Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir
Eftir Hrefnu Ösp Sigfinnsdóttur: "Við þurfum að muna að setja jafnrétti í forgang þegar kemur að endurskoðun á uppbyggingu þjóðfélagsins. Fjölbreyttur hópur nær betri árangri en einsleitur hópur. Ísland hefur oft verið fyrirmynd annarra ríkja þegar kemur að jafnréttismálum."

ALÞJÓÐLEGUR baráttudagur kvenna var 8. mars síðastliðinn. Hann er okkur áminning og tilefni til að líta um öxl og sjá hverju hefur verið áorkað hér á Íslandi í jafnréttismálum. Mikið hefur áunnist og er það fyrst og fremst að þakka harðri baráttu sem háð hefur verið. Enn er þó margt ógert á þessum mikilvæga vettvangi.

Ég fór út í lífið þess fullviss að kynjajafnrétti ríkti og engin ástæða væri til að velta því frekar fyrir sér. Mér fannst öll umræða um jafnrétti púkaleg og óþörf. Síðan eru mörg ár liðin og reynslan hefur kennt mér að staðan er enn ójöfn. Sú staðreynd að kynbundinn launamunur er enn til staðar er til að mynda ólíðandi. Við getum ekki hætt hér og notið þeirra ávinninga sem barátta formæðra okkar skilaði. Við þurfum að halda áfram. Við getum velt þeirri spurningu upp hvort „góðæri“ undanfarinna missera hafi skilað miklu fyrir kynjabaráttuna?

Þær miklu breytingar sem eiga sér stað í þjóðfélaginu nú eftir kerfishrunið eru í vissum skilningi tækifæri til að endurraða og endurskilgreina sem og því að svara spurningunni í hvernig samfélagi við viljum búa. Við þurfum að muna að setja jafnrétti í forgang þegar kemur að endurskoðun á uppbyggingu þjóðfélagsins. Fjölbreyttur hópur nær betri árangri en einsleitur hópur. Ísland hefur oft verið fyrirmynd annarra ríkja þegar kemur að jafnréttismálum. Við búum í litlu samfélagi og það er eins með lítil samfélög og lítil fyrirtæki, það ætti að vera auðveldara að koma þar á góðum breytingum. Höldum áfram að vinna að því að verða góð fyrirmynd annarra ríkja í jafnréttismálum. Það á eftir að hjálpa okkur mikið við að byggja aftur upp trúverðuga ímynd þjóðfélagi okkar til hagsbóta fyrir dætur okkar og syni.

Til að ná háleitum markmiðum um betra samfélag þar sem jafnrétti ríkir þurfum við öll að líta í eigin barm og gera það sem í okkar valdi stendur til að stuðla að jafnrétti. Það er ekki nóg að stjórnvöld setji tilmæli eða jafnvel lög, það þarf meira til svo að breytingar festist í sessi og verði að viðmiðum. Við sem komum að uppeldi barna þurfum að vanda okkur sérstaklega því viðmiðin og viðhorfin verða til strax þegar börnin eru ung. Virkjum kraft kvenna til góðra verka og þá verður samfélagið betra. Fjölbreytileikinn er það sem auðgar lífið og gerir það réttlátara og skemmtilegra.

Höfundur er viðskiptafræðingur.

Höf.: Hrefnu Ösp Sigfinnsdóttur