri og fara svo í tónleikaferðalag um Bretland þar sem allur kostnaður er greiddur. Bara upp í rútu og af stað! Að mínu viti er þetta mun sniðugra og meiri skóli en að moka bara peningum í liðið. Yngri böndin sérstaklega græða á svona löguðu, fá reynslu og undirbúning í tengslum við það sem drífur þau áfram – sjálfa tónlistina.“

Dómnefnd á kvöldunum er skipuð þeim Arnari Eggerti Thoroddsen, Ómari Eyþórssyni og Atla Fannari Bjarkasyni. Fjölgað verður í dómnefnd á úrslitakvöldinu.