Ólöf Arnalds Kemur með ljósið.
Ólöf Arnalds Kemur með ljósið.
LISTAVAKA ungs listafólks verður haldin í Hallgrímskirkju laugardaginn 3. maí og er hluti Kirkjulistahátíðar í ár. Fjölbreytt og forvitnileg dagskrá verður í kirkjunni þennan dag, en hún hefst kl. 15 og stendur til kl. 23. Klukkan 21.

LISTAVAKA ungs listafólks verður haldin í Hallgrímskirkju laugardaginn 3. maí og er hluti Kirkjulistahátíðar í ár. Fjölbreytt og forvitnileg dagskrá verður í kirkjunni þennan dag, en hún hefst kl. 15 og stendur til kl. 23.

Klukkan 21.15 er á dagskrá viðburður sem hefur hlotið nafnið Spuni í myrkri kirkju , en þar mun dans og tónlist fléttast saman á skemmtilegan hátt. Að sögn Melkorku Ólafsdóttur flautuleikara, sem er umsjónarmaður listavökunnar, verður þarna unnið með þema Kirkjulistahátíðar, sem í ár er „Frá myrkri til ljóss.“

Spuninn hefst kl. 21.15 nákvæmlega, en samkvæmt almannaki byrjar þá að dimma í Reykjavík. Myrkrið mun ríkja í kirkjunni en danshópurinn HNOÐ mun leika listir sínar í skugganum undir hljóðfæraleik ungra tónlistamanna.

Undir lok spunans mun svo tónlistarkonan Ólöf Arnalds stíga fram og birtan kljúfa rökkrið á meðan tónlist Ólafar ómar um kirkjuna.

Aðrir tónlistarmenn sem koma fram eru Borgar Magnason kontrabassi, Katie Buckley harpa, Ingrid Karlsdóttir fiðla, Margrét Árnadóttir selló, Grímur Helgason klarinett og Jesper Petersen blokkflauta.

Ókeypis er á alla viðburði Listavöku ungs listafólks og dagskrána má finna á www.kirkjulistahatid.is.