Páskarnir eru tími hugvekju, þar sem fólki gefst tími til að leita inn á við, en jafnframt leggja rækt við fjölskylduna. Ástin blómstrar og Pétur Stefánsson tekur eftir að þá yrkja sumir um hunda og ketti.

Páskarnir eru tími hugvekju, þar sem fólki gefst tími til að leita inn á við, en jafnframt leggja rækt við fjölskylduna. Ástin blómstrar og Pétur Stefánsson tekur eftir að þá yrkja sumir um hunda og ketti. Honum kemur annað í hug:

Þreytan öll frá limum líður,

lúin beinin hressast fljótt.

Angur hugans úr mér skríður,

í örmum þínum dag og nótt.

Hjá þér æ mun hugró veitast,

hamingjunnar straum ég finn.

Faðmlag þitt ég þrái heitast,

þú ert Lazy Boyinn minn.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir var ekki alveg sátt við boðskap Péturs:

Er nú Pétur orðinn breyttur

ekkert vín né ferð á bar.

Láréttur hann liggur sveittur

og langar ekki á kvennafar.

Bryndís H. Bjartmarsdóttir telur að karlmenn eigi að finna sér önnur og verðugri yrkisefni:

Alveg er nóg að etja kappi

við yngri konur um mannsins hylli

þó stólræfill fái´ ekki að hrósa happi

og hverja hans þrá og löngun stilli.

Símon Dalaskáld orti til Þóreyjar Bjarnadóttur, bónda á Hofi, að því er segir í Ljóðmælum með völdum vísum eftir hann:

Man ég fríð í Dölum drós

dugði smíða bögur.

Hennar blíðu brúnaljós

brunnu íðilfögur.

Við í næði ljóða leik

létum fæða gaman,

ég og klæða inndæl eik

ortum kvæði saman.

Nam sú gæða-mjúklynd mær

meinin græða hörðu;

saman æðar ásta tvær

okkar blæða gjörðu.

Vísur Vatnsenda Rósu eru kunnustu ástarvísur á íslenskri tungu, en þær orti hún til Páls Þórðarsonar frá Melstað. Sagnir um kynni Páls Melsteð og Skáld-Rósu eru gamlar. Þau byrjuðu á Möðruvöllum þegar Rósa var kornung, en hversu náið samband þeirra var veit nú enginn.

Augað mitt og augað þitt,

og þá fögru steina

mitt er þitt, og þitt er mitt,

þú veist, hvað eg meina.

Trega eg þig manna mest

mædd af tára flóði,

ó, að við hefðum aldrei sést,

elsku vinurinn góði.

Langt er síðan sá ég hann,

sannlega fríður var hann,

allt, sem prýða mátti einn mann,

mest af lýðum bar hann.

Engan leit eg eins og þann

álma hreyti bjarta.

Einn guð veit eg elskaði hann

af öllum reit míns hjarta.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali og jökull ber,

steinar tali og allt, hvað er,

aldrei skal eg gleyma þér.

Verði sjórinn vellandi,

víða foldin talandi,

hellubjörgin hrynjandi,

hugsa ég til þín stynjandi.

Augað snart er tárum tært,

tryggð í partast mola,

mitt er hjartað sárum sært,

svik er hart að þola.

Beztan veit eg blóma þinn,

blíðu innst í reitum.

Far vel Eyjafjörður minn,

fegri öllum sveitum.

Sagnir herma að hún hafi fundið Pál Melsteð á förnum vegi og ort til hans:

Man ég okkar fyrri fund,

forn þó ástin réni.

Nú er eins og hundur hund

hitti á tófugreni.