Ekki hafa allir Íslendingar fyllst svartsýni og misst móðinn í kreppunni. Stefán Már Stefánsson, atvinnukylfingur úr GR, hefur í það minnsta verið á ferð og flugi á árinu og ætlar að einbeita sér að þýsku EPD-mótaröðinni í sumar. Morgunblaðið sló á þráðinn til Stefáns þar sem hann dvaldi á Spáni með föður sínum Stefáni Gunnarssyni sem gerði garðinn frægan með hinni goðsagnakenndu „Mulningsvél“ Vals í handboltanum.
STEFÁN Már hafði þá tveimur dögum áður náð sínum besta árangri sem atvinnukylfingur en hann skilaði inn áhugaskírteini sínu árið 2008. Stefán hafnaði í 2. sæti á móti á Spáni sem er hluti af Hi5-mótaröðinni. Stefán sýndi stöðugleika í mótinu og lék 54 holur á 7 höggum undir pari.
„Þessi árangur var góður fyrir sjálfstraustið og góður fyrir framhaldið á þessu ári. Það er alltaf ánægjulegt að eiga gott mót. Ég segi ekki að þetta sé stór áfangi en engu að síður minn besti árangur sem atvinnukylfingur. Ég gerði fá mistök í þessu móti og er í alla staði mjög sáttur við minn leik,“ sagði Stefán þegar Morgunblaðið bar árangurinn undir hann.
Stefán hefur leikið á eins sterkum mótum og hann á kost á. Í okkar heimsálfu er Evrópumótaröðin toppurinn á tilverunni fyrir kylfinga en sú næsta fyrir neðan er Áskorendamótaröðin. Þúsundir kylfinga reyna að vinna sig inn á þessar mótaraðir og því komast mun færri að en vilja. Segja má með sanngirni að þýska mótaröðin sé næsta deild fyrir neðan að styrkleika ásamt fleiri sambærilegum. Þeir kylfingar sem hafna í fimm efstu sætunum í lok árs á þeirri mótaröð ávinna sér þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni.
Á faraldsfæti
Stefán tók þátt í nokkrum mótum á þýsku mótaröðinni á síðasta ári en tók sér frí í nóvember og desember. Sinnti hann þá líkamlegri þjálfun en hefur verið á fullu að spila síðan í janúar og hefur verið á faraldsfæti.„Maður hefur verið að koma sér í gang síðan í janúar. Ég byrjaði í Orlando, fór þaðan til Tyrklands og síðan til Marokkó og loks til Spánar. Ég hef aldrei stoppað meira en tvo daga heima á þessu tímabili og hef verið meira eða minna á ferðinni síðan í janúar. Það er nú bara eins og þetta starf er,“ sagði Stefán sem ætlar að vera í smáfríi hér heima um páskana. Eins og fram hefur komið býr Stefán nánast í ferðatösku en hyggst halda til í Lúxemborgar í sumar eins og hann gerði í fyrra. Golfvertíðin byrjar fyrir alvöru í Þýskalandi í maí og þess vegna fer þýska mótaröðin til fjarlægra staða eins og Tyrklands og Marokkó í byrjun árs.
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig upplifun það hafi verið að keppa á golfmóti í Marokkó. „Ég hafði aldrei komið þangað áður og það var ýmislegt sem kom mér á óvart. Þetta var svolítið eins og að fara aftur í tímann. Eigum við ekki að segja að þetta hafi verið öðruvísi en maður á að venjast. Þetta var frekar spes. Maður þurfti til dæmis að prútta um verð hvar sem maður kom og maður sá hvergi neina verðmiða. Golfvellirnir voru hins vegar frábærir og veðrið var mjög gott. Vellirnir voru í toppstandi enda er Evrópumótaröðin búin að vera með mót þarna nýlega. Þetta eru veðurskilyrði sem menn sækjast eftir. Þarna er mikil uppbygging hvað varðar golfvelli og ákveðin markaðssetning í gangi í kringum það.“
Er í samstarfi við Staffan
Þar sem Stefán er mikið á faraldsfæti skiptir kannski ekki miklu máli þótt hann sé ekki með þjálfara sinn við höndina. Stefán er í samstarfi við Svíann Staffan Johannsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands, sem nú stýrir finnska landsliðinu. „Við reynum að hittast reglulega og ég ætla að hitta hann í apríl. Ég hef bæði farið til hans í Svíþjóð en hann er einnig mikið á Spáni og ég mun hitta hann þar í apríl,“ sagði Stefán sem stefnir ótrauður á úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina í haust.„Ég setti mér það markmið að spila alla þýsku mótaröðina í ár og reyni þá að mæta í úrtökumótið um miðjan september eins og í hvert annað mót. Maður er alltaf að bæta við sig reynslu með því að keppa og mér finnst minn leikur vera að stefna í rétta átt,“ sagði Stefán Már Stefánsson í spjalli við Morgunblaðið og reiknar með því að taka þátt í þremur mótum á Íslandi í sumar: Meistaramóti GR, Íslandsmótinu í höggleik og í sveitakeppninni. Það mun þó fara eftir því hvernig gengur á mótaröðinni.