Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
ADOLF Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir að trúnaðarbrestur hafi orðið milli stjórnvalda og útvegsmanna þegar sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem meðal annars heimilar sölu á auknum kvóta í skötusel. Það hafi verið gert þrátt fyrir loforð forystumanna ríkisstjórnarinnar um að þetta mál yrði tekið til umræðu í endurskoðunarnefnd fulltrúa stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka í sjávarútvegi.
Formaður og framkvæmdastjóri LÍÚ tóku þátt í starfi endurskoðunarnefndarinnar í upphafi starfs hennar á síðasta ári. „Það lá fyrir að við vorum á móti svokallaðri innköllunar- og fyrningarleið og áður en við tókum sæti í nefndinni fengum við loforð um að skötuselsfrumvarpið yrði rætt þar.“
- Hver lofaði því?
„Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra gerði það. Áður en erindisbréf nefndarinnar var sent út fóru fram samskipti um efni þess sem að lokum var samþykkt af forsætis- og fjármálaráðherra.
Við fengum loforð um að þessi mál yrðu rædd í nefndinni sem falið var það hlutverk að fara yfir fiskveiðistjórnarkerfið í heild og að reynt yrði að leiða það til lykta þar. Það var ekki gert. Með framlagningu frumvarps um breytingar á stjórn fiskveiða, skötuselsfrumvarpinu, varð trúnaðarbrestur á milli okkar og stjórnvalda. Það gengur ekki að gefa út yfirlýsingar um að ræða eigi málið í nefndinni en leggja síðan fram frumvarp um breytingar á því.“
Skötuselsfrumvarpið ekki rætt
Formaður og framkvæmdastjóri LÍÚ sátu fyrstu þrjá fundi nefndarinnar og segir Adolf að þeir hafi tekið þátt í starfinu af heilindum. Þeir hafi lagt skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte fram á fyrsta fundi nefndarinnar og talið sig sýna fram á það að fyrningarleiðin væri ekki fær. Segir hann að þá hafi komið fram að tíu fulltrúar í nefndinni voru andvígir innköllunar- og fyrningarleiðinni. Síðan hafi raunar fækkað um einn því afstaða fulltrúa Landssambands smábátaeigenda hafi breyst. „Það hefur komið í ljós að líklega hefur verið gert samkomulag á milli Landssambands smábátaeigenda og ríkisvaldsins um að landssambandið myndi styðja svokallað skötuselsfrumvarp ef strandveiðar yrðu heimilaðar.“Adolf segir að ekki hafi fengist nein umræða í nefndinni um skýrslu Deloitte eða skötuselsfrumvarpið. Hann bendir á að Háskólanum á Akureyri hafi verið falið að skoða ýmis atriði en engin gögn verið lögð fram um þá vinnu.
Fulltrúar útvegsmanna hættu að sækja fundi nefndarinnar í nóvember eftir að sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp til breytinga á fiskveiðistjórnuninni, til þess að laga ýmsa smærri ágalla á löggjöfinni, eins og hann orðaði það. Þessi ljóti fiskur, skötuselurinn, hefur haft víðtækari áhrif því í síðustu viku, þegar frumvarpið varð að lögum, sögðu Samtök atvinnulífsins sig frá samvinnu við ríkisvaldið um svokallaðan stöðugleikasáttamála en tiltóku fleiri vanefndir af hálfu ríkisins.
Adolf tekur fram að gerðar hafi verið margar tilraunir til að koma málinu í sáttafarveg og nefnir meðal annars fundi með forystumönnum ríkisstjórnarinnar um það efni.
Forsendur aflamarkskerfisins
- Getur þú ekki fallist á þau rök sjávarútvegsráðherra að breyta þurfi úthlutun skötuselskvóta vegna þess að fiskurinn hafi numið ný lönd við vesturströnd landsins?„Þetta mál snýst ekki um nokkur tonn af skötusel. Það snýst um forsendur aflamarkskerfisins sem hefur verið notað frá 1983. Við teljum að ef hægt er að auka kvótann þá eigi að úthluta honum til þeirra skipa sem hafa aflahlutdeild.
Það er ekkert sem kallar á breytta úthlutun kvóta þótt skötuselurinn hafi fært sig til. Við höfum séð slíkar breytingar á síld, ýsu, gulllaxi, humri og fleiri tegundum án þess að úthlutun kvóta væri breytt.
Grásleppukarlar við Breiðafjörð hafa verið að fá skötusel. Á öðrum veiðum þurfa menn að eiga kvóta fyrir þeim fiski sem kemur í veiðarfærin eða geta útvegað sér hann. Annars geta þeir ekki veitt. Það sama á að gilda um grásleppukarla við Breiðafjörð. Ég fæ ekki séð að það sé brýn ástæða til að breyta lögunum vegna þess. Þá hefði verið hægt að koma til móts við þá með öðrum hætti, til dæmis með því að heimila þeim að landa skötuselnum út á svokallaðan Hafró-kvóta. Þá væri ekki hvati til að stunda skötuselsveiðar en sjómennirnir fengju upp í kostnað.“
Adolf bætir því við að lögin heimili sjávarútvegsráðherra að úthluta allt að 2.000 tonnum til viðbótar 2.500 tonna kvóta sem úthlutað var fyrir yfirstandandi fiskveiðiár samkvæmt veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. „Það hafa engar nýjar upplýsingar komið frá Hafró um að þetta sé mögulegt. Svo miklar veiðar umfram ráðgjöf vísindamanna eru slæmar fyrir orðspor Íslendinga, þótt skötuselurinn sé ekki stór í þeirri mynd. Við erum að vinna að umhverfismerkingum og vottun um sjálfbærni veiða. Þetta er ekki gott innlegg í þá umræðu á alþjóðlegum mörkuðum.“
Við erum ekki til sölu
- Því hefur verið haldið fram að forystumenn útvegsmanna hafi slegið á útrétta sáttahönd stjórnvalda. Hver var þessi sáttahönd?„Það var orðað á fundi með sjávarútvegsráðherra að útvegsfyrirtæki með aflahlutdeild fengju 500 tonna viðbót við skötuselskvóta og aðeins yrðu boðin upp 500 tonn til viðbótar. Við svöruðum því þannig að þetta væri grundvallaratriði í okkar huga og við værum ekki til sölu.“
- Þetta er heimildarákvæði og ráðherra hefur lýst því yfir að það verði nýtt hóflega. Treystið þið því ekki?
Vísar Adolf einnig til ályktunar flokksstjórnar Samfylkingarinnar frá því í nóvember, um að bjóða eigi upp alla aukningu aflaheimilda og ummæli varaformanns sjávarútvegsnefndar Alþingis sama efnis. „Þetta er vísbending um það sem koma skal. Þingmenn hafa lýst þeirri skoðun sinni að með skötuselslögunum sé komið gat á kvótakerfið og þannig sé hægt að brjóta það innan frá.“
Framsal verði heft
„Við höfðum engin loforð um niðurstöðu nefndarinnar enda ekki til slíks ætlast. Við gerðum okkur líka grein fyrir því að við yrðum að sætta okkur við það hvernig ráðherrarnir færu með niðurstöðuna. Við höfum smám saman fengið það meira á tilfinninguna að það eigi ekkert að gera með þetta nefndarstarf. Að niðurstaðan sé fyrirfram fengin.“- Eru útvegsmenn ekki tilbúnir að ræða neinar breytingar á kvótakerfinu?
„Jú, við höfum alltaf sagt að ýmislegt mætti laga og koma til móts við gagnrýni sem að því hefur beinst. Mest hefur verið rætt um frjálst framsal aflaheimilda. LÍÚ og þrenn samtök sjómanna lögðu á sínum tíma fram tillögur um verulega heft framsal aflaheimilda. Þær felast í því að gert verði að skyldu að veiða að minnsta kosti 80% úthlutaðra aflaheimilda hvers skips á ári. Það þýðir að útgerðarmenn verða sjálfir að nýta þær heimildir sem þeir hafa.
Ramminn má þó ekki vera of þröngur. Við teljum nauðsynlegt að menn hafi heimildir til að framselja aflaheimildir og leigja. Ekki er alltaf hægt að leigja á jöfnum ígildum, stundum þarf útgerð að leigja frá sér fyrir peninga og kaupa í staðinn af öðrum fyrir peninga.
Stjórnmálamenn hafa ekki léð máls á þessum breytingum.“
Athygli dregin frá mikilvægari málum ríkisstjórnarinnar
- Hver er staða og framtíðarhorfur útgerðarfyrirtækjanna nú þegar stjórnvöld stefna að innköllun aflaheimilda?„Umræðan um fyrningarleiðina hefur sett alla framþróun í biðstöðu. Það hefur verið reiknað út að meðalfyrirtækið verði komið í þrot eftir fjögur eða fimm ár.“
Adolf segir að uppbygging uppsjávarvinnslu HB Granda á Vopnafirði sé eina stóra fjárfestingin sem hann viti um auk smíði skipa fyrir Ísfélag Vestmannaeyja í Chile. Fram hefur komið hjá útgerðarstjóra Ísfélagsins að til skoðunar hefur verið að selja annað skipið eða bæði vegna umræðu um fyrningu aflaheimilda og óvissu í sjávarútvegi. „Ef sjávarútvegurinn á að hjálpa okkur að komast út úr þeirri stöðu sem þjóðin er komin í verður að vera hægt að horfa fram á veginn,“ segir Adolf.
- Er ekki rétt að leysa deilumálin með þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið, eins og forsætisráðherra hefur nefnt?
„Það er ekki óeðlilegt að þjóðin fái að greiða atkvæði um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er þó lágmarks krafa að skýrir kostir séu uppi á borðinu, að fólk viti hvað eigi að kjósa um, hvaða afleiðingar það hafi fyrir samfélagið og hvað eigi að taka við.
Mér finnst það lýsa málefnafátækt að slá þessu fram á þann hátt sem Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, gerði í útvarpsviðtali um síðustu helgi, að annaðhvort færu útvegsmenn í endurskoðunarnefndina eða kosið yrði um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er ekki vænlegt til árangurs að setja mönnum afarkosti. Mér finnst þetta lýsa því að menn séu að skapa óánægju og eitt stríðið í viðbót til að draga athyglina frá þeim málum sem brenna á ríkisstjórninni. Hún þarf að fást við miklu mikilvægari mál, það er að koma atvinnulífinu og heimilunum aftur í gang,“ segir Adolf.
Skötuselur og fyrning
10.05.2009 Ný ríkisstjórn ákveður að gera áætlun um innköllun og endurráðstöfun kvóta í áföngum, frá og með hausti 2010.
2.7.2009 Skipaður starfshópur um endurskoðun á stjórn fiskveiða.
2.10.2009 Endurskoðunarnefndin kemur saman til fyrsta fundar.
10.11.2009 Sjávarútvegsráðherra leggur fram „skötuselsfrumvarp“.
13.11.2009 Fulltrúar LÍÚ hætta að mæta á fundum nefndarinnar.
22.3.2010 „Skötuselslög“ samþykkt sem lög frá Alþingi.
22.3.2010 Samtök atvinnulífsins segja sig frá stöðugleikasáttamála.
31.3.2010 Gefin út reglugerð um úthlutun viðbótarkvóta í skötusel.
Samdráttur í tekjum vegna minni kvóta
VEIÐIHEIMILDIR íslenskra skipa hafa minnkað á undanförnum árum. Mestu verðmætin eru í þorski og öðrum botnfisktegundum og þess vegna hafa tekjur útvegsfyrirtækja dregist mjög saman við minnkandi kvóta. Þannig samsvaraði síðasta kvótaúthlutun um 15% tekjusamdrætti fyrirtækja sem gera út á bolfisk.Adolf Guðmundsson telur að naumt skammtaðar veiðiheimildir eigi verulegan þátt í misklíð og óánægju með fiskveiðistjórnunarkerfið og breyti þá litlu hvaða stjórnkerfi væri notað. „Ef við hefðum nægar heimildir værum við ekki í þessum átökum,“ segir Adolf.
Mikill samdráttur hefur einnig orðið í síld, loðnu og kolmunna en á móti kemur aukning í norsk-íslensku síldinni og makríll sem er nýr veiðistofn hér við land.
Adolf segir að þótt útgerðarfyrirtækin fái auknar tekjur vegna lágs gengis íslensku krónunnar megi ekki gleyma því að afurðaverð hafi lækkað erlendis og skattar verið auknir á fyrirtækin í landinu. Þannig hafi tryggingagjald hækkað vegna atvinnuleysisins, veiðigjald fimmfaldast og kolefnisgjald verði lagt á. „Menn gera ekki meira en að standa í skilum með skuldbindingar. Bankakerfið er lokað og margir eru í vandræðum með endurfjármögnun lána,“ segir Adolf Guðmundsson.
Störfum innan ramma laganna
„VIÐ störfum innan ramma laganna. Lögin heimila leigu á kvóta og það er heimilt að selja aflahlutdeild,“ segir Adolf Guðmundsson um gagnrýni sem fram hefur komið á brask útvegsmanna með kvótann, meðal annars í máli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrir viku.Formaður Samfylkingarinnar sagðist enga samúð hafa með því hvernig útgerðarmenn hefðu braskað með kvótann og stundað glæfraspil með fjármuni úr sjávarútveginum í óskyldum greinum. Þeir standi nú uppi stórskuldugir.
„Ég reikna með að átt sé við það að menn fái mikil verðmæti þegar þeir selja fyrirtæki sín eða hlutabréf og fara út úr atvinnugreininni. Það er ekkert öðruvísi í þessari grein en öðrum að menn selja fyrirtækin sín, af mismunandi ástæðum. Ekki má gleyma því að þeir hafa greitt mikla skatta til ríkisins af söluhagnaði. “
Þá veltir hann því fyrir sér af hverju sjávarútvegsfyrirtæki megi ekki fjárfesta í öðrum atvinnugreinum. „Menn eru að varðveita fjármuni sína og fara í þá fjárfestingarkosti sem þeir telja besta. Einhverjir hafa gengið of langt og tekið of mikla áhættu. Þeir sitja uppi með skuldir og þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum þess.“
Adolf segir að skuldir sjávarútvegsins hafi tvöfaldast við gengisfall íslensku krónunnar. Skuldir sjávarútvegsins eru að hans mati ekki hátt hlutfall skulda atvinnulífsins í heild og vísar hann þar til opinberra gagna. „Við erum betur settir að því leyti að við erum að selja afurðir okkar í erlendum gjaldmiðlum og staða krónunnar hefur hjálpað okkur að standa í skilum með skuldbindingar okkar,“ segir Adolf.
Þarf að skilgreina réttindin
„ÞEIR sem eru í atvinnugreininni eiga ákveðin réttindi. Ef gera á breytingar á þeim er eðlilegast að réttindin séu fyrst skilgreind,“ segir Adolf Guðmundsson um undirbúning stjórnvalda við að gera ákvæði fiskveiðistjórnunarlaga um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar virk með því að setja þau í stjórnarskrá.Adolf segir að sameign þjóðar sé ekki til sem eignarréttarlegt hugtak í íslenskum rétti. Hann rifjar upp að sumir fræðimenn telji að útvegsmenn eigi beinan eignarrétt, aðrir tali um óbeinan eignarréttindi og enn aðrir telji að útvegsmenn eigi atvinnuréttindi sem varin eru með eignarréttarákvæðum stjórnarskrár. „Ef menn skerða þessi réttindi er ríkið bótaskylt,“ segir Adolf og segir að búast megi við að það kalli á margra ára málaferli ef ekki verði gengið vel frá útfærslunni.
Samfylkingin samþykkti á flokksstjórnarfundi að nýtt fiskveiðistjórnarkerfi verði byggt á atvinnufrelsi og mannréttindi virt í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2007. Adolf segir mikilvægt í þessu efni að skoða forsendur meirihluta mannréttindanefndarinnar. „Þær grundvallast á því að útvegsmenn hafi fengið fiskveiðiréttindin að gjöf árið 1983 og að þau hafi verið færð í einkaeignarrétt útgerðarinnar 1990. Það er forsendan fyrir þeirri niðurstöðu að úthlutunin hafi verið bersýnilega ósanngjörn.
Ef það er stefna stjórnmálaflokks að byggja á þessu áliti, þótt Hæstiréttur hafi margsinnis komist að þeirri niðurstöðu að kvótakerfið brjóti ekki jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar, verður hann um leið að viðurkenna að réttindin séu hrein eign útgerðarinnar. Það verður ekki bæði sleppt og haldið,“ segir Adolf.
Þjálfarinn ílentist á Seyðisfirði
ADOLF Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gullbergs hf. á Seyðisfirði, hefur verið formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna í hálft annað ár.Hann er 55 ára gamall lögfræðingur, fæddur og alinn upp í Reykjavík. Hann fór fyrst til Seyðisfjarðar 1973 til að þjálfa knattspyrnulið Hugins. Þá kynntist hann konu sinni, Theodóru Ólafsdóttur. Fyrstu mánuðina eftir að þau settust að á Seyðisfirði starfaði Adolf sem fulltrúi hjá bæjarfógetanum en tók síðan við starfi framkvæmdastjóra Gullbergs. Starfinu hefur hann gegnt í 28 ár.
Gullberg gerir út togarann Gullver. Jafnframt hefur Adolf starfað við stjórnun fiskvinnslufyrirtækja. Hann var framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar og síðan formaður stjórnar Dvergasteins. Síðustu sex árin hefur fyrirtæki í hans eigu, Brimberg, rekið frystihúsið. „Það hefur verið miklu meira að gera hjá LÍÚ en ég reiknaði með. Efnahagsþrengingar og átökin um fiskveiðistjórnunarkerfið valda því,“ segir Adolf.