Einfaldleikinn á landsbyggðinni hentar vel einföldum manni eins og mér. Þar er því sem næst ekkert við að vera annað en sitja í ruggustólnum og hlusta á þögnina. Aldrei neitt um að vera.
Ung stúlka; það gæti verið dóttir mín en þar sem þær eru ekki ýkja hrifnar af því að vera sífellt nefndar á prenti þá þarf það ekki endilega að vera ein þeirra; ónefnd ung stúlka spurði mig sem sagt á dögunum hvað ég myndi gera ef ég ynni stóra vinninginn í Víkingalottóinu. Við heyrðum auglýst að hann gæti orðið allt að 2,4 milljörðum króna.
„Ætli ég myndi ekki byrja á því að setjast niður og hugsa,“ sagði ég, enda búsettur á landsbyggðinni. Að hugsa og hlusta á þögnina þjóta hjá, það er okkar fag.
Hún var ekki spennt fyrir því. Fannst ég yrði að gera eitthvað.
„Þú meinar það. Ætli ég myndi þá ekki byrja á því að fara í langan göngutúr.“
- Til hvers? Það kostar heldur ekki neitt. Hvað myndirðu gera við peninginn?
„Þú átt við það. Ég yrði flottur á því og byði ykkur í helgarferð til Akureyrar.“
- Come on. Við búum þar. Hvað myndirðu gera í alvörunni? Hvað myndirðu kaupa? Hvert myndirðu fara?
„Eftir göngutúrinn myndi ég leggja mig í góða stund og reyna að sofna; góðar hugmyndir byrja oft sem draumur. Kannski myndi mig dreyma ferð til Liverpool, á völlinn og í búðirnar, jafnvel ferð til Barcelona til að fara á völlinn og svo til Madridar á úrslitaleikinn í Meistaradeildinni í maí.“
Ég sá á svip stúlkunnar, sem skyndilega líktist eiginkonu minni, að þetta var í áttina.
Það góða við drauma er að þeir geta ræst og að stundum rætast þeir ekki.
Ég var, þrátt fyrir allt, ákveðinn í því að fengi ég stóra vinninginn byði ég fjölskyldunni til Akureyrar. Helst um páska því þar þyrfti ég ekki að gera neitt annað en hugsa. Aldrei neitt í boði úti á landi.
Á fimmtudaginn voru að vísu Sinfóníutónleikar hér í höfuðstað Norðurlands, og boðið er upp á tvenna eða þrenna annars konar tónleika á hverjum degi alla páskadagana og böll um kvöldið.
Fjölskyldan myndi sjálfsagt draga mig á sýningu á verkum Tryggva Ólafssonar á Listasafninu, á Flugsafnið, Smámunasafn Sverris í Sólgarði og í Jólahúsið. Svo myndu dömurnar heimta það að fara í bíó og í leikhús – Leikfélag Akureyrar er að vísu bara með þrjár sýningar á fjölunum um páskana og ég vona að gestir bæjarins fyrirgefi það. Svo myndi ég fara á skíði í sól og blíðu, síðan í sund í sól og blíðu, svo myndi ég fara á kaffihús, fá mér svo ís, loks út að borða og síðan í bíó. Daginn eftir færi ég aftur á skíði í sól og blíðu, svo á hestabak í sól og blíðu, aftur á kaffihús og út að borða.
Svo myndi ég kaupa mér ruggustól til að hugsa í.
Verst ég gleymdi að kaupa miða. skapti@mbl.is
Skapti Hallgrímsson