ÞAÐ getur verið óttalegt vesen að vera kvenkynsvera. Þetta stundum nöturlega hlutskipti opinberaðist greinilega í náttúrulífsþætti David Attenborough á RÚV síðastliðið mánudagskvöld.
Viðkvæm og tilfinningarík kvenkynsvera, nánar tiltekið kameljón, lagði út í eyðimörkina í karlaleit. Í byrjun fannst manni eins og þetta væri illa skipulagt ferðalag sem gæti ekki farið vel. Enda kom á daginn að þetta var löng og einmanaleg ganga hugsjónaríks kvendýrs sem hafði ekki mikið raunveruleikaskyn.
Frúin hitti reyndar karl, en hann var náttúrlega ómögulegur og eftir að hafa svalað fýsnum sínum lét hann sig hverfa. Hún var aftur án karldýrs en samt ekki ein, því hún var ólétt. Svo hélt þessi verðandi einstæða móðir áfram eyðimerkurgöngu sinni. Sjálfur var maður fullur samúðar með þessari litlu kynsystur sinni sem hafði farið svona illa út úr lífinu. En samt fannst manni að þessi viðkvæma vera, sem hafði bjartsýn lagt út í þessa löngu göngu í þeirri von að finna gott karldýr, hlyti að verða góð móðir. Kannski hefur hún að lokum fundið góðan stjúpa fyrir barnaskarann. En af því lífið er nú eins og það er, þá finnst manni það helst til ótrúlegt.
Kolbrún Bergþórsdóttir