EINS og fram kom á baksíðu Morgunblaðsins miðvikudaginn 31. mars sl. lenti íslenska kvennalandsliðið í fótbolta í óvæntri uppákomu á síðustu æfingu liðsins á Town Stadium í bænum Vrbovec í Króatíu. Hápunktur æfingarinnar var þegar Klara Bjartmarz, starfsmaður Knattspyrnusambands Íslands, stöðvaði vallarstjóra Town Stadium sem tók upp á því að slá keppnisvöllinn á miðri æfingu landsliðsins. Ástandið var nokkuð „eldfimt“ um tíma og gaf vallarstjórinn sig ekki en Klara leysti það með því að staðsetja sig fyrir framan sláttuvélina.
Uppákoman varð til þess að KSÍ sendi formlega kvörtun til króatíska knattspyrnusambandsins.
Sú kvörtun bar árangur. Á leikdegi bauð króatíska knattspyrnusambandið fararstjórn KSÍ í hádegisverð. Þar stóð vallarstjórinn upp við matarborðið og baðst formlega afsökunar á framferði sínu. Íslenska fararstjórnin tók við þeirri afsökunarbeiðni, og þar með var stóra „sláttuvélarmálinu“ lokið með formlegum hætti.
seth@mbl.is