Eftir Egil Ólafsson
egol@mbl.is
Við teljum að þetta verði metár,“ sagði Sonja Magnúsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar. Sömu sögu er að heyra frá öðrum talsmönnun fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Á síðasta ári fækkaði farþegum um Keflavíkurflugvöll um 17%. Ferðum Íslendinga fækkaði hins vegar mun meira. Erlendir ferðamenn halda áfram að streyma til landsins og Íslendingar virðast vera að búa sig undir að fara í auknum mæli til útlanda.
Sonja er bjartsýn á sumarið en sagði að sitt helsta áhyggjuefni væri skortur á gistingu á landsbyggðinni, sérstaklega við Skaftafell og Mývatn.
Sonja sagði að Ísland væri búið að vera mikið í fjölmiðlum erlendis og það hefði greinilega haft jákvæð áhrif á ferðamannastraum til landsins. Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hefði vakið áhuga erlendra ferðamanna á að koma til Íslands. „Reyndar höfum við líka lent í því að hópar hafa afbókað ferðir vegna hræðslu við gosið. Þeir eru þó fleiri sem eru spenntir fyrir að koma vegna gossins.“
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að árið í ár líti mjög vel út. Félagið hafi í mars flutt tæplega 90 þúsund farþega sem sé 25% aukning miðað við sama mánuð í fyrra. Bókanir í vor og sumar séu einnig mjög góðar. Hann segir að félagið hafi brugðist við þessu með því að bæta við flugferðum. Framboð á flugsætum hafi aukist um 13% frá síðasta ári.
„Það hefur gengið vel að nýta umfjöllun um Ísland og hagstæða stöðu krónunnar,“ segir Guðjón.
„Það er tugaprósenta aukning milli ára,“ segir Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Iceland Express, þegar hann er spurður um horfurnar í ár. Ástæðan fyrir þessu sé góð markaðssetning og umfjöllun um Ísland erlendis.
Matthías segir að bókanir séu mun betri en í fyrra, en þá varð mikill samdráttur í ferðum Íslendinga til útlanda. Framboð á ferðum hafi þá verið dregið mikið saman sem hafi leitt til þess að nýting í vélunum batnaði. Núna séu Íslendingar að bóka sig í ferðir í mun meira mæli en í fyrra.
Matthías segir að í fyrra hafi borið á skorti á bílaleigubílum yfir hásumarið og mjög mikilvægt sé að úr því verði bætt í ár annars fari erlendir ferðamenn annað.
Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist hafa trú á að nægt framboð verði á bílaleigubílum í sumar. Samkomulag hafi verið gert við stjórnvöld um að bílaleigur geti keypt notaða bíla og fengið virðisaukaskattinn endurgreiddan. Erna segir að meginverkefni ferðaþjónustunnar síðustu ár hafi verið að bæta nýtingu utan háannatímans. Þetta sé mjög mikilvægt því nauðsynlegt sé að bæta nýtingu á dýrri fjárfestingu eins og hótelum. Það sé hins vegar rétt að það geti verið skortur á hótelherbergjum í þær sex vikur þegar mest er að gera yfir sumarið.