SANNKALLAÐUR risaslagur verður á Old Trafford í hádeginu í dag þegar tvö efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni, Manchester United og Chelsea, leiða saman hesta sína. Fyrir leikinn er United með eins stigs forskot á Chelsea og með sigri gætu lærisveinar Sir Alex Fergusons stigið stórt skref í átt að 18. meistaratitlinum og þeim fjórða í röð.
Chelsea hafði betur í fyrri viðureign liðanna á Stamford Bridge í nóvember þar sem John Terry skoraði eina mark leiksins stundarfjórðungi fyrir leikslok en fimm ár eru síðan Chelsea hrósaði síðast sigri í ,,leikhúsi draumanna“. Þá hafði Chelsea betur, 3:1, þar sem þeir Tiago, Joe Cole og Eiður nokkur Guðjohnsen skoruðu mörk liðsins, sem hampaði meistaratitlinum það ár undir stjórn Jose Mourinho.
Eins og allri heimsbyggðinni ætti að vera kunnugt varð United fyrir gríðarlegu áfalli þegar þeirra besti maður, Wayne Rooney, meiddist í tapi Manchester-liðsins á móti Bayern München fyrr í vikunni og hann mun því ekki draga vagninn fyrir meistarana í dag.
Stuðningurinn gæti skipt sköpum
,,Chelsea hefur verið í toppsætinu megnið af tímabilinu og það er ástæða fyrir því, Chelsea er með mjög sterkt lið. Það býr mikil reynsla hjá leikmönnum Chelsea og þeir ætla að selja sig dýrt á móti okkur. Við þurfum að gjalda í sömu mynt og ég veit að við munum fá gríðarlega mikinn stuðning frá okkar stuðningsmönnum og það gæti skipt sköpum,“ segir Darren Fletcher.John Terry, fyrirliði Chelsea, segir að leikmenn liðsins verði drifnir áfram af minningunum frá því á síðustu leiktíð en Manchester United lagði Chelsea, 3:0, á Old Trafford. Terry segir að liðið sé staðráðið í að taka öll þrjú stigin en Chelsea hefur skorað 12 mörk í síðustu tveimur leikjum sínum og virðist hafa náð vopnum sínum á ný eftir fallið í Meistaradeildinni.
Minnumst tapsins í fyrra
,,Það er mikið undir í þessum leik og við förum í hann með fullt sjálfstraust. Við nálgumst leikinn óttalausir og við verðum bara að spila okkar leik. Old Trafford er erfiður völlur heim að sækja og við töpuðum þar illa í fyrra. Við höfum ekki gleymt því og það hvetur okkur til dáða,“ segir Terry.
gummih@mbl.is