Eftir Þórir H. Gunnarsson
Eftir Þórir H. Gunnarsson
Eftir Þóri H. Gunnarsson: "Tilgangur bráðabirgðauppgjörs dánarbúa er að erfingjar geti gert sér grein fyrir skuldastöðu hins látna hjá Tryggingastofnun."

SAMKVÆMT íslenskum lögum verður við andlát einstaklings til sjálfstæður lögaðili, dánarbú, sem tekur tímabundið við öllum réttindum og skyldum hins látna. Ekki er um varanlega ráðstöfun að ræða og þarf í kjölfarið að skipta dánarbúinu. Tryggingastofnun greiðir út lífeyri og bætur á grundvelli tekjuáætlunar sem lífeyrisþegar bera ábyrgð á að sé rétt. Þessar greiðslur ber stofnuninni að gera upp þegar endanlegar upplýsingar um tekjur liggja fyrir við álagningu skattayfirvalda. Sú skylda helst þó lífeyrisþegi falli frá og þá þarf stofnunin að grípa til sérstakra ráðstafana.

Þegar Tryggingastofnun berast upplýsingar um andlát lífeyrisþega er sent bréf til dánarbúsins þar sem erfingjum er tilkynnt um ýmis réttindi þeirra og skyldur gagnvart stofnuninni. Í bréfinu kemur fram að stofnunin muni endurreikna tekjutengdar bætur andlátsársins þegar skattframtal og álagning hins látna liggur fyrir.

Við endurreikning getur myndast krafa eða inneign sé misræmi á milli tekjuáætlunar og skattframtals viðkomandi bótaárs. Tryggingastofnun er skylt að innheimta kröfur og greiða út inneignir. Mismunandi er eftir tegund dánarbúa hvernig útgreiðsla inneigna og innheimta krafna er framkvæmd.

Langflestum dánarbúum lýkur með einkaskiptum. Erfingjar sækja um leyfi til einkaskipta hjá sýslumanni í umdæmi dánarbúsins. Ef sýslumaður veitir leyfið fara erfingjarnir með forræði búsins. Þar til skiptum lýkur mega einungis erfingjarnir ráðstafa eignum og verðmætum búsins og svara fyrir skyldur þess. Mikilvægt er að erfingjar átti sig á þeim mun sem er á einkaskiptum og opinberum skiptum. Munurinn felst m.a. í því að við einkaskipti gangast erfingjar undir óskipta ábyrgð á skuldbindingum búsins og sú ábyrgð helst eftir að skiptum er lokið.

Skiptum margra þeirra dánarbúa sem koma á borð Tryggingastofnunar lýkur með því að maki hins látna fær heimild til setu í óskiptu búi. Þá fær makinn eignarráð yfir fjármunum búsins en hann ber einnig ábyrgð á skuldum hins látna líkt og um hans eigin skuldir væri að ræða.

Einnig er algengt að dánarbú séu eignalaus. Í þeim tilvikum er mikilvægt að aðstandendur komi staðfestum upplýsingum til Tryggingastofnunar um eignaleysi dánarbúsins en þá er ekki gengið á erfingja vegna skulda.

Ef inneign myndast hjá lífeyrisþega í uppgjöri að honum látnum þá eiga erfingjarnir lögmæta kröfu til hennar ef ekki liggur fyrir eldri krafa stofnunarinnar á hendur hinum látna.

Inneignin er lögð á bankareikning hins látna hafi honum ekki þegar verið lokað. Hafi reikningnum hins vegar verið lokað þá þurfa erfingjar að koma upplýsingum um nýjan bankareikning til Tryggingastofnunar.

Ef skuld myndast í uppgjöri lífeyrisþegans að honum látnum þá á Tryggingastofnun lögmæta kröfu til hennar hjá dánarbúinu eða erfingjum hans eftir atvikum. Eins og áður hefur komið fram þá bera erfingjar, í einkaskiptum, óskipta ábyrgð á skuldbindingum þess.

Hvert tilkynning um kröfuna er send hverju sinni fer eftir því hversu miklar upplýsingar Tryggingastofnun hefur um stöðu dánarbúsins. Hafi Tryggingastofnun upplýsingar um umsjónarmann dánarbúsins eru upplýsingar um kröfuna sendar til hans. Sé umsjónarmaður ekki skráður þá er krafan send á elsta erfingja hins látna. Liggi engar upplýsingar um hverjir séu erfingjar fyrir þá er krafan send á dánarbúið sjálft á síðasta heimilisfang hins látna.

Þar sem nokkur tími getur liðið frá andláti lífeyrisþega og þar til unnt er að vinna lokauppgjör vegna andlátsársins þá býður Tryggingastofnun erfingjum að framkvæma bráðabirgðauppgjör vegna bótaréttar. Ekki er um endanlegt uppgjör að ræða en tilgangur bráðabirgðauppgjörs er að erfingjar geti gert sér grein fyrir hugsanlegri stöðu hins látna hjá Tryggingastofnun og verið meðvitaðir um hvort von sé á kröfu eða inneign við framkvæmd uppgjörs.

Uppgjör bóta felur í sér að tekjuáætlun uppgjörsárs er borin saman við upplýsingar í skattframtali viðkomandi árs. Til að Tryggingastofnun geti framkvæmt bráðabirgðauppgjör þurfa þessar upplýsingar um tekjur greiðsluþega að berast stofnuninni. Upplýsingar sem um getur verið að ræða eru eftir atvikum m.a.:

*Staðfest afrit skattframtals vegna viðkomandi uppgjörsárs.

*Staðfesting frá launagreiðendum á greiddum launum á því ári.

*Staðfesting frá lífeyrissjóðum á greiddum lífeyri á því ári.

*Upplýsingar frá fjármálastofnunum um fjármagnstekjur á árinu.

*Upplýsingar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda.

Tryggingastofnun getur ekki ábyrgst að niðurstaða bráðabirgðauppgjörs sé rétt en í flestum tilfellum ætti hún að gefa hugmynd um hver niðurstaðan verður. Veltur það í raun allt á því hvort Tryggingastofnun fái réttar upplýsingar um allar tekjur greiðsluþega.

Höfundur er lögfræðingur á alþjóða- og stjórnsýslusviði Tryggingastofnunar.

Höf.: Þóri H. Gunnarsson