[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórar: Alastair Fothergill og Mark Linfield. Handrit: Alastair Fothergill, Mark Linfield og Leslie Megahey. Bretland, Þýskaland, Bandaríkin. 2007. 96 mín.
Earth er unnin upp úr þáttunum Planet Earth frá 2006. Sjálf myndin var frumsýnd víða um heim 2007 og 2009 í Bandaríkjunum og kemur því fremur seint til okkar Íslendinga.

Í Earth (enska útgáfan er sýnd hér og því er það leikarinn Patrick Stewart sem ávarpar áhorfandann) eru í aðalhlutverkum þrjár dýrafjölskyldur; ísbirnir á norðurskautinu í leit að æti, fílafjölskylda sem þarf að ferðast yfir Kalahari-eyðimörkina til að komast að vatni og hnúfubaksmamma og kálfurinn hennar sem ferðast alla leiðina frá miðbaug að suðurpólnum til að komast í hvalátu.

Myndin spannar eitt ár í lífi dýranna en ásamt því að fylgjast með fjölskyldunum þremur veitir myndin innsýn í lífsbaráttu ýmissa dýrategunda; hvernig þær bera sig að í tilhugalífinu, við fæðuöflun, uppeldi ungviðisins og baráttuna um að halda lífi. Myndin er fyrst og fremst einhvers konar óður til náttúruverndar og er það bæði hennar stærsti kostur og galli. Í henni er mjög stiklað á stóru og að vissu leyti hefði verið nær fyrir kvikmyndagerðarfólkið að einbeita sér almennilega að dýrafjölskyldunum þremur í stað þess að hoppa til og frá á milli tegunda. Vatnshræddir apar og sperringslegir paradísarfuglar í makaleit eru vissulega spaugilegt og áhugavert myndefni en þar sem takmarkaður fróðleikur fylgdi myndefninu skildi það fleiri spurningar eftir en það svaraði.

Af heimildamynd að vera svarar Earth í raun fáum spurningum; hvað er það t.d. sem veldur því að árstíðabundin flóðin inn á Okavango-óshólmana, sem eru fílunum lífsnauðsynleg, eru að minnka? Af hverju er hvalátan sem hnúfubakarnir éta svona mikilvæg öllu dýraríkinu? Ýmsum staðreyndum er kastað fram án þess að nánari útskýringar fylgi en kannski er það tilgangurinn, að vekja fólk til umhugsunar og fá það til að leita sér frekari fróðleiks.

Í myndinni er aðallega verið að sýna hvernig breytingar á loftslagi jarðar hafa skelfileg áhrif á dýraríkið. Það er í senn stórbrotið og átakanlegt að sjá sundurbrotna íshelluna bráðna undan ísbjörnunum og eyðimerkurstormana sundra fílahjörðinni sem þarf að ferðast óraleiðir til að komast að vatni. Myndatökurnar eru frábærar og þrátt fyrir að það sé dálítið leiðigjarnt hvað það er mikið klippt og hoppað frá einu í annað, hefur kvikmyndatökufólkinu tekist að fanga á filmu undraverða viðburði og stórkostlegt sjónarspil. Fyrir utan stór og víð skot af heilu dýrahjörðunum og ægifögrum náttúruundrum, eru hvítháfur á selaveiðum og blettatígur að elta gasellu meðal hápunkta.

Það má svo bæta því við að það er mikið gleðiefni að heimildamynd af þessu tagi skuli vera sett í almenna sýningu og fólki gefinn kostur á því að sjá hana á hvíta tjaldinu. Vonandi er þetta framtak bara byrjunin.

Hólmfríður Gísladóttir

Höf.: Hólmfríður Gísladóttir