Víkverji er enn að reyna að gera upp við sig hvort hann eigi að fá sér páskaegg eða ekki. Páskaeggin eru girnileg ásýndar og það fylgir því skemmtileg stemning að opna þau, gægjast inn og finna málsháttinn og brjóta svo fyrsta bitann.

Víkverji er enn að reyna að gera upp við sig hvort hann eigi að fá sér páskaegg eða ekki. Páskaeggin eru girnileg ásýndar og það fylgir því skemmtileg stemning að opna þau, gægjast inn og finna málsháttinn og brjóta svo fyrsta bitann. En þá byrja líka vonbrigðin, því aldrei skulu páskaeggin standa undir væntingum Víkverja, þau eru bara alls ekki góð.

Reyndar er ekki alveg að marka Víkverja því hann verður sífellt vandlátari á sælgæti og hefur raunar áhyggjur af því að hann sé að missa hina svokölluðu „sætu tönn“ eins og Bretar kalla smekkinn fyrir sætindum. Eitt sinn var það þannig að þegar Víkverji fór út að borða leit hann fyrst á eftirréttarseðilinn og valdi sér svo aðalrétt í samræmi.

Nú orðið er Víkverji hinsvegar oft spenntari fyrir forréttinum og sama hversu mikið hann reynir að magna upp löngun í einhvern dísætan eftirrétt þá tekst það ekki.

Áhuginn á kökum virðist nefnilega hafa gufað upp að miklu leyti. Það sem af er páskum hefur hann farið í tvær fermingarveislur, í hinni fyrri var matur en í hinni seinni var, Víkverja til mikilla vonbrigða, eingöngu boðið upp á kökur. Þetta varð til þess að Víkverji fór svangur heim.

Reyndar hefur Víkverji alltaf verið og er enn afskaplega hrifinn af súkkulaðikökum. Hann er hinsvegar hættur að sætta sig við hvaða súkkulaðiköku sem er og ef þær eru ekki akkúrat eins og Víkverji vill hafa þær þá gufar áhuginn fljótt upp og Víkverji klárar sneiðina aðeins fyrir kurteisis sakir.

Að sumu leyti er þetta áhugaleysi um sætindi fagnaðarefni en stundum saknar Víkverji þess samt að hafa ekki ólma löngun til að svelgja í sig sætindin sama hverrar gerðar þau eru. Það á til dæmis við um páskaeggin, því án þeirra eru páskarnir hálftómlegir.