Bóndi og sveitarstjóri Elvar Eyvindsson sveitarstjóri í Rangárþingi eystra metur starf bóndans mikils, segir að það gefi sér lífsfyllingu, þótt hann telji ekki glóru í því að stunda búrekstur.
Bóndi og sveitarstjóri Elvar Eyvindsson sveitarstjóri í Rangárþingi eystra metur starf bóndans mikils, segir að það gefi sér lífsfyllingu, þótt hann telji ekki glóru í því að stunda búrekstur. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is „ÞAÐ er fínt að vera sveitarstjóri ef maður hefur ekkert annað að gera,“ segir Elvar Eyvindsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

„ÞAÐ er fínt að vera sveitarstjóri ef maður hefur ekkert annað að gera,“ segir Elvar Eyvindsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra. Hann er bóndi á Skíðbakka í Austur-Landeyjum og bætti við sig starfi sveitarstjóra þegar Unnur Brá Konráðsdóttir fór í fæðingarorlof og síðan á þing.

Mikið hefur mætt á forystumönnum Rangárþings eystra síðustu dagana, vegna eldgossins á Fimmvörðuhálsi. Elvar er ekki að vísa til þess þegar hann ræðir um annir í starfi, heldur til þess að hann er jafnframt með stórt kúabú. Hann segir að þótt starf sveitarstjóra sé áhugavert taki hann búskapinn framyfir, komi til þess eftir næstu kosningar að hann verði í aðstöðu til þess að velja.

Hann leysir málin með því að ráða vinnumann en gengur sjálfur í verkin eftir því sem aðstæður leyfa.

Átthagafjötrar

„Búskapurinn er lífsstíll. Mér þykir vænt um staðinn sem hefur gengið mann fram af manni í fjölskyldu minni í næstum hundrað ár. Það má kannski segja að þetta séu átthagafjötrar en ég nýt þessa starfs,“ segir Elvar.

Hann tekur undir það að þótt starf sveitarstjóra sé með óöruggustu störfum sem hægt er að finna sé ekki sérlega bjart yfir búskapnum heldur. „Það er í raun og veru ekki glóra í því að stunda búrekstur og hefur sennilega aldrei verið. En í þessu starfi fæ ég lífsfyllingu.“

Þarf að vernda ræktanlegt land

Bakgrunnur Elvars kemur meðal annars fram í áherslum hans og áhuga í sveitarstjórn. Hann vill til dæmis reyna að finna leiðir til þess að tryggja að besta ræktunarlandinu verði ekki spillt með því að taka það undir aðra starfsemi til frambúðar. Það verði hæft til matvælaframleiðslu þegar á þurfi að halda.

„Það hefur nýlega komið fram að enn er óráðstafað góðu ræktanlegu landi, um 40 þúsund hekturum. Ég gæti trúað því að þriðjungur þess eða jafnvel helmingur væri í Rangárþingi eystra. Landeyjarnar og Eyjafjöllin eru frjósamt land og vel fallið til ræktunar. Við verðum að reyna að vernda það,“ segir Elvar.

Hann sér ógnina í því að jarðirnar skiptist smám saman upp og komist í eigu margra. Einnig að skipulögð verði sumarhúsabyggð á landi sem henti betur til ræktunar. „Við eigum mikið af góðu landi fyrir sumarhúsabyggðar, við eigum að beina þeim þangað,“ segir sveitarstjórinn.

Sveitarfélögin hafa skipulagsvaldið en Elvar gerir sér grein fyrir því að það geti verið erfitt gagnvart núverandi eigendum landsins að setja kvaðir á það í skipulagi og stýra þannig þróuninni. Tekur hann fram að gæta þurfi hófs og reyna að sætta sjónarmið eins og mögulegt er. Það sé hins vegar nauðsynlegt að marka stefnuna, ef þessi markmið eigi að nást. Sveitarfélagið verði að hugsa um heildarhagsmuni. „Ég lít á ræktanlegt land sem auðlind, ekki síður en vatnið, sem beri að vernda,“ segir Elvar.