Anna Sigríður Snorradóttir
Anna Sigríður Snorradóttir
Eftir Önnu Sigríði Snorradóttur: "Svo virðist vera sem andleg fátækt blasi við mörgum á Íslandi í dag."

UNDANFARIÐ hef ég heyrt í þjóðfélagsumræðunni að nú sé „tíminn fyrir andann“. Því er ég sammála og vil grípa tækifærið og gefa andanum gaum.

Nú er tími ferminganna. Upprisuhátíð. Páskarnir. Annar tveggja árstíma þar sem virðist vera samþykkt að tala um trú, von og kærleika, fara í kirkju og – um páskana – tala um upprisu Krists.

Fýsn holdsins og auðæfa-oflæti hefur ekki aðeins orsakað fátækt í fjármálunum því að svo virðist vera sem andleg fátækt blasi við mörgum á Íslandi í dag. Sú fátækt hefur jafnvel verið fyrir hendi lengur en við viljum viðurkenna. Birtingarform hennar er að í vellystingunum gleymdum við Guði og náunganum. Eins og alkóhólistinn verður að viðurkenna fíkn sína til að sigrast á henni þá þurfa Íslendingar að viðurkenna andlega fátækt sína til ganga út úr henni. Hún þarf ekki að vera endastöð, síður en svo, eins og sagt hefur verið – spyrnan er oft best frá botninum.

Fátt virðist gefa manninum meiri kraft í þessa spyrnu en von. Von gefur manninum ástæðu til að halda lífinu áfram og til að líta fram á veginn. En hvað er von? Von er það sem hægt er að vænta, búast við. Von innifelur bæði eftirvæntingu, löngun og ósk. Langvarandi svartnætti á það til að kæfa eftirvæntinguna og skilja eftir sig slóð af óuppfylltum óskum og brostnum vonum. Langvarandi svartnætti skilur okkur eftir í vonleysi. Andleg augu margra hafa tekið að daprast vegna þess að vonin eftir réttlæti, sanngirni og réttsýni hefur dvínað. Aftur á móti gerir von okkur kleift að hefja augun upp og sjá heiðan himin bakvið dimm og drungaleg ský. Við þurfum að hafa augun af vonleysi kringumstæðna okkar og líta til náungans og kringumstæðna hans. Þannig byrjum við að safna andlegum auði með kærleika og umhyggju í verki.

Ég heyrði sögu af konu sem hét María Magdalena. Hún hafði verið við kross Jesú þegar hann dó og varð fyrst að gröfinni í birtingu á páskadag. Í Jóhannesarguðspjalli 20. kafla segir að hún hafi staðið og grátið fyrir framan tóma gröfina, því að líkami Jesú var horfinn og hún vissi ekki hvar hann hafði verið lagður. Jesús sjálfur mætti henni og hún sá að hann var upprisinn.

Þú stendur ef til vill í sömu sporum og María þar sem ekkert annað blasir við en gröfin. María hafði um tvennt að velja: Að dvelja við gröfina og einblína á óvissuna um líkama Krists eða að horfa á vonina sem fylgdi þessari tómu gröf. Við hvaða gröf dvelur þú í dag? Þú horfir ef til vill á gröf fyllta atvinnuleysi, gjaldþroti, hjónaskilnaði eða einsemd. Án vonar og án andlegs ríkidæmis. Þér vil ég segja að þú hefur val: Að dvelja við gröfina og einblína á óréttlætið og fyllast vanmætti og reiði eða að horfa á vonina sem 2000 ára gömul gröf gefur þér í dag. Von sem gefur líf þegar þú stendur frammi fyrir dauða og sorg. Von sem gefur meðbyr þegar þú stendur frammi fyrir erfiðleikum og einsemd.

Ekki dvelja við gröfina. Veldu vonina eins og María. Líttu af kringumstæðunum og sjáðu að von heimsins er innan seilingar. Frelsarinn er upprisinn.

Nú er vorið á næsta leiti þar sem blóm og gróður fara að vaxa úr frjóum jarðveginum eftir vetrardvala. Mætti andi þinn vera sá frjói jarðvegur sem vonin þarf til að vakna úr dvala og gefa þér andlegan auð.

Höfundur er grunnskólakennari.

Höf.: Önnu Sigríði Snorradóttur