Eftir Arnar Eggert Thoroddsen
arnart@mbl.is
FÆREYSKA tónlistarhátíðin G! Festival, sem fram fer í bænum Götu á Austurey ár hvert, er einn helsti fastinn í tónlistarlífi eyjarskeggja. Hátíðin verður nú haldin dagana 15. til 17. júlí en hátíðin var fyrst haldin árið 2002 og hefur verið lofuð mikið í alþjóðlegu tónlistarpressunni fyrir einstakan anda og sérstæða umgjörð, en Gata, hvar Þrándur gamli bjó, er ekki nema þúsund manna bær. Liggur hann í einkar fallegu fjarðarmynni með tignarlegum, glæstum fjöllum álengdar.
Á hverju ári leika um 40 sveitir á þremur sviðum og er helmingur þeirra heimaalinn. Tjaldsvæði er nálægt bænum, þar sem rúmlega 2000 manns komast fyrir.
Arch Enemy leika
Eðlilega hafa Foo Fighters, U2 eða Kings of Leon ekki verið að troða þarna upp en áhersla er á spennandi skandinavískar sveitir. Einnig hafa sveitir frá öðrum löndum, Bandaríkjunum og frá meginlandi Evrópu komið þarna fram. „Stór“ númer láta þó sjá sig þarna líka og nú hafa hátíðarhaldarar spilað út fyrsta trompinu af þeirri gerðinni en um er að ræða sænsku þungarokkssveitina Arch Enemy. Sveitin var stofnuð af gítarleikaranum Michael Amott er hann hætti í hinni goðsagnakenndu Carcass og nýtur hún mikilla vinsælda og virðingar í þungarokksheimum. Sveitin hefur leikið á öllum helstu þungarokkshátíðum heims og túrað með sveitum á borð við Machine Head, Slayer, Megadeth, Cradle Of Filth og Iron Maiden. Söngkona, já ég sagði söngkona sveitarinnar er Angela Gossow og heyrn er sögu ríkari hvað hennar þátt varðar.Aðrir tónlistarmenn sem mæta eru Eivör okkar Pálsdóttir, Týr, hinn sænski Moto Boy (sem heillaði áhorfendur á síðustu Airwaves-hátíð), Brandur (Enni, fyrrverandi barnastjarna, nú söngvaskáld) og danska „grime“ stjarnan Lucy Love. Frekari upplýsingar má nálgast á www.gfestival.fo.