Þorkell Sigmundsson fæddist í Hælavík á Hornströndum 11. janúar 1925. Hann lést í sjúkraskýlinu í Bolungarvík 28. desember síðastliðinn. Foreldrar Þorkels voru Sigmundur Ragúel Guðnason, f. 13. desember 1893, d. 6. október 1973, og Bjargey Pétursdóttir, fædd í Hælavík, 5. júní 1902, d. 30. sept 1987. Systkini Þorkels eru. 1) Pétur f. 1. september 1921, d. 23. september 1992. 2) Guðný Hjálmfríður f. 16. september 1922, d. 23. september 2004. 3) Petólína f. 16. septeber 1922, d. 10. október 2006 (þær voru tvíburar). 4) Kjartan f. 22. desember 1927, d. 11. júní 2009. 5) Guðfinna Ásta f. 20. febrúar 1931, d. 9. nóvember 1979. 6) Ingibjörg Unnur f. 20. maí 1933. 7) Trausti f. 24. nóvember 1937, d. 9. ágúst 1989. Eftirlifandi eiginkona Þorkels er Hulda Margrét Eggertsdóttir f. 6. janúar 1935. Foreldrar hennar voru Valborg Guðmundsdóttir f. 1. ágúst 1914, d. 3. ágúst 2004 og Eggert Karvel Haraldsson f. 9. apríl 1904, d. 28. janúar 2002. Þau bjuggu í Bolungarvík. Börn Huldu og Þorkels eru. 1) Eggert Valur f. 9. maí 1952, eiginkona hans var Helga Bjarnadóttir, frá Reykjavík, hún lést 24. júní 2009. Hann á 5 börn þau eru Sunneva, Hulda Margrét, Gísli Valur, Gunnar Örn og Erla Rut og 3 stjúpbörn, Sigríði Margréti, Einar og Bjarna. 2) Guðni Kjartan f. 2. mars 1954, eiginkona hans er Guðrún Guðmundsdóttir frá Ísafirði og þau eiga 3 syni, þeir eru Sigmundur Ragúel, Stefán Atli og Símon Elí. 3) Hulda Margrét f. 6. apríl 1957, sambýlismaður hennar er Guðmundur Sigurvinsson, frá Sæbóli á Ingjaldssandi, hún á 1 son, Þorkel, og 2 stjúpbörn, Ástu Maríu og Sigurvin. 4) Sigmundur Bjargþór f. 27. ágúst 1961, hans kona er Sigríður Björgmundsdóttir frá Kirkjubóli í Valþjófsdal, þau eiga 2 dætur sem heita Gerður Ágústa og Hugrún Embla. 5) Falur f. 29. október 1963, hans kona er Kristrún Hermannsdóttir frá Þingeyri og eiga þau 4 syni, þeir eru Hermann Ási, Andri Freyr (látinn), Axel Ívar og Eyþór Ingi. 6) Þorkell nafni hans og dóttursonur ólst að mestu upp hjá afa sínum og ömmu. Langafabörn hans eru orðin 10. Hulda og Þorkell hófu búskap á Horni í Hornvík árið 1951, og voru síðustu ábúendur í Sléttuhreppi, fluttu þaðan til Bolungarvíkur ári seinna og bjuggu þar upp frá því. Þar stundaði hann ýmis störf, aðallega sjómennsku og lengst af á sínum eigin trillum sem allar báru nafnið Fákur Ís 5. Þorkell verður jarðsunginn frá Hólskirkju í Bolungarvík laugardaginn 9. janúar og hefst athöfnin kl. 14.

Þorkell Sigmundsson, móðurbróðir minn, var til moldar borinn í Hólskirkjugarði í Bolungarvík, laugardaginn 9. janúar síðast liðinn, en hann fékk friðsælt andlát á sjúkraskýlinu í Bolungarvík 28. desember.

Keli var sem ungur maður glæsilegur á velli, léttur í skapi og oftast með gamanyrði á vörum. Á vorin fór Keli með bræðrum sínum í eggjatöku í Hornbjargi og Hælavíkurbjargi eins og venja var meðal þeirra sem ólust upp við björgin. Í bjargferð árið 1950 urðu straumhvörf í lífi Kela þegar hann kynntist ungri og glæsilegri stúlku sem var ráðskona bjargmanna frá Bolungarvík. Þetta var Hulda Eggertsdóttir, sem varð eiginkona hans til æviloka. Þau hófu búskap á Horni í Hornvík 1951 sem þá var komin í eyði og eru því síðustu ábúendur í Hornvík. Eins og gefur að skilja var búseta á Horni vonlaus til frambúðar og fluttust ungu hjónin til Bolungarvíkur þar sem Keli réri til fiskjar á trillu sinni Fák ÍS-5.  Ég átti því láni að fagna að kynnast þeim Kela og Huldu betur þegar Keli bauð mér að róa með honum á Fáknum. Var ég á skaki með honum í tvö sumur og bjó hjá þeim þótt þröngt væri í gömlu verbúðinni. En þar sem hjartarými er verður aldrei þröngt því mér leið alltaf eins og einu af börnunum þótt eldri væri en þau. En þessi tími var engu að síður mikil lífreynsla því Keli sótti fast sjóinn, fór gjarnan fyrstur út og kom oftast síðastur í land. Hafði þá alltaf auga með öðrum harðjöxlum eins og Ella Ketils og norska Pera að þeir væru lagðir af stað í land á undan honum. Eins og ríkjandi er í okkar ætt hafði Keli ákveðnar skoðanir á flestum hlutum og var óspar á að láta þær í ljós. Honum var jafnframt meinilla við að skipta um skoðun í rökræðum og gátu skoðanaskipti okkar á sjónum staðið yfir meirihluta sjóferðar án þess að nokkur niðurstaða fengist önnur en sú að báðir lýstu því yfir að hinn væri mesti þverhaus sem fyrirfyndist. En þrátt fyrir þrætugirnina, sem hann í raun iðkaði sem íþrótt, var alltaf stutt húmorinn hjá Kela og hann gat með einni setningu breytt andrúmsloftinu úr rifrildi í hlátrasköll.  Eins og Keli átti ætt til var hann mikill ljóðaunnandi og kunni heilu ljóðabækurnar utan að. Hann átti létt með að setja saman vísur, gerði margar tækifærisvísur bæði um sjálfan sig og aðra með léttum húmor og jafnvel kaldhæðni, einkum ef hann orti um sjálfan sig.

Í einkalífinu átti Keli hamingjusama ævi með  Huldu, sem alltaf stóð eins og klettur við hlið hans í blíðu og stríðu, og börnunum 5 sem öllu komust á legg, vel gefin og vel gerð.

Svo hörmulega vildi til fyrir meira en áratug að Keli reyndist vera kominn með heilabilun sem leiddi af sér að persónuleiki hans fór smán saman að fjara út eftir því sem sjúkdómurinn ágerðist. Þó mátti lengi sjá á góðum stundum gamla glettnisglampann kvikna í augum þegar rifjaðar voru upp gamlar og góðar minningar.

Með þessum fátæklegu orðum viljum við Þórunn og börn okkar senda Huldu, börnum og barnabörnum hlýjar samúðarkveðjur.

Tryggvi Guðmundsson.