JESSE James, eiginmaður leikkonunnar Söndru Bullock, er farinn í meðferð, en hann hefur verið í kastljósi fjölmiðlanna í Bandaríkjunum frá því að í ljós kom að hann hafði haldið fram hjá eiginkonunni.
Fjölmiðlafulltrúi staðfestir í yfirlýsingu, sem send var bandaríska tímaritinu People, að James hefði skráð sig í meðferð til þess að taka á persónulegum vandamálum. James hafi áttað sig á því að hann þurfi hjálp og sömuleiðis fjölskylda hans. Einnig vilji hann bjarga hjónabandinu. Ekki kemur fram út á hvað meðferðin gengur, en staðfest er að James hafi skráð sig inn á meðferðarstofnun 26. mars.
Bullock, sem er 45 ára, hlaut nýverið Óskar fyrir frammistöðu sína í myndinni The Blind Side . Þegar sannleikurinn kom í ljós flutti Bullock út, en fréttir herma að James hafi a.m.k. sængað hjá fjórum konum. James hefur beðist afsökunar á hegðun sinni, en hann hefur verið kvæntur Bullock í fimm ár.