Jóhann Sigurjónsson
Jóhann Sigurjónsson
„OKKAR ráðgjöf frá því í fyrra stendur algjörlega þangað til við höfum farið yfir nýjar upplýsingar sem úttekt á þessu vori byggist á.

„OKKAR ráðgjöf frá því í fyrra stendur algjörlega þangað til við höfum farið yfir nýjar upplýsingar sem úttekt á þessu vori byggist á. Þannig að við gerum ekki ráð fyrir að endurskoða okkar ráðgjöf núna á þessu stigi,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar.

Í grein eftir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, sem birtist í Fréttablaðinu á skírdag, segir hún skort á aflaheimildum í sumar vera áhyggjuefni og að skoða ætti hvort hægt væri að auka aflaheimildir tímabundið til að kljást við þann vanda innan forsvaranlegra marka. Eins og fram hefur komið er kvóti víða í byggðum að klárast en þá tekur við nokkurra mánaða atvinnuleysi hjá mörgu fiskverkafólki.

Að sögn Jóhanns hefst senn árleg úttekt Hafró á ástandi fiskistofnanna, en hún byggist m.a. á nýlegum stofnmælingum botnfiska, svokölluðu togararalli, netaralli á hrygningaslóð sem fram fer eftir páska sem og greiningu á gögnum um aflabrögð á þessu og síðasta ári. Ný úttekt og ráðgjöf Hafró verður síðan kynnt innan tveggja mánaða. „Og mun þá miðast við það fiskveiðiár sem hefst 1. september nk.“

Aðspurður hvort Hafró muni þá ekki tjá sig um hugsanlegar auknar aflaheimildir í sumar segir Jóhann að slíkt væri úr fasa þess sem venja er, auk þess sem í gildi sé aflaregla sem miðað er við að fylgt sé. „Auðvitað vonumst við til þess að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa efnt til og stofnunin lagt til á undanförnum misserum leiði til styrkingar stofnsins og á síðasta ári er ýmislegt sem við höfum séð sem bendir til þess að svo sé. Þannig að það eitt og sér gæti leitt til þess að einhverjir möguleikar væru á aukningu á næsta fiskveiðiári,“ segir Jóhann. Leggur hann áherslu á að mikilvægt sé að hafa í huga að þeir árgangar sem séu að vaxa upp nú um stundir og bera muni uppi veiðina séu slakir. „Af þeim sökum höfum við talið svona mikilvægt að takmarka veiðarnar. Það er árgangur 2008 sem við bindum vonir við og ef það koma fleiri slíkir þá verður eftir nokkur ár hægt að auka heimildirnar verulega. Það er ekki að tilefnislausu sem við höfum verið að mæla með niðurskurði. Það er einfaldlega vegna þess að við töldum annað ekki vera forsvaranlegt til framtíðar litið.“

Ekki reyndist unnt að fá viðbrögð Jóns Bjarnasonar, sjávar- og landbúnaðarráðherra, við hugmyndum forsætisráðherra. silja@mbl.is

Í hnotskurn
» Hafró veitti í júní í fyrra fiskveiðiráðgjöf fyrir fiskveiðiárið sem lýkur 1. september nk.
» Víða í byggðum landsins er kvóti að klárast og þá tekur við nokkurra mánaða atvinnuleysi hjá mörgu fiskverkafólki.