Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
HUGMYNDIR eru uppi um skipulagningu jarðminjagarða samkvæmt forskrift evrópsku Geopark-samtakanna. Lengst á veg er kominn undirbúningur að jarðminjagarði á Suðurlandi og eldfjallagarði í landi Grindavíkur.
„Það vinna nokkrir að skipulagningu eldfjalla- eða jarðminjagarða, hver í sínu horni, og sumir eru nokkuð langt komnir. Við teljum mikilvægt að fólk tali saman og gerð verði heildstæð stefna um uppbyggingu jarðminjagarða á landinu öllu,“ segir Þorsteinn Sæmundsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra og formaður Jarðfræðafélags Íslands. Farið var yfir málið í heild á ráðstefnu sem nokkrar stofnanir stóðu að.
Markast ekki af sveitarfélögum
Þrjú sunnlensk sveitarfélag, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur, eru að skipuleggja svæðið sem jarðminjagarð og nokkrir aðilar hafa unnið að eldfjallagarði á Reykjanesskaganum, meðal annars Grindavíkurbær. Sveitarfélög í öðrum landshlutum hafa verið með svipaðar hugmyndir uppi.Þorsteinn leggur áherslu á að útbreiðsla jarðfræðilegra fyrirbæra afmarkist ekki af sveitarfélögum heldur fyrirbærunum sjálfum. Hann segir að ef hver ætli að vinna sitt án tillits til annarra geti komið til árekstra. „Farsælast er að vinna saman og helst að gera net jarðminjagarða með mismunandi uppbyggingu allt í kringum landið. Þá geta menn unnið saman að undirbúningi og lært hver af öðrum og síðan markaðssett þetta saman,“ segir Þorsteinn og bætir því við að baráttan um ferðamanninn fari sífellt harðnandi.
Rúmar margt
Uppbygging jarðminjagarða í Evrópu hefur staðið í áratug og mynda garðarnir samtök. Þeir sem uppfylla skilyrði evrópsku Geopark-samtakanna komast sjálfkrafa inn í alþjóðleg samtök sem Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, stendur að.Jarðminjagarður er vel afmarkað svæði með merkilegar og fjölbreyttar jarðminjar. Lögð er áhersla á sjálfbæra þróun, fræðslu og verndun jarðminja. Þeir ganga út á það að nýta umhverfi og menningu viðkomandi svæðis til að efla byggðina. Það er meðal annars gert með því að taka saman upplýsingar um jarðfræði staðanna og koma þeim á framfæri við ferðafólk, skipuleggja gönguferðir og fleira.
Þegar eru nokkrir tugir slíkra garða í löndum Evrópu og alls rúmlega sextíu alþjóðlegir garðar í um tuttugu löndum. Ísland gæti bæst í hópinn á þessu eða næsta ári.
„Hugmyndin er sniðug því hún rúmar svo margt,“ segir Sveinn Pálsson, sveitarstjóri í Vík. „Tilgangurinn er að vernda þessi svæði en um leið að nýta þau við ferðaþjónustu. Mér sýnist að þetta falli vel að uppbyggingu ferðaþjónustu sem er sífellt að verða mikilvægari fyrir okkur,“ segir Sveinn.
Vanda þarf til verka
Þorsteinn Sæmundsson leggur áherslu á jarðfræðileg þekking sé grunnur jarðminja- og eldfjallagarða. Því sé mikilvægt að vísindamenn komi að undirbúningnum á fyrstu stigum hans.„Það þarf að taka saman nýjustu upplýsingar um svæðið og matreiða þær vel. Þær þurfa að vera á netinu og á merkjum og upplýsingaskiltum. Það þarf að vanda til verka þannig að þær nýtist bæði ferðafólki sem hefur staðgóða þekkingu en líka þeim sem minna vita. Margt ferðafólk er vel upplýst og sættir sig ekki við neitt hálfkák,“ segir Þorsteinn.
Skipulagðar hringleiðir í Eldfjallagarði
TVÆR hringleiðir í landi Grindavíkur eru hluti af hugmyndum um uppbyggingu eldfjallagarðs þar. Önnur leiðin er í kringum Eldvörpin en hin um Vigdísarvelli og nágrenni.Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri telur að töluverðir möguleikar felist í uppbyggingu jarðminjagarðs með áherslu á eldvirknina. Hann nefnir að hópar af ýmsu tagi séu tilbúnir að kaupa leiðsögn um þessa staði, allt frá skólahópum til fræðimanna.
Ferðamálasamtök Suðurnesja eru að skipuleggja eldfjallahring á Reykjanesinu sjálfu, hundrað gíga hringinn. „Það fellur ágætlega að því sem við erum að gera,“ segir Ólafur Örn og hann segir vel koma til greina að vinna að þessu í sameiningu.
Reykjavíkurborg hefur lýst sig reiðubúna til að leggja fjármagn í eldfjallagarð í gegnum Reykjanesfólkvang. Ólafur segir að taka megi mun stærra svæði inn í þetta samstarf, Brennisteinsfjöll, Hengilssvæðið og alveg upp á Þingvelli. helgi@mbl.is
Eldgos í jarðminjagarði
ELDGOSIÐ á Fimmvörðuhálsi er innan væntanlegs jarðminjagarðs á Suðurlandi. Það hefur dregið fjölda ferðafólks að svæðinu og gæðavottunin sem fylgir þátttöku í verkefninu gæti aukið strauminn til frambúðar.„Þetta yrði gæðastimpill fyrir þetta svæði, staðfesting á því að hér eru merkilegir staðir sem hægt er að sinna á góðan hátt,“ segir Elvar Eyvindsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, um jarðminjagarð á Suðurlandi. Þrjú sveitarfélög á Suðurlandi, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur, vinna að undirbúningi verkefnisins í anda Geopark-samtakanna. Hugmyndin er að allt landsvæði sveitarfélaganna þriggja verði undir.
Innan þessa jarðminjagarðs yrði Eyjafjallajökull og Fimmvörðuháls sem mikið hafa verið í umræðunni að undanförnu, Katla, Eyjafjöllin, Dyrhólaey og Lakagígar svo nokkrir merkir staðir séu nefndir. Á þessu svæði hafa orðið miklar náttúruhamfarir, ekki síst eldgos. Taka þarf saman upplýsingar um þessa atburði og merkja staðina, auk annars. Elvar segir að ferðafólk sé fróðleiksfúst og margt vilji fá sem mestar upplýsingar um staðina sem það heimsækir.
Elvar segir að hópar fólks fari á milli staða innan Geopark-samtakanna og því geti verið mikilvægt að taka þátt í þeim. Þá telur hann að þessi gæðastimpill gæti einnig nýst við markaðssetningu heimaframleiðslu á svæðinu.
„Það þarf að undirbúa þetta verkefni vel en ég vonast til að það komist vel í gang á þessu og næsta ári og að jafnvel verði hægt að sækja um leyfið innan árs,“ segir Elvar. helgi@mbl.is