— Morgunblaðið/Kristinn
„MÉR vitanlega er þetta fyrsta útimessan við Esjurætur, alla vega á þessum stað,“ segir Gunnar Kristjánsson, prófastur á Reynivöllum, sem messaði við Esjurætur í gær, föstudaginn langa.

„MÉR vitanlega er þetta fyrsta útimessan við Esjurætur, alla vega á þessum stað,“ segir Gunnar Kristjánsson, prófastur á Reynivöllum, sem messaði við Esjurætur í gær, föstudaginn langa.

Að sögn Gunnars minntist hann þjóðskáldsins séra Matthíasar Jochumssonar sem bjó undir vesturhlíðum Esjunnar, en sunginn var eftir hann sálmur. „Síðan lagði ég út af lokakafla Heimsljóss eftir Halldór Laxness þar sem Ólafur Kárason gengur á jökulinn þar sem fegurðin er lykilhugtak,“ segir Gunnar, en eins og margir vita þá er Ólafur Kárason í vissum skilningi eftirmynd Jesú. „En í þessum lokakafla birtist stefið í textanum: „Bráðum skín sól uppprisudagsins“ og ég tengdi þetta hvort tveggja saman, þ.e. föstudaginn langa og páskadag,“ segir Gunnar. Aðspurður segir hann frekar fámennt hafa verið í messunni sem skýrist sennilega af því annars vegar hversu kalt var í veðri og hins vegar því að margt göngufólk kaus að fara á gosslóðir um páskana í stað þess að ganga á Esjuna eins og venjulega. „En þetta var mjög ánægjuleg stund, þótt veðrið hefði ekki verið það besta fyrir útimessu,“ segir Gunnar.