ÍSLENSKA kvennalandsliðið í fótbolta náði fínum úrslitum í tveimur útileikjum í Serbíu og Króatíu í undankeppni heimsmeistaramótsins. Ísland hefur sett sér það markmið að koma sér í þá stöðu í ágúst að heimaleikurinn gegn Frökkum verði úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins.
Það er enn raunhæfur möguleiki en Frakkar eru með betri markatölu en Ísland, og eins og staðan er í dag þarf Ísland að vinna Frakka 3:0 á Laugardalsvelli þann 21. ágúst – að því gefnu að Ísland vinni Norður-Íra þann 19. júní og Króatíu þann 22. júní á heimavelli. Lokaleikurinn hjá Íslandi er gegn Eistlandi á útivelli 25. ágúst.
Ótrúlegt viðhorf í Króatíu
Kvennaknattspyrna hefur sótt í sig veðrið í Norður-Evrópu og víðar á undanförnum áratug eða svo. Konurnar æfa meira en áður og hafa sett sér ný viðmið og markmið. Á ferð minni með kvennalandsliðinu í Serbíu og Króatíu er ljóst að löndin á Balkanskaganum hafa ekki mikla trú á kvennaknattspyrnu. Vallaraðstaðan sem boðið var upp á í Serbíu var ekkert annað en vanvirðing, og neikvætt viðhorf til kvennafótboltans kom fram í ýmsum myndum . Aðstæður í Króatíu voru betri, en viðhorf vallarstjóra Town Stadium-vallarins í bænum Vrbovec sagði alla söguna um hver staða kvennafótboltans er í því landi. Vallarstjórinn taldi það hneisu að slá þyrfti grasið í viðunandi hæð fyrir konurnar, en eftirlitsmaður UEFA gerði athugasemd við völlinn og krafðist þess að grasið yrði slegið. Vallarstjórinn taldi að konur gætu ekki leikið fótbolta á snöggslegnum velli. Þær réðu ekki við slíkar áskoranir. Hann sýndi síðan vanvirðingu sína í verki með því að hefja sláttinn á miðri æfingu og brunaði nokkrar ferðir á sláttuvélinni framhjá Hólmfríði Magnúsdóttur. Og skömmu síðar tók Klara Bjartmarz, farastjóri og starfsmaður KSÍ, í taumana og stöðvaði uppátæki vallarstjórans – með því að staðsetja sig fyrir framan sláttuvélina. Ótrúleg uppákoma, sem segir allt um stöðu kvennafótboltans og þá virðingu sem hún nýtur Króatíu.
Bestu dómararnir?
Eftir 3:0 sigur Íslands gegn Króatíu var nánast aðeins eitt atriði sem komst að hjá leikmönnum. Og það var rússneska dómaratríóið sem þrjár konur skipuðu. Það er alveg hægt að taka undir gagnrýni landsliðsleikmanna og maður veltir því fyrir sér hvort UEFA sé ekki skrefinu á eftir fremstu kvennalandsliðum heims. Í þessum tveimur leikjum sem Ísland lék í Serbíu og Króatíu kom það bersýnilega í ljós að báðar konurnar sem dæmdu leikina réðu ekki við verkefnið.„Það er stefnan hjá UEFA að konur eigi að dæma hjá konum. Ég hef aldrei verið sammála þeirri skoðun. Mér finnst bara að bestu dómararnir eigi að dæma A-landsleiki í undankeppni stórmóts. Hvort sem það eru leikir hjá körlum eða konum. Það á ekki að skipta máli. Margir af þeim dómurum sem hafa dæmt hjá okkur eru ekki í þeim gæðaflokki að þeir ættu að vera dæma slíka leiki. Þetta er ekki alltaf svona, við höfum fengið marga mjög góða kvendómara. Dómararnir hafa tekið framförum jafnt og þétt. Mér finnst að dómarar eigi að þróa sína hæfileika á lægri stigum áður en þeir fara að dæma A-landsleiki, það er ekki rétti vettvangurinn fyrir slíkt,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kvennalandsliðsins, eftir leik Króatíu og Íslands sl. miðvikudag.
Þekkti ekki dómara frá Belgíu
Orð landsliðsþjálfarans ríma áætlega við það sem ég varð vitni að í leikjum Íslands í Serbíu og Króatíu. Belgíski dómarinn sem dæmdi leikinn í Serbíu dæmdi á næstum því allar snertingar. Það var ekkert flot í leiknum og íslensku leikmennirnir voru oft furðu lostnir yfir smámunasemi dómarans. Yfirferðin var líka engin á dómaranum sem sat oft eftir þegar íslenska liðið brunaði upp völlinn. Og það sem vakti athygli mína var að landsliðsmarkvörður Íslands sem leikið hefur í efstu deild í Belgíu kannaðist ekki við að Claudine Brohet hefði dæmt leik hjá sér. Maður veltir því fyrir sér hvar Brohet hefur þá fengið sína reynslu sem skilar henni verkefni hjá A-landsliði í undankeppni HM.
Reitti alla til reiði í sigurleik
Og ekki veit ég hvar Marina Mamajeva frá Rússlandi hefur fengið sína reynslu sem dómari. Hún reitti alla leikmenn íslenska landsliðsins til reiði í 3:0 sigurleik gegn Króatíu. Furðulegt en satt. Eftir góðan sigur var slakur dómari það sem var aðalumræðuefnið.Það er umhugsunarefni fyrir UEFA og þá sem eru á þeirri skoðun að konur eigi að dæma hjá konum.
Ég er á þeirri skoðun að bestu dómararnir eigi að dæma hverju sinni, hvort sem það er hjá konum eða körlum. seth@mbl.is
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson