Fyrsti sunnudagur eftir fyrsta fulla tungl eftir jafndægur. Páskar. Vorhátíð. Trúarhátíð. Minningarhátíð mikilla atburða. Önnur helsta trúarhátíð kristinna manna. Kannski sú mesta. Jesús frá Nasaret, Kristur Drottinn lokar kaflanum sem hófst á jólum. Jarðvistardögum hans er að ljúka. Ef marka má ritninguna vissi Kristur út í hörgul hvað biði hans í Jerúsalem. Hinn erfiði aðdragandi, kvalir á krossinum og endalokin. Lærisveinar hans máttu einnig vita hvers var von. Þeir áttu sitt hlutverk og frelsarinn hafði farið yfir handritið, en samt vissu þeir ekki. Og honum var jafnljóst líka að endalokin voru í raun upphaf en ekki endir. Heimildin, sem fyrirvarinn var settur við, ritningin, orð guðspjallamannanna, snýr að okkur öllum. Þeim sem trúir og þeim sem efast. Þeir standa frammi fyrir sömu spurningunni og annar þeirra, sá sem trúir, er líkast til lengra kominn. Hann er nær svarinu.
Sigurbjörn Einarsson biskup sagði: „Páskaviðburðurinn er einsdæmi. Hann er og verður um allan aldur einstæður. Því er ekki að undra að hann sé dreginn í efa. En það eru ekki aðeins fornar heimildir sem skýra frá honum. Tilvera kristinnar kirkju vitnar um hann. Hann hefur hrundið af stað stórfenglegustu hreyfingu sögunnar. Miðað við áhrif og afleiðingar er upprisa Krists áþreifanlegri staðreynd en nokkuð annað, sem um getur í annálum mannkyns. Hún er ekki véfengd sakir þess, að heimildir séu ekki fullgóðar, heldur af því, að menn telja sig vita það mikið um veruleikann, að þeim sé ekki fært að trúa slíku eða þeir megi fullyrða, að slíkt eigi sér alls ekki stað. Staðreynd dauðans er óvéfengjanleg, því hún er dagsdagleg. Boðskapur páskanna um sigur lífsins er of stórbrotinn, of undursamlegur til þess að geta verið sannur.“
Velta má upp hvort páskaboðskapurinn og afstaðan til hans sé deila um hindurvitni annars vegar og vísindi hins vegar. Spurningin standi um heilagan vitnisburð ellegar um háværan hvell. Biskupinn ástsæli, sem fyrr var vitnað til, segir: „Hér stendur trú gegn trú. Kristnir menn játa trú sína á hið einstæða og óskiljanlega í þakklátri auðmýkt, síst af öllu með neinu yfirlæti. Trú þeirra er svo sem ekki annað en blaktandi neisti á skari. En hún er samt upprisa nýs lífs í sálu þeirra. Guði séu þakkir. Hans hulda hönd vermdi hið kalda skar og vakti lífsneista af dauða.“
Hann var ekki fjölmennur hópurinn í kringum krossinn á föstudaginn langa forðum tíð. En það hefur fjölgað í hópnum síðan. Þær fóru fáar og hljóðlega að gröfinni konurnar sem ætluðu að veita hinum krossfesta sakamanni það eina sem þær máttu, úr því sem komið var. En gröfin var tóm. Aldrei hefur tóm talað svo skýrt til fólks í annan tíma.
Þjóðskáldið Matthías Jochumsson, sem marga fjöru saup á langri æfi, tókst löngum á við efann. Hann sat þó að lokum á Sigurhæðum í fleiri skilningi en einum. Í lok merkrar æfisögu hans segir: „Skömmu fyrir dauðann orti Matthías hálfblindur og sáttur, ljóðið „Gleym mér ei“.“ Í einu erindi ljóðsins, sem þarna er nefnt segir:
„Drottins dýrð
er ei dulspeki,
ekki mannvit,
ekki vísindi,
hún er „gleym mér ei“
þeirra guðsbarna
er bana dauðans
blindandi sjá“.
Og æfisöguritarinn segir: „Matthías kemur því hér til skila að bana dauðans (eilíft líf) megi lesa úr lífinu sjálfu – eilífðarsmáblóminu.“
Mannkynið hefur nú í tæp tvö þúsund ár horft um páska inn í opna, kalda og tóma gröf. Og því lengur sem horft er því ljósari verður myndin. Hún sýnir þeim sem trúa upprisu og eilíft líf. Og það er rétt hjá séra Matthíasi að svo skýr er myndin að hana má blindandi sjá.