Eftir Arnar Eggert Thoroddsen
arnart@mbl.is
NÚ á mánudaginn, annan í páskum, mun Kammersveitin Ísafold skipuð tuttugu hljóðfæraleikurum og Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju skipaður fimmtán söngvurum, flytja Sinfóníu nr. 4 eftir Alfred Schnittke. Einsöngvarar verða þau Guðrún Edda Gunnarsdóttir alt og Bragi Bergþórsson tenór. Sinfónían, sem er samin árið 1983 en frumflutt árið 1984 er mjög trúarleg og sameinar laglínur frá fjórum kirkjudeildum: Gyðingum, rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni, mótmælendum og kaþólikkum og er hinn áhrifamikli þáttur söngvaranna fluttur á rússnesku. Textinn er frá 10. öld úr „Book of Lamentations“ eftir armenska ljóðskáldið Gregory of Naser.
Óður til trúarbragðanna
Stjórnandi er Daníel Bjarnason og segir hann Schnittke hiklaust hafa verið eitt af höfuðtónskáldum 20. aldarinnar.„Þetta var maður sem fór eigin leiðir og hann er einn af þeim sem varð svolítið útundan í sögubókunum. Hann var mikið í því að stefna saman gamla og nýja tímanum í tónlist sinni og hann var djarfur og tilraunaglaður.“
Daníel segir verkið óð Schnittke til trúarbragðanna, en hann tekur fjögur þeirra og bræðir þau saman og blandar.
„Hann var að velta því fyrir sér að þó að trúarbrögð væru mörg og ólíkrar gerðar hefðu þau líklega sömu merkingu fyrir fólk, sameiginlegan tilgang. Verkið var nýstárlegt, mætti segja að það væri þverkirkjulegt (brosir). Þvertrúarlegt eiginlega.“
Andstæður
Daníel segir verkið einkennast af andstæðum; kaflar með miklum látum skiptist á við innhverfari stemmur.„Hann var sjálfur efasemdamaður í trúnni, þó að hann væri mjög trúaður. Hann var efins um hvert skyldi leita og það endurspeglast sumpart í verkinu.“
Af Daníel sjálfum er það annars að frétta að plata hans, Processions , kemur út í Bretlandi í byrjun apríl og verkið verður frumflutt þar á hljómleikum í maí. Mun Víkingur Heiðar m.a. leika og BBC ætlar að taka upp.