Í málefnavinnu framsóknarmanna vegna borgarstjórnarkosninganna í vor hefur verið tekinn til skoðunar sá möguleiki að flytja heitt vatn til Færeyja, til almennrar notkunar þar.
Færeyjar eru fyrsta skrefið
Heitavatnsnotkun Orkuveitu Reykjavíkur er komin í 85 milljón tonn á ári fyrir 210.000 manna íbúafjölda á þjónustusvæði hennar. Íbúafjöldi í Færeyjum er 60.000. Ef hver notandi í Færeyjum myndi nota 67% af því heitavatnsmagni sem hver notandi í Reykjavík er ábyrgur fyrir, þá væri heitavatnsmarkaður í Færeyjum um 16,3 milljón tonn á ári.
Lítið hitastigsfall
Útreikningar hafa leitt í ljós að hitastigsfall í farminum við flutninga til Færeyja eða Skandinavíu væri minna en 1,5°C miðað við nauðsynlega einangrun lesta skipsins. Lausleg áætlun gerir ráð fyrir því að 20-30% af orkunni í heita vatninu jafngildi olíuorkunni sem þarf til að knýja skipin. Hlutfallið er háð siglingalengd og stærð skipa.Taka þarf tillit til margra þátta í verkefni sem þessu, en drifkraftur hagkvæmninnar er verðmunur milli landa á orku til húshitunar. Lausleg athugun hefur leitt í ljós að verð á heitu vatni í Kaupmannahöfn er 10 sinnum hærra en í Reykjavík og í Færeyjum 14 sinnum hærra.
Umtalsverðar gjaldeyristekjur
Ef gert er út eitt flutningsskip með burðargetu upp á 50.000 tonn þá væri hægt að anna um 15% af markaði fyrir heitt vatn í Færeyjum með 45-50 ferðum á ári. Ef greidd yrðu fyrir þetta vatn 80% af núverandi gjaldskrá yrði velta þessara viðskipta um 14 milljarðar íslenskra króna á ári.Það eru miklir möguleikar í útflutningi á heitu vatni og Færeyjar væru hugsanlega bara byrjunin. Ef vel gengi væri hægt að skoða útflutning á heitu vatni til Kaupmannahafnar og fleiri stórborga á Norðurlöndum og til borga í Skotlandi. Við þurfum að nýta alla möguleika til atvinnusköpunar og þarna er um að ræða tækifæri sem gæti leitt til verulegra gjaldeyristekna.
Einar Skúlason
oddviti framsóknarmanna
í borgarstjórnarkosningunum
Frá Einari Skúlasyni