Það var ekkert aprílgabb í gangi þegar Keflvíkingar tryggðu sig nokkuð auðveldlega í undanúrslit Íslandsmótsins í körfuknatatleik með stórsigri á Tindastóli í oddaleik í Keflavíkinni í fyrrakvöld. Keflvíkingar sýndu það að þeir voru sterkara liðið í þessari rimmu og hreinlega völtuðu yfir andstæðinga sína, 107:78.
Eftir Skúla Sigurðsson
sport@mbl.is
KEFLVÍKINGAR voru strax í fyrri hálfleik komnir í forystuhlutverkið í leiknum og voru 16 stigum yfir í hálfleik. Þeir keyrðu upp hraðann í seinni háflleik og á tímum var hraðinn svo mikill í leik þeirra að Tindastólsmenn voru varla búnir að ljúka sínum sóknum þegar Keflvíkingar voru að leggja knöttinn ofan í körfuna hinumegin á vellinum.
Tindastólsmenn reyndu allt og þar á meðal svæðisvörn sem mátti hinsvegar líkja meira við gatasigti.
Keflvíkingar eru svo sannarlega með sjálfstraustið á réttum stað þessa dagana og eftir þennan leik hugsa líkast til margir um það hvernig Tindastóll fór að því að sigra lið Keflvíkinga á Sauðárkróki fyrr í vikunni.
Líklega síðasta árið mitt á Íslandi
Cedric Isom var allt í öllu hjá gestunum í fyrri hálfleik en náði sér aldrei á strik í þeim seinni. „Þeir eru með flotta skotmenn og spila harðan varnarleik. Við vorum í vandræðum með að halda boltanum og töpuðum honum klaufalega. Planið fyrir kvöldið var að halda boltanum betur en það gekk ekki eftir og því erum við komnir í sumarfrí. Varðandi mig þá er þetta líklega mitt síðasta ár á Íslandi, annars veit maður aldrei. Nú fer ég til Rúanda að spila þar fyrir landsliðið í undankeppni og svo veit ég ekki hvert framhaldið verður,“ sagði þessi bráðflinki bakvörður sem ætti svo sannarlega að vera feitur biti fyrir hvaða lið sem er á næsta tímabili.
Hugarfarsbreyting frá síðasta leik
Hörður Axel Vilhjálmsson hefur verið Keflvíkingum drjúgur í vetur og í fyrrakvöld varð engin breyting þar á.„Við vitum það að við erum í klassa fyrir ofan Tindastólsliðið þannig að þessi stórsigur í kvöld kemur mér ekkert á óvart. Í kvöld leiðréttum við bara smá misskiling sem var á Sauðárkróki í síðasta leik. Það var svo sem ekkert nema hugarfarsbreyting sem var frá því síðast. Við spiluðum bara góða vörn og ef við gerum það þá hefur ekkert lið roð við okkur,“ sagði Hörður Axel kokhraustur og sagðist hlakka mikið til rimmurnar gegn Njarðvík í undanúrslitunum en fyrsta viðureign liðanna verður í Toyotahöllinni í Keflavík á mánudagskvöldið.
Keflavík – Tindastóll 107:78
Toyotahöllin, 8-liða úrslit Íslandsmóts karla, oddaleikur, fimmtudag 1. apríl 2010.Gangur leiksins : 2:4, 17:12, 22:19, 22:22, 42:31, 49:35 , 63:42, 78:54 , 90:62, 107:76 .
Stig Keflavíkur : Sigurður Gunnar Þorsteinsson 21/6 fráköst, Uruele Igbavboa 18/6 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 16/10 stoðsendingar, Draelon Burns 14/8 fráköst/6 stoðsendingar, Jón Nordal Hafsteinsson 12/5 stolnir, Þröstur Leó Jóhannsson 9/5 fráköst, Gunnar Einarsson 8, Sverrir Þór Sverrisson 5/5 stoðsendingar, Davíð Þór Jónsson 4, Alfreð Elíasson 0, Gunnar H. Stefánsson 0, Guðmundur Auðunn Gunnarsson 0.
Fráköst : 27 í vörn – 10 í sókn.
Stig Tindastóls : Helgi Rafn Viggósson 24/5 fráköst, Cedric Isom 17/6 fráköst/9 stoðsendingar/5 stolnir, Donatas Visockis 9/4 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 8, Friðrik Hreinsson 7, Svavar Atli Birgisson 7/5 fráköst, Halldór Halldórsson 3, Hreinn Gunnar Birgisson 2, Sigmar Logi Björnsson 1, Pálmi Geir Jónsson 0, Sigurður Snorri Gunnarsson 0, Axel Kárason 0.
Fráköst : 16 í vörn – 10 í sókn.
Villur : Keflavík 18 – Tindastóll 20.
Dómarar : Sigmundur Már Herbertsson, Björgvin Rúnarsson.
Áhorfendur : 400.