Prestshjónin Séra Halldór Gunnarsson og Margrét Jónsdóttir Kjerúlf í stofunni í Holti. Þegar presturinn lítur yfir farinn veg finnst honum einna dýrmætast að hafa fengið það hlutverk að verða sveitaprestur og bóndi.
Prestshjónin Séra Halldór Gunnarsson og Margrét Jónsdóttir Kjerúlf í stofunni í Holti. Þegar presturinn lítur yfir farinn veg finnst honum einna dýrmætast að hafa fengið það hlutverk að verða sveitaprestur og bóndi. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Halldór Gunnarsson, prestur og bóndi í Holti undir Eyjafjöllum, hefur varið ævi sinni í baráttu fyrir hrossabændur og þjóðkirkjuna. Hefur oft skipað sér í fylkingarbrjóst þar sem orrustan hefur verið hörðust.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Halldór Gunnarsson, prestur og bóndi í Holti undir Eyjafjöllum, hefur varið ævi sinni í baráttu fyrir hrossabændur og þjóðkirkjuna. Hefur oft skipað sér í fylkingarbrjóst þar sem orrustan hefur verið hörðust. Sveitapresturinn á sér þó mýkri hlið. Hann ætlaði að verða verkfræðingur en tákn frá Guði vísuðu honum leiðina inn í guðfræðina og að Holti þar sem hann hefur setið í 43 ár. Halldór er með mestu starfsreynslu þeirra presta sem nú starfa og þar af leiðandi sá sem lengst hefur setið sama stað. Þeirri sögu er að ljúka því Halldór lætur af störfum í byrjun næsta árs, þegar hann verður sjötugur, en hann er ekki líklegur til að sitja lengi með hendur í skauti.

Í Halldóri búa tveir ólíkir menn, eins og hann lýsir sjálfur. „Í föðurættinni er sérstaklega sterk tilfinning fyrir réttlæti og að gefa ekki eftir í neinu. Þar eru Jón harði bóndi og Kristján ríki í Stóradal áberandi. Eldra fólk sem þekkti Gunnar Bjarnason veit þetta,“ segir Halldór sem er sonur Gunnars Bjarnasonar hrossaræktarráðunautar sem var mikill eldhugi og baráttumaður.

„Í móðurætt minni eru hinsvegar embættismenn; mikið prestar og biskupar allt aftur til Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups.“ Svava móðir Halldórs var dóttir Halldórs Vilhjálmssonar skólastjóra á Hvanneyri. Afi hennar var Þórhallur Bjarnarson biskup.

„Ég er því öðrum þræði tilfinningaríkur prestur, á stundum erfitt með mig og fer jafnvel að gráta á viðkvæmum stundum,“ segir Halldór þegar hann lýsir mjúka manninum. „Hins vegar er harði bóndinn. Ef mér finnst vera brotið á mér eða umhverfinu get ég verið afskaplega harður í horn að taka.“

Regnboginn breytti öllu

Halldór er fæddur 14. janúar 1941. Hann tók mikinn þátt í félagsmálum í Menntaskólanum á Akureyri og var ákveðinn í því að verða verkfræðingur. Stærðfræðin lá vel fyrir honum en tungumálin síður. Það átti ekki eftir að verða vegur hans að hafa atvinnu af útreikningum. „Ég stóð frammi fyrir ákveðnu uppgjöri og gat ekki annað en farið í guðfræðideild þótt ég væri ekki undir það búinn,“ segir Halldór en vill ekki fara nánar út í þá sálma. „Þegar ég hafði lokið náminu eftir tiltölulega stuttan tíma var ég ekki tilbúinn að verða prestur og var ráðinn í að fara í framhaldsnám til Skotlands.“

Örlögin gripu í taumana sem fyrr. Það vantaði prest í Holtsprestakall undir Eyjafjöllum. Sóknarnefndarformaðurinn, Eysteinn Einarsson vegaverkstjóri á Brú, frétti að sonur Gunnars Bjarnasonar hefði verið að útskrifast og hafði trú á að hann væri líkur föður sínum. „Ég man að ég hitti Eyjólf á hestamannamóti á Rangárbökkum. Hann var vel klæddur og höfðinglegur, og tók ofan hattinn þegar hann hitti okkur. Ég var aftur á móti klæddur í lopapeysu, strákslegur í útliti – eins og ég er enn þann dag í dag.“

Eysteinn talaði til Gunnars eins og Halldór væri ekki viðstaddur: „Við höfum heyrt að þú eigir son, nýútskrifaðan guðfræðing. Vill hann ekki koma í Holt?“ Halldór segist hafa séð á fasi hans að hann teldi að það hlyti að vera hægt að nota son Gunnars Bjarnasonar.

„Ég sagði nei og gaf þá skýringu að ég hefði ekki hugsað mér að gerast prestur. Eysteinn lýsti því hvað kirkjurnar í Holtsprestakalli væru fallegar og gott að vera í Holti. Eysteinn gafst ekki upp við nokkurt mál og að endingu lofaði ég að heimsækja hann.“

Halldór ók austur á fallegum degi í ágúst 1967. „Það hafði rignt og loftið var tært og Fjöllin gátu ekki verið fegurri. Ég skoðaði kirkjurnar og þær voru vissulega fallegar. Í Holti var hins vegar allt í niðurníðslu. Vatn í kjallara og saggi í öllu húsinu. Ég hugsaði með sjálfum mér að hér yrði ég aldrei prestur, ég héldi stefnu minni og færi utan.

Þegar ég kom út á tröppurnar og leit til fjalls myndaðist fallegur regnbogi. Það var eins og talað væri til mín að hér ætti ég að verða prestur og það varð.“

Barist gegn stöðnuðu kerfi

Halldór segir að vissulega hafi það verið erfitt hlutskipti að vera prestur í Holti með þessa tvo ólíku menn innra með sér og sem tókust stundum á. Prestar voru með lág laun og þurftu að vinna við kennslu eða vera með búskap til að afla heimilinu tekna. Halldór sogaðist fljótt inn í félagsmál hrossabænda.

Það byrjaði þannig að Albert Jóhannsson í Skógum, formaður Landssambands hestamanna, fékk hann til að ritstýra tímaritinu Hestinum okkar 1971. Það varð hlutskipti hans að sinna fullri kennslu og starfa sem bóndi og ritstjóri, auk embættisstarfanna.

„Þá kynntist ég hestamönnum og baráttu þeirra við bændaforystuna sem vildi aðeins flytja út annars flokks hross. Ég vildi líka hjálpa föður mínum í hans baráttu fyrir hestamenn. Tók þátt í stofnun Félags hrossabænda 1975 með Einari E. Gíslasyni á Skörðugili og fleiri góðum mönnum. Ég vildi breyta þessu staðnaða félagskerfi. Fór fyrst á Stéttarsambandsfund 1985 og var þar í félagsmálabaráttu í tíu ár. Það var ógurlega erfitt að fá fram breytingar á því kerfi sem bændur bjuggu við. Ég setti fram í blaðagrein hugmyndina um beinar greiðslur til bænda og einnig að fá það upp á borðið hvað bændur voru raunverulega að greiða í félagsgjöld og annað. Það hafði allt verið falið í heildsöluverði og flóknu millifærslukerfi.“

Halldór var formaður markaðsnefndar Félags hrossabænda og síðar framkvæmdastjóri félagsins og stóð fyrir ýmsum nýjungum í markaðsmálum. „Við fengum ekki ásættanlegt verð hjá sláturleyfishöfum þannig að við fórum sjálfir í útflutning. Fluttum út sláturhross og reiðhross með flugvélum og hrossakjöt með flugvélum til Japans. Þannig fengust allt önnur verð fyrir afurðirnar.“

Unnið fyrir þjóðkirkjuna

Harði bóndinn í Halldóri hellti sér síðan út í kirkjumálin. Hann hafði verið í starfsháttanefnd kirkjunnar á áttunda áratugnum og vann að því að tryggja eignarhald þjóðkirkjunnar á kirkjujörðum og prestsetrum. Hann segir að baráttan hafi verið erfið og tekið langan tíma en allt hafi náðst fram að lokum.

Halldór var kjörinn fulltrúi á kirkjuþing 1982 en flutti svo margar tillögur að hann var talinn ofvirkur og eldri prestar á Suðurlandi ákváðu að kjósa annan fulltrúa að loknu fjögurra ára kjörtímabili. Halldór kom aftur inn á kirkjuþing 1998 og lýkur störfum þar á þessu ári. Þá hefur hann verið átta ár í kirkjuráði sem fer með framkvæmdavald kirkjunnar. Þar hefur einnig reynt á harða bóndann – og stærðfræðikunnáttuna.

Þrátt fyrir tímafrek og krefjandi félagsmálastörf fyrir hrossabændur og þjóðkirkjuna hefur starfsvettvangur Halldórs fyrst og fremst verið heima í Holti þar sem hann hefur sinnt sínum prestsstörfum, fyrst í Holtsprestakalli og síðan einnig í Bergþórshvolsprestakalli í Landeyjum frá 1997 þar til það var sameinað Holtsprestakalli. Jafnframt hefur presturinn verið með töluverðan búskap, hátt í hundrað hross og sauðfé.

„Ég hefði aldrei getað tekist á við þetta nema hafa Margréti Jónsdóttur Kjerúlf, mína yndislegu konu, mér við hlið. Það er ekki lítið hlutverk sem eiginkona prestsins hefur. Hún hefur alltaf verið tilbúin að taka á móti gestum og verið til staðar í þjónustu við starf mitt án þess að það hafi verið metið.“

Er í gamla Bændaflokknum

„Það veit enginn ævina fyrr en öll er,“ segir Halldór þegar hann er spurður um það hvað taki við. Pólitíski vettvangurinn er alltaf til staðar.

Hann segist vera í Bændaflokknum sem sameinaðist Frjálslynda flokknum og síðan Íhaldsflokknum og varð að Sjálfstæðisflokknum sem vildi standa vörð um það sem er rétt og þola eigi órétt. Hann segist hafa reynt að segja skoðanir sínar á þeim vettvangi en sé ekki fyllilega sáttur við stöðu mála. „Ég vil að starf bóndans verði metið að verðleikum og er alltaf tilbúinn til að leggja þeim lið sem vilja berjast fyrir góðum málstað,“ segir Halldór Gunnarsson.

Góður prestur en stundum fljótfær

„FÓLKI finnst þetta sárt og er ekki sátt við þessa breytingu. En hún er óumflýjanleg vegna þeirra breytinga sem orðið hafa í landinu,“ segir Halldór Gunnarsson um prestakallið sitt sem lagt verður niður þegar hann lætur af störfum í upphafi næsta árs.

Séra Haraldur Kristjánsson í Vík tekur við Eyjafjallasóknum og Landeyjarnar falla til séra Önundar Björnssonar á Breiðabólsstað.

„Þegar ég kom hingað fyrir 43 árum voru fjórir barnaskólar og einn héraðsskóli undir Eyjafjöllum. Nú er hér enginn skóli. Þegar ég kom voru um fjörutíu kúabú í hverjum hreppi en nú eru um fimm til tíu kúabú í hverjum hinna gömlu hreppa.

Ég hefði viljað kveðja sóknarbörnin sátt á mínu síðasta starfsári. Þegar ég lít yfir starfsævina finnst mér hlutskipti mitt sem prestur og bóndi dýrmætt. Ég hef verið með fólkinu í erfiðleikum og gleði, við skírnir, fermingar, giftingar og jarðarfarir. Það er reynsla mín að sóknarbörnin meta prestinn sinn mikið út frá því hvernig þessar athafnir takast.“

Þegar hann er spurður hvaða einkunn hann vilji fá frá sóknarbörnunum stendur ekki svari: „Góður prestur en stundum fljótfær. Þetta hefur oft verið sagt um mig. Þegar ég lít til baka finnst mér það góð gjöf að hafa verið fljótfær því það varð kveikja að svo mörgu sem ég gerði og er ánægður með en hefði annars látið ógert,“ segir Halldór.

Þjóðstjórn setji upp hvíta flaggið

„Í DAG hefði ég gjarnan viljað fá að sitja við þær aðstæður að ljúka starfi sem sáttur prestur. En þá vaknar með mér réttlætiskennd gagnvart þeirri stöðu sem uppi er í þjóðfélaginu núna og mér finnst ég ekki geta setið hjá,“ segir Halldór Gunnarsson.

„Í fyrsta skipti á minni starfsævi er að koma til mín fólk í miklum fjárhagserfiðleikum, skuldum vafðir bændur sem eru meðhöndlaðir eins og bónbjargarmenn hjá bankastofnunum, allir peningarnir eru teknir og þeim skammtað eitthvað smáræði til að lifa, og bændur sem skulda áburðinn frá því í fyrra og sjá ekki fram á að geta keypt áburð í ár. Stjórnmálamenn sem hafa látið allt reka á reiðanum í eitt og hálft ár tala nú eins og búið sé að leysa öll mál.“

Halldór metur stöðuna þannig að eina leiðin til að takast á við erfiðleikana sé að ná samstöðu í stjórnmálunum. Til þess þurfi að mynda þjóðstjórn. „Þá getum við sett upp hvíta flaggið og óskað eftir nýjum sáttmála við Norðmenn, ólíkum Gamla sáttmála. Við getum átt samstarf um nýtingu olíuauðlinda og fiskveiðar, um hina nýju siglingaleið um Norðurskautið og um Evrópska efnahagssvæðið. Ef Norðmenn vilja þetta ekki verðum við að leita til Kanada. Ef vestrænar þjóðir hafna okkur verðum við að snúa okkur austur, fyrst til Kína,“ segir Halldór.