Hersingin Kammersveitin Ísafold í öllu sínu veldi. Daníel Bjarnason er þriðji frá vinstri.
Hersingin Kammersveitin Ísafold í öllu sínu veldi. Daníel Bjarnason er þriðji frá vinstri.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is NÚ á mánudaginn, annan í páskum, mun Kammersveitin Ísafold skipuð tuttugu hljóðfæraleikurum og Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju skipaður fimmtán söngvurum, flytja Sinfóníu nr.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

NÚ á mánudaginn, annan í páskum, mun Kammersveitin Ísafold skipuð tuttugu hljóðfæraleikurum og Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju skipaður fimmtán söngvurum, flytja Sinfóníu nr. 4 eftir Alfred Schnittke. Einsöngvarar verða þau Guðrún Edda Gunnarsdóttir alt og Bragi Bergþórsson tenór. Sinfónían, sem er samin árið 1983 en frumflutt árið 1984 er mjög trúarleg og sameinar laglínur frá fjórum kirkjudeildum: Gyðingum, rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni, mótmælendum og kaþólikkum og er hinn áhrifamikli þáttur söngvaranna fluttur á rússnesku. Textinn er frá 10. öld úr „Book of Lamentations“ eftir armenska ljóðskáldið Gregory of Naser.

Óður til trúarbragðanna

Stjórnandi er Daníel Bjarnason og segir hann Schnittke hiklaust hafa verið eitt af höfuðtónskáldum 20. aldarinnar.

„Þetta var maður sem fór eigin leiðir og hann er einn af þeim sem varð svolítið útundan í sögubókunum. Hann var mikið í því að stefna saman gamla og nýja tímanum í tónlist sinni og hann var djarfur og tilraunaglaður.“

Daníel segir verkið óð Schnittke til trúarbragðanna, en hann tekur fjögur þeirra og bræðir þau saman og blandar.

„Hann var að velta því fyrir sér að þó að trúarbrögð væru mörg og ólíkrar gerðar hefðu þau líklega sömu merkingu fyrir fólk, sameiginlegan tilgang. Verkið var nýstárlegt, mætti segja að það væri þverkirkjulegt (brosir). Þvertrúarlegt eiginlega.“

Andstæður

Daníel segir verkið einkennast af andstæðum; kaflar með miklum látum skiptist á við innhverfari stemmur.

„Hann var sjálfur efasemdamaður í trúnni, þó að hann væri mjög trúaður. Hann var efins um hvert skyldi leita og það endurspeglast sumpart í verkinu.“

Af Daníel sjálfum er það annars að frétta að plata hans, Processions , kemur út í Bretlandi í byrjun apríl og verkið verður frumflutt þar á hljómleikum í maí. Mun Víkingur Heiðar m.a. leika og BBC ætlar að taka upp.

Hver var Alfred Schnittke?

TÓNLISTARÁHUGAMENN á Vesturlöndum urðu varir við Rússann Alfred Schnittke upp úr 1980 og varð hann mjög umtalaður og að sama skapi áhrifaríkur. Hann fæddist í Sovétríkjunum en foreldrar hans voru þýskir. Framan af skipti hann tíma sínum á milli Moskvu og Hamborgar og hafði framfærslu af því að semja kvikmyndatónlist. Árið 1985 fékk hann hjartaslag, nokkur reyndar, en við það brast á með frjósamasta skeiði hans sem listamanns. Hann dó árið 1998 í Hamborg. Trúarleg, jafnt sem heimspekileg stef, einkenndu tónlist hans og hann leit á tónskáldið sem nokkurs konar miðil hin guðdómlega, en tónlist væri af slíkum meiði fremur en mannlegum. Þess má geta að tveimur tímum fyrir tónleika, kl. 18, mun Helgi Jónsson tónlistarfræðingur flytja fyrirlestur um Alfred Schnittke – líf hans og verk og ástæður þess að hann samdi trúarlega tónlist. Fer fyrirlesturinn fram í Listasafni Einars Jónssonar. Að fyrirlestrinum loknum býður Kaffi Loki upp á Kirkjulistahátíðardisk áður en gengið er til kirkjunnar til að upplifa Schnittke-tónleikana. Aðgangur ókeypis – allir velkomnir.