Friðrikka Betúelína Þorbjörnsdóttir fæddist 14. júní 1918 í Kjaransvík, Grunnavíkurhreppi. Hún lést á Hraunbúðum, dvalarheimili aldraðra, Vestmannaeyjum 27. mars 2010.

Foreldrar Friðrikku voru Guðrún Albertína Jensdóttir, f. 22. nóv. 1880, d. 18. des. 1920, og Þorbjörn Guðmundsson, f. 15. okt. 1882, d. 1. des. 1927. Friðrikka ólst upp á Hóli í Önundarfirði frá 3ja ára aldri hjá þeim hjónum Guðrúnu Jónsdóttur og Jónatani Magnússyni.

Friðrikka giftist 21. okt. 1945 Sigurbirni Guðlaugi Einarssyni, f. 2. des. 1919, d. 22. sept. 1966. Foreldrar Einar Björnsson, f. 15. ágúst 1894, d. 12. jan. 1941, og Sigurlaug Guðmundsdóttir, f. 11. sept 1895, d. 14. feb. 1980. Þau eignuðust fjögur börn. 1) Einar, f. 6. maí 1945, maki Sólrún Elísdóttir. Einar á einn son Guðlaug Sigurbjörn, f. 27. maí 1971. 2) Guðrún Elsa, f. 27. nóv. 1946, d. 21. mars 2005, maki Þorsteinn Sigtryggsson. Börn þeirra eru: a) Snæborg f. 18. nóv. 1965, maki Agnar Guðnason og eiga þau þrjú börn, Ragnar, Kristófer og Guðrúnu Ósk. b) Guðlaug, f. 2. nóv. 1968, maki Helga Björk Einarsdóttir og á Guðlaug eina dóttur, Sigríði Báru. c) Þorsteinn Elías, f. 14. jan. 1978, maki Hrefna Haraldsdóttir og eiga þau eina dóttur, Kolfinnu. 3) Guðmundur, f. 7. feb. 1950, maki Elsa Valgeirsdóttir. Börn þeirra eru: a) Birkir Ívar, f. 14. sept. 1976, maki Kristín Ólafsdóttir og eiga þau tvö börn, Sögu Hlíf og Adelu Björt. b) Þórey Friðrikka, f. 14. júní 1982. 4) Friðrik, f. 8. ágúst 1953, maki Árný Skúladóttir. Börn þeirra eru: a) Ásta, f. 25. feb. 1977. b) Ólöf, f. 10. ágúst 1981. c) Friðrik Árni, f. 16. feb. 1989.

Friðrikka bjó öll sín fullorðinsár í Vestmannaeyjum, lengst af á Eyjahólum, Hásteinsvegi 20. Hún starfaði mest alla ævina við fiskvinnslu en síðustu starfsárin vann hún á Hraunbúðum.

Útför Friðrikku verður gerð frá Landakirkju, Vestmannaeyjum í dag, 3. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku mamma, mínar fyrstu minningar eru frá því er við áttum heima á Skildingaveginum. Þó húsakosturinn hafi ekki verið stór þá fór vel um okkur öll, þig og pabba og okkur systkinin, Einar, Gunnu, mig og Friðrik. Sigurlaug föðuramma bjó á sama stað og nutum við góðs af hlýju hennar og yndislegheitum. Við fluttum að Eyjahólum (Hásteinsvegi 20) eftir að það brann ofan af okkur húsið á Skildingaveginum.

Stundum hvessti verulega á heimilinu eftir vanhugsaða leiki okkar bræðra og vina, það munaði jú um að leggja út pening fyrir nýjum rúðum í glugga eftir golfleik fyrir framan eldhúsgluggann á Eyjahólum, það var á sunnudegi og þá var lítið fyrir mann að gera annað en fara í messu í Betel, Aðventistakirkjunni og að lokum í Landakirkju meðan reiðin rann af þér og Gunnu stóru systur.

Þú hafðir stórt skap en einnig stórt hjarta og oftast var stutt í húmorinn hjá þér, þú hafðir gaman af því að spila vist, kenndir okkur bræðrum að tefla og oft voru læti og mikið rifist á heimilinu yfir enska boltanum.

Elsku mamma, lífsbaráttan var þér efalaust oft erfið, vinnudagurinn langur og strangur og heimilisverkin tóku við þegar heim var komið, þú gafst þér þó ávallt tíma til að hlusta á okkur og allir hlutir voru betri og ljósið bjartara þegar þú varst nálæg. Þú barst hitann og þungann af uppeldi okkar systkinanna, þú varst kletturinn í lífi okkar allra. Pabbi var sjómaður og oft fjarverandi, ég minnist ferða ykkar til Alla frænda og Syttu þar sem spiluð var vist fram eftir nóttu.

Þegar eldgos kom upp á Heimaey 1973 fluttir þú til Hafnarfjarðar og bjóst þar í ein 2 ár. Þú fluttir aftur til Eyja, og bjóst áfram að Eyjahólum, nú varst þú orðin ein og farin að láta meira eftir sjálfri þér, þú hafðir gaman af utanlandsferðunum með Guðnýju og Ásu og öðrum vinkonum. Lífið var loks farið að leika við þig, þú hafðir það gott og kunnir svo sannarlega að njóta lífsins á hógværum nótum. Seint gleymast partíin hjá Guðnýju, þið ásamt Ásu voruð hrókar alls fagnaðar.

Elsku Friðrikka, þú varst mjög stolt og hreinskilin. Þegar við héldum upp eitt afmælið hans Gumma og buðum upp á mat og bollu þá var mikið fjör og gaman, oft var skálað og er líða tók á kvöldið þá stóð mín upp og kallaði yfir stofuna „Guðmundur, ég skála ekki lengur í þessu glundri“. Auðvitað var bollan bara löguð fyrir hana Friðrikku. Þú hafðir mikið dálæti á gardínum og þitt heimili skartaði oft nýjum gluggatjöldum, öfugt við okkar heimili. Í stað þess að hafa orð á því þá komst þú bara með nýjar til okkar.

Árið 2005 dó hún Gunna okkar sem var þín eina dóttir, þín besta vinkona og trúnaðarvinur. Það var eins og eitthvað hefði slokknað innra með þér, gleðin og lífsviljinn var að hluta slokknaður.

Elsku mamma og tengdó, við þökkum þér yndislegar stundir og þá góðmennsku og ást sem þú gafst okkur.

Við kveðjum að sinni í fullvissu þess að þú sért nú með henni Gunnu þinni og pabba og öðrum ástvinum.

Guðmundur og Elsa.

Elsku amma.

Eitt er víst að ekki var líf þitt alltaf auðvelt, þú þurftir svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum. Sem ungabarn misstir þú móður þína, varðst ekkja fyrir fimmtugt en þú varst svo ótrúlega þver og mikill dugnaðarforkur að uppgjöf var ekki til í þínu lífi. En svo gerðist það fyrir fimm árum að mamma dó, við misstum klettinn okkar og þú varst aldrei söm eftir það. Við erum sannfærð um að þú fékkst hlýjar móttökur á nýja staðnum og tekur gleði þína á ný.

Elsku amma okkar, við erum svo lánsöm að eiga helling af minningum um þig. Við brosum í gegnum tárin og kveðjum þig í bili.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífs þíns nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði nú sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Takk fyrir allt og allt. Þín barnabörn,

Snæborg, Guðlaug og Þorsteinn.

Við systkinin viljum minnast elskulegrar ömmu okkar sem lést laugardaginn 27. mars. Þær eru ófáar minningarnar sem ylja okkur á þessari stundu enda um einstaka konu að ræða. Fyrir nokkrum árum áttum við amma spjall um minningargreinar og lofuðum við henni því að við myndum ekki birta lofræðu um hana í Morgunblaðinu þegar hún félli frá. Ef það var eitthvað sem fór í taugarnar á henni ömmu þá var það endalaus upptalning um hjúskap, störf og uppeldi. Við ættum heldur að minnast hennar sem persónu eða skvísu og við það stöndum við. Amma var glæsileg og settleg kona eins og maður segir. Það var stæll yfir henni. Hún passaði að hárið væri alltaf vel snyrt og það hvarflaði ekki að henni að fara í Sparisjóðinn án þess að fara í lagningu áður. Ömmu þótti gaman að punta sig og eignast ný og falleg föt. Það voru ófáar ferðirnar sem við systurnar fórum með ömmu og mömmu í Verðlistann og alltaf gat amma keypt sér eins og eina skyrtu eða peysu. Ömmu fannst gaman að skreyta sig með skartgripum og við gleymum ekki hversu ánægð hún var með gullhringinn sem við gáfum henni þegar hún var níræð. Já, hún amma okkar var sko pæja sem tekið var eftir. Amma okkar var mikil félagsvera og tók virkan þátt í félagsstarfinu á Hraunbúðum, elliheimilinu í Eyjum. Amma var ákveðin, þrjósk og mikil keppniskona og þau voru ófá verðlaunin sem hún vann í bingó í gegnum árin. Okkur systkinunum þóttu ferðavinningarnir með Herjólfi fyndnastir, því þeir voru það margir að hún gat nánast farið vikulega upp á land með Herjólfi í heilt ár án þess að borga krónu.

Þeir sem þekktu ömmu vissu að það var erfitt að ná henni í síma í hádeginu eða um eftirmiðdaginn, sá tími var helgaður sápuóperum. Okkur er minnisstætt eitt árið þegar amma fór í mánuð til Kanaríeyja en þá bað hún okkur systkinin að taka upp þættina á spólu, það mátti ekki missa úr þátt. Við höfum því átt margar umræður í gegnum tíðina með ömmu um Harold og vini okkar í Ramsey Street.

Við systkinin eigum það sameiginlegt að flestallir okkar vinir þekkja ömmu Friðrikku. Amma bjó jú í Eyjum og var höfðingi heim að sækja. Heimilið hennar var því að sjálfsögðu samkomustaður vina okkar á Þjóðhátíð. Amma bauð öllum okkar vinum í mat og tók ekki annað í mál en að allur hópurinn myndi mæta í kvöldverð því það þyrftu allir að nærast vel fyrir átök kvöldsins. Amma átti það jafnvel til að þvo fötin af hópnum ef illa viðraði því það skyldu allir mæta í hreinum fötum í Dalinn.

Við systkinin eigum dýrmætar og góðar minningar um yndislega manneskju. Manneskju sem kenndi okkur svo mikið og var okkur góð fyrirmynd. Með þessum orðum kveðjum við þig, elsku amma okkar, takk fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum með þér.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgrímur Pétursson.)

Hvíldu í friði, elsku amma.

Ásta, Ólöf og Friðrik Árni

Friðriksbörn.

Elsku amma mín. Það er svo sárt að kveðja, þó svo ég hafi vitað að stutt væri í þennan dag þá var ég nú samt búin að telja mér trú um að við ættum eftir að eiga fleiri stundir saman. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki komið í heimsókn til þín niðrá Elló þegar ég er í Eyjum. Það var orðinn fastur liður að kíkja á þig og heyra allar slúðursögurnar af því helsta sem var að gerast á Elló.

Ég gleymi því seint þegar ég, þú, Hjördís heitin og fleiri vinkonur þínar sátum saman heilt kvöld niðrá Elló og slúðruðum um allt milli himins og jarðar. Þær hafa örugglega tekið vel á móti þér og fegnar að fá þig við sitt borð á ný.

Elsku amma, þær eru ófáar minningarnar sem koma upp í huga mér þegar ég hugsa til þín, Það er þó ein sem stendur upp úr. Þegar ég, þú og mamma fórum á leik hjá Birki heima í Eyjum, hann þá kominn í Hauka að keppa við ÍBV. Þegar nokkuð var liðið á leikinn og Birki að ganga mjög vel þá er einhver úr stúkunni sem hreytir í hann ófögrum orðum. Þó að þú hafir verið komin vel á níræðisaldurinn, þá þurftum við mamma að hafa okkur allar við til að halda þér kyrri í sætinu. Þú ætlaðir einfaldlega að hjóla í manninn. Það skyldi enginn voga sér að hreyta einhverju í barnabörnin þín.

Þetta lýsir því kannski hversu vel þú stóðst við bakið á þínum og studdir okkur í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Elsku amma, ég er svo óendanlega þakklát fyrir allan þann tíma sem við höfum átt saman, takk fyrir allar minningarnar, stuðninginn og hlýjuna sem þú hefur veitt mér.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Megi guðs englar vaka yfir þér, elsku amma mín

Þín

Þórey Friðrikka.

Jæja, elsku amma, þá er þinn tími hér í okkar veröld liðinn og þú horfir eflaust niður til okkar ánægð á nýja samverustaðnum.

Þegar ég skrifa þetta þá hellast yfir mig margar og ánægjulegar æskuminningar. Ég man eftir jólaboðunum þar sem ég og Þorsteinn Elías gerðum ævinlega eitthvað af okkur en vorum undir verndarvæng ömmu þannig að við sluppum með skrekkinn í þau skiptin.

Eins voru gamlárskvöldin líka skemmtileg, þegar þú, Guðný amma og Ása hittust á Helgafellsbrautinni og skemmtuð ykkur fram eftir nóttunni og oftast hressasta fólkið.

Stuðningi þínum við mig í íþróttum á ég aldrei eftir að gleyma. Þú varðst fyrst til að setjast fyrir framan sjónvarpið ef leikir voru sýndir beint, komst á leiki ef spilað var í Eyjum og studdir einungis það lið sem ég spilaði með.

Mig langar að þakka þér fyrir allar stundirnar og að hafa alltaf verið til staðar fyrir mig og mína fjölskyldu. Adela Björt vill einnig þakka fyrir alla þá ást og hlýju sem þú gafst henni og fyrir allar súkkulaðirúsínurnar.

Hin langa þraut er liðin,

nú loksins hlauztu friðinn,

og allt er orðið rótt,

nú sæll er sigur unninn

og sólin björt upp runnin

á bak við dimma dauðans nótt.

Fyrst sigur sá er fenginn,

fyrst sorgar þraut er gengin,

hvað getur grætt oss þá?

Oss þykir þungt að skilja,

en það er Guðs að vilja,

og gott er allt, sem Guði er frá.

Nú héðan lík skal hefja,

ei hér má lengur tefja

í dauðans dimmum val.

Úr inni harms og hryggða

til helgra ljóssins byggða

far vel í Guðs þíns gleðisal.

(Vald. Briem.)

Birkir, Kristín, Saga og Adela.

Hinsta kveðja

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson)

Þín barnabarnabörn,

Ragnar, Kristófer Már, Bára, Guðrún Ósk og Kolfinna.