KR-INGAR gulltryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum deildabikars karla í knattspyrnu, Lengjubikarsins, með því að vinna stórsigur á Þrótti, 5:0, á gervigrasvelli sínum í Vesturbænum á skírdag. Vesturbæjarliðið er nú það eina í keppninni með fullt hús stiga.
Guðjón Baldvinsson, sem er í láni hjá KR-ingum frá GAIS í Svíþjóð, lét mikið að sér kveða því hann lagði upp þrjú markanna áður en hann batt endahnútinn á sigurinn með því að skora fimmta markið. Gunnar Kristjánsson skoraði tvö mörk og þeir Viktor Bjarki Arnarsson og Baldur Sigurðsson gerðu sitt markið hvor.
KR er þá komið með 15 stig eftir fimm leiki en Keflvíkingar, sem eru með 15 stig eftir 6 leiki, eru líka komnir áfram úr 3. riðli. Breiðablik, sem er með 12 stig eftir 5 leiki, getur enn farið uppfyrir þau bæði, en þá myndu öll liðin fara áfram. Tvö lið af þremur í þriðja sæti riðlanna fara áfram og 15 stig nægja.
*Baráttuglaðir Leiknismenn gerðu sér lítið fyrir og lögðu Íslandsmeistara FH, 2:1, í Kórnum. Fannar Árnason kom Leikni í 1:0 með marki úr vítaspyrnu, Hákon Alfreð Hallfreðsson jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu en Einar Örn Einarsson tryggði Breiðhyltingum sigurinn með skallamarki eftir fyrirgjöf en öll mörkin komu í fyrri hálfleik.
*Jóhann Helgi Hannesson skoraði þrennu fyrir Þór sem vann Njarðvík, 5:0, í Boganum á Akureyri. vs@mbl.is