VIÐ innritun í framhaldsskóla þetta vorið verður tekið upp það vinnulag að nýnemar úr hverfisgrunnskólum fá forgang inn í hverfisframhaldsskólana svo fremi að þeir uppfylli inntökuskilyrði og pláss er í skólanum. „Hver framhaldsskóli verður að lágmarki að ætla fyrir forgangshópinn 45% af þeim plássum sem hann hefur fyrir nýnemana,“ segir Þórir Ólafsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Að hans sögn hefur ekki verið tekin ákvörðun um að breyta fyrirkomulagi námsmats við lok grunnskólans, þannig að áfram eru það skólaeinkunnirnar sem gilda.
Inntökukerfi framhaldsskólanna mætti töluverðri gagnrýni í fyrra og var á það bent á að grunnskólarnir hefðu ekki nægan ramma frá menntamálaráðuneytinu um hvernig skólaeinkunn skyldi fundin sem gæti leitt til þess að skólaeinkunnir milli skóla væru ekki sambærilegar. Að sögn Þóris hafa starfsmenn ráðuneytisins skoðað meint misræmi í skólaeinkunnum. „Okkar niðurstaða leiddi í ljós að það væri ekki meira flökt á skólaeinkunnum almennt litið yfir landið á árunum 2008 og 2009 en var á einkunnum í samræmdu prófunum t.d. árin 2005 og 2006.“
Að sögn Þóris er nú unnið að setningu nýrrar námskrár sem m.a. hefur að geyma samræmd viðmið eða leiðbeiningar um uppbyggingu námskráa á grunn- og framhaldsskólastigi, en ekki er reiknað með að þær verði komnar til framkvæmda fyrr en haustið 2010. „Þá verða komin skýrari viðmið um námsmat í grunnskóla þannig að þau rími betur við kröfur framhaldsskólans um undirbúning.“ silja@mbl.is
-
4.500 nemendur ljúka 10. bekk í vor, en þeir voru 4.700 í fyrra
- Aðsóknarhlutfall í framhaldsskóla 2009 var tæp 96%