HELGINA 20.-21. mars sl. fór fram Íslandsmeistaramót með 10 dönsum í samkvæmisdönsum í Smáranum í Kópavogi. Mótið er þriðja stóra dansmótið á þessu ári, og er haldið á vegum Dansíþróttasambands Íslands.
Samhliða Íslandsmeistaramótinu fór fram bikarmót með grunnaðferð og tvö opin mót, annars vegar DSÍ latin Open og hins vegar DSÍ ballroom Open.
Rúmlega 500 börn og unglingar voru skráð til keppni og sýninga í Smáranum að þessu sinni, þau yngstu í flokki 9 ára og yngri og þau elstu í flokki fullorðinna, eða 19 ára og eldri. Þetta er í fyrsta skipti sem danskeppni er haldin í Smáranum í Kópavogi, húsið hentaði ágætlega undir keppnina, gólfið var gott, stærðin var góð, aðstaða fyrir keppendur einnig, þó vantaði upp á lýsingu til að mynda betri stemningu en vafalaust er hægt að bæta úr því að ári. Tónlistin var ágæt, en þó nokkuð hæg á köflum.
Keppnin hófst með yngstu flokkunum sem keppa með grunnaðferð, formaður DSÍ, Jónas Dalberg ávarpaði gesti eftir innmars og kynnti til bæjarstjórann í Kópavogi, Gunnstein Sigurðsson, sem setti mótið.
Á 10 dansa mótum er það samanlagður árangur úr öllum samkvæmisdönsunum 10 sem gilda til sigurs, það eru 5 suðuramerískir dansar og 5 standarddansar. Þess vegna eru úrslit á 10 dansa keppnum oft frábrugðin öðrum keppnum en það par sem er jafnast í öllum 10 dönsunum stendur sem sigurvegari.
Fimm erlendir dómarar komu til landsins að dæma mótið: Vilmars Ivuskans frá Lettlandi, Dorthe S. Hansen frá Danmörku, Pascal Proute frá Frakklandi, Alan Ford frá Bretlandi, og Rolf Pfaff frá Þýskalandi.
Keppni í samkvæmisdönsum er skipt niður í mismunandi flokka eftir aldri og getu til að gefa sem flestum tækifæri á að spreyta sig. Eftirfarandi eru helstu úrslit í Íslandsmeistaramótinu í 10 dönsum með frjálsri aðferð.
Flokkur fullorðinna F 19 ára og eldri
1. sæti: Sigurður Már Atlason og Sara Rós Jakobsdóttir frá DÍH.2. sæti: Christopher John Page og Ásta Bjarnadóttir frá DÍK.
3. sæti: Björn Ingi Pálsson og Telma Rut Sigurðardóttir frá DÍH.
Í þessum flokki voru aðeins Sigurður og Sara sem voru í úrslitum frá því í fyrra, þá hlutu þau 2. sætið og eru því nýtt par í hverju sæti. Gaman er að sjá hvað þessi flokkur er orðinn stór.
Flokkur ungmenna F 16-18 ára
1. sæti: Sigurður Már Atlason og Sara Rós Jakobsdóttir DÍH. Einnig 10 dansa meistarar frá 2009 og sigurvegarar í flokki fullorðinna. Frábær árangur.
2. sæti: Björn Halldór Ýmisson og Hrefna Dís Halldórsdóttir frá DÍH.
3. sæti: Freyþór Össurarson og Eyrún Stefánsdóttir frá DR.
Til gamans má geta að það var nákvæmlega sama niðurröðun í þessum flokki í fyrra. Eina breytingin sem hér hefur orðið er að Björn er kominn með nýja dansdömu og frábær árangur hjá þeim að ná öðru sætinu.
Flokkur unglingaa II 14-15 ára
1. sæti: Andri Fannar Pétursson og Helga Sigrún Hermannsdóttir frá DÍH. Þau urðu einnig 10 dansa meistarar árið 2009.2. sæti: Birkir Örn Karlsson og Perla Steingrímsdóttir frá DÍH. Nýtt efnilegt danspar sem gaman verður að fylgjast með.
3. sæti: Guðjón Bergmann Ágústsson og Berglind Einarsdóttir frá DÍK.
Miklar breytingar hafa verið í þessum flokki, pör að skipta um dansfélaga og önnur pör að færast upp. Virkilega skemmtilegur flokkur að fylgjast með.
Flokkur unglinga I 12-13 ára
1. sæti: Pétur Fannar Gunnarsson og Aníta Lóa Hauksdóttir frá HK.2. sæti: Davíð Bjarni Chiorlanzo og Rakel Matthíasdóttir frá DÍH.
3. sæti: Brynjar Björnsson og Helga Guðrún Jómundsdóttir frá Dansf. Ragnari.
Ný pör eru einnig í öllum sætum í þessu flokki, stóðu sig öll með prýði.
DSÍ Open latín danskeppnin
Á laugardagskvöldið var haldin Open latín danskeppnin, var það auglýst sem gala kvöld. Í þessari keppni var aðeins keppt í suðuramerískum dönsum, eða latín dönsum eins og þeir eru kallaðir.
Í efstu þremur sætunum voru:
1. sæti: Sigurður Þór Sigurðsson og Hanna Rún Óladóttir frá DÍH. 2. sæti voru Sigurður Már Atlason og Sara Rós Jakobsdóttir frá DÍH, 3. sæti voru Björn Ingi Pálsson og Telma Rut Sigurðardóttir frá DÍH.Seinnipartinn á sunnudag var haldin samskonar keppni í ballroom dönsunum eða standard dönsum, helstu úrslit þeirrar keppni voru:
DSÍ standard Open
1. sæti: Sigurður Már Atlason og Sandra Rós Jakobsdóttir frá DÍH, í 2. sæti voru Christopher John Page og Ásta Bjarnadóttir frá DÍK, í 3. sæti voru Björn Ingi Pálsson og Telma Rut Sigurðardóttir frá DÍH.
Unga fólkið stóð sig vel
Dansinn dunaði alla helgina í Smáranum, sýningar yngri barnanna tókust með eindæmum vel. Tæplega 200 börn voru mætt til sýninga til að taka sín fyrstu spor, og sýnir það okkur hvað mikil og góð uppbygging er í dansinum á Íslandi. Sýningarpör fá öll verðlaun fyrir að mæta á svæðið og fara út á gólf og finnst mér það frábært framlag frá DSÍ.Fyrir keppendur sem tóku þátt í öllum 3 mótum helgarinnar, reyndi heldur betur á þrek og þol, en þeir dansarar dönsuðu yfir 50 dansa um helgina sem sýnir í hversu góðu formi þeir þurfa að vera.
Til gamans má geta þess að næsta Íslandsmeistaramót sem haldið verður er ætlað þeim sem dansa með grunnaðferð, og verður það haldið hinn 1. og 2. maí í Laugardalshöllinni. Sömu helgi verður Íslandsmeistaramót í línudönsum og bikarkeppni með frjálsri aðferð.
Helgin var í heildina öll hin skemmtilegasta, og ég vil óska keppendum bæði til hamingju með að taka þátt, og þeim sem komust í úrslit með árangurinn. Einnig vil ég þakka mótanefnd og DSÍ fyrir góða helgi. danshusid@islandia.is
Hildur Ýr Arnarsdóttir