PORTÚGALSKA liðið Benfica sigraði Liverpool, 2:1, í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA sem fram fór í Lissabon í fyrrakvöld. Liverpool var manni færra frá 30. mínútu þegar Ryan Babel var rekinn af velli. Hann ýtti þá í tvígang með hendi í andlit Luisao, sem áður hafði brotið illa á Fernando Torres, sóknarmanni Liverpool.
„Þetta var ekki alvarlegt atvik og ég er ósáttur við þessa ákvörðun dómarans. En við breytum henni ekki, verðum að hugsa til næsta leiks, búa okkur vel undir hann og skora markið sem við þurfum til að fara áfram,“ sagði Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, við BBC.
Daniel Agger kom Liverpool yfir snemma leiks en síðan var Babel vísað af velli. Oscar Cardozo tryggði Benfica sigur með tveimur mörkum úr vítaspyrnum í síðari hálfleiknum.
Fulham sigraði þýsku meistarana Wolfsburg, 2:1, í London. Bobby Zamora og Damien Duff komu Fulham í 2:0 og enska liðið var mun sterkara en það þýska, en Alexander Madlung minnkaði muninn í 2:1 undir lok leiksins.
„Wolfsburg er gott lið með marga góða leikmenn, en mér fannst við láta þá líta frekar hversdagslega út í kvöld. Evrópuævintýrið heldur áfram og við höfum enn unnið athyglisverðan sigur,“ sagði Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Fulham, við BBC. Hans menn höfðu áður slegið UEFA-meistarana Shakhtar Donetsk og ítalska stórliðið Juventus út úr keppninni. vs@mbl.is