Eftir Sigurð Boga Sævarsson
sbs@mbl.is
SAMKVÆMT formlegri skráningu er jeppinn sem Hafsteinn Reykjalín í Kópavogi á Willys JC 5, árgerð 1947. Í tímans rás hefur bílnum hins vegar verið breytt með ýmsu móti svo úr hefur orðið nokkurs konar blanda bíla af ýmsum tegundum. „Hvar sem ég fer vekur bíllinn athygli. Svo er hann líka skemmtilega kraftmikill svo að ég verð nánast sautján ára aftur þegar ég fer í bíltúr,“ segir Hafsteinn.
Góður í heyskapnum
Á eftirstríðsárunum var mikill fjöldi Willys-jeppa fluttur til landsins, enda eru þeir hentugir sem landbúnaðartæki. „Við pabbi keyptum þennan bíl í sameiningu árið 1956 þegar ég var sextán ára. Þar sem ég ólst upp á Hauganesi við Eyjafjörð var ansi hentugt að vera með svona jeppa, enda voru allir með sjálfsþurftarbúskap og því var gott að nota Willys í heyskapnum, til að komast í kaupstaðinn, á böllin og hvaðeina,“ segir Hafsteinn.Þegar fram liðu stundir var jeppanum lagt svo hann fór að grotna niður. „Ég flutti suður en vissi alltaf af bílnum heima á Hauganesi. Í einhverri ferðinni norður, líklega í kringum 1985, ákvað ég hins vegar að kippa jeppanum með mér suður og hóf í famhaldinu endursmíði hans í bílskúrnum. Setti undir hann nýjar hásingar og drif og 350 cb vél, miklu stærri og aflmeiri en þá upprunalegu. Einnig nýja sjálfskiptingu. Þá var húsið á bílnum farið að ryðga svo ég fór inn í Vökuport og fann þar ágætt hús af Bens-fólksbíl. Ég logskar það af, sneið til og festi síðan á Willysinn og það kom bara ljómandi vel út,“ segir Hafsteinn.