„ÉG er enn ekki búin að ákveða hvað ég ætla að gera í tilefni dagsins, þ.e.

„ÉG er enn ekki búin að ákveða hvað ég ætla að gera í tilefni dagsins, þ.e. hvort ég eigi að halda partí eða bara fara með einhverjum út að borða,“ segir Halla Kristín Einarsdóttir, kvikmyndagerðarkona, sem ætlar að njóta þess í páskafríinu að liggja í leti og lesa góðar bækur ásamt sex ára gamalli dóttur sinni.

Spurð um eftirminnileg afmæli nefnir Halla afmælisveislu sem vinir hennar skipulögðu til að koma henni á óvart. „Þannig var að ég hélt ekkert upp á 30 ára afmælið mitt og þegar ég varð 31 árs ákváðu vinir mínir að halda upp á 30 ára afmælið með óvæntri afmælisveislu,“ segir Halla og tekur fram að vinum hennar hafi algjörlega tekist að plata hana upp úr skónum, dressað hana upp og látið hana halda að hún væri aðeins að gera vinkonu sinni greiða með því að sitja fyrir í myndatöku og þannig skilað henni á partístaðinn algjörlega grunlausri.

„Sem barni þótti mér alltaf leiðinlegt þegar afmælið mitt bar upp á páskadag því þá fékk maður ekkert nema páskaegg. Ég hef hins vegar aldrei verið neinn sérstakur súkkulaðifíkill,“ segir Halla og nefnir sem dæmi að þegar hún varð 7 ára hafi hún fengið 11 páskaegg í afmælisgjöf sér til lítillar ánægju. silja@mbl.is