Erla Kristín Þorvaldsdóttir Egilson fæddist á Patreksfirði 13. mars 1924. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 14. mars 2010.

Útför Erlu var gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík 22. mars 2010.

Hún amma mín var engum lík, hún var einstök. Það er skrýtið að hugsa sér lífið án hennar Erlu ömmu minnar sem ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa átt að í næstum 39 ár.

Amma var ekki aðeins amma mín heldur einnig besti vinur minn og okkar barnabarnanna og gátum við leitað til hennar með allt milli himins og jarðar. Hún hafði alltaf brennandi áhuga á því sem við vorum að gera og fylgdist ávallt vel með þeim straumum og stefnum sem voru í gangi hverju sinni.

Heimili ömmu og afa í Barðavoginum var okkar aðalsamkomustaður og athvarf, þar átti maður öruggt skjól. Amma og afi tóku okkur alltaf opnum örmum og vissu ekkert skemmtilegra en að hafa sem flesta í kringum sig enda var ávallt líf og fjör í Barðvoginum. Eftir að afi dó héldum við frændsystkinin „ömmukvöld“ en þá hittumst við öll heima hjá ömmu. Þessi kvöld eru ógleymanleg í minningunni því aldrei hefur maður hlegið eins mikið og á þessum kvöldum. Amma átti stóran þátt í þessum gleðistundum vegna þess að hún var mikill húmoristi og hafði einstakan húmor fyrir sjálfri sér og hló yfirleitt manna mest. Alltaf var hún tilbúin til að fara með okkur í leikhús, í bæinn, út að borða eða hvert sem við vorum að fara, hún var opin fyrir öllu. Amma var líka einstaklega sterk og raunsæ kona sem stóð ávallt sterk, sama hvað bjátaði á, það sá maður þegar stór áföll urðu í fjölskyldunni.

Ég kveð hana ömmu mína með miklum söknuði en jafnframt þakklæti fyrir að hafa alltaf verið til staðar fyrir mig, fyrir að vera mér einstök fyrirmynd og besti vinur sem hægt er að hugsa sér.

Minningarnar eru ótal margar og geymi ég þær með mér um ókomin ár.

Þórunn Erla.