BÓNDA nokkrum í bæjarferð varð það á að fríhjóla niður brekku þar sem var 30 km svæði sem og hann gerði í sparnaðarskyni vegna stöðugra olíuverðshækkana. En dráttarvélin var þyngri en hann hugði og skriðþunginn mikill. Lítrinn varð honum dýrkeyptur sem hann ætlaði að spara því sektin nam heilum 45.000 krónum og hraðinn sléttir 61 km/klst. Hann var sviptur ökuleyfi í 3 mánuði og fékk 3 punkta í ökuferilsskrá. Í dag situr hann á rándýrum námskeiðum í meðferð dráttarvéla til þess að fá ökuskírteinið á ný og geta þá komið sér heim í kotið á dráttarvélinni til kellu sinnar og krakka. Uppskálduð frétt.
Þegar farið er inn á vefsvæði Umferðarstofu www.us.is má þar finna ansi skemmtilega reiknivél og þar er hægt að setja inn hraða miðað við hin ýmsu hraðamörk og reikna síðan út sektir. Nú ber að hafa í huga að það að fara á tvöföldum leyfilegum hraða hefur breytilega áhættu í för með sér gagnvart umhverfinu. Í vistgötu er hámarkshraði 15 km/klst og að aka það svæði á 30 km hraða er auðvitað brot á umferðarlögum en hafa ber í huga að maður á skokki og hlaupum er nálægt þessum hraðamörkum,. Þegar sleginn er inn á reiknivélina góðu 96 km hraði á svæði sem hefur 50 km hámarkshraða í þéttbýli er engin ökuleyfissvipting en 3 punktar fara í ökuferilsskrá og ríkið fær 60.000 krónur.
Í fjárlögum 2010 er gert ráð fyrir tekjum til ríkissjóðs vegna ýmissa sekta og viðurlagsákvæða, samtals 1.295.000.000 eða einum milljarði og tvö hundruð níutíu og fimm milljónum króna. Ef við hins vegar förum inn á þetta undarlega skilgreinda 30 km svæði og ekið er þar á 61 km hraða á klst. er 45 þúsund króna sekt, ökuleyfissvipting í 3 mánuði og 3 punktar í ökuferilsskrá. Handhafi bráðabirgðaskírteinis sem fær samtals 4 refsipunkta í ökuferilsskrá er settur í ótímabundið akstursbann. Ökuskírteinið fær hann aftur eftir prófraun og talsverð fjárútlát.
Sem dæmi um þetta 30 km svæðismerki má segja að það sé undarlega flokkað með bannmerkjum í reglugerð. Þar er m.a. stöðvunarskyldumerki og merki um sérstaka takmörkun á hámarkshraða að finna og merkin því ákaflega staðbundin og eiga að vera sýnileg, skilti um hámarkshraða á að vera við hvern vegakafla, a.m.k. þar sem hraðamörk eiga að gilda. Það merki sem allir þekkja og táknar svæði, þéttbýlismerkið, og líka merkið um vistgötu, eru hins vegar í flokkinum upplýsingamerki. Skyldu refsihæð brota og sektargreiðslur vera hærri innan bannmerkjanna en brot framin innan upplýsingamerkjanna? Það þarf ekki endilega að vera en gæti verið og hér má bæta við að merki innan bannmerkja skulu vera skilmerkilega sett upp en merki innan upplýsingamerkjanna látin duga eitt eða tvö. Hér kemur villan á uppsetningu 30 km svæðismerkjanna, að þar er farið eftir lögmálum upplýsingamerkjanna en látið ógert að fara eftir reglum um umsetningu bannmerkja.
Frétt á www.mbl.is 16.3. 2010 ber yfirskriftina „23 teknir á klukkustund.“ En þar segir að 59% ökumanna á ákveðnu svæði þar sem hámarkshraði er 30 km/klst hafi ekið of hratt. En á öðru svæði þar sem gullna reglan gildir um 50 km/klst hámarkshraða innan þéttbýlis voru aðeins 8% sektaðir.
Er ekki hér komin skýringin, að mestu sökina á því að ekið er of hratt innan 30 km svæðis í svona miklum mæli á sú staðreynd að það er ekki merkt nema óverulega og ökumenn að ruglast á þessu sitt á hvað, auk þess eru 30 km svæðismerkin sláandi lík 30 km skiltum um takmarkaðan hámarkshraða. Er lagastoð í lögunum fyrir reglugerð sem býr til þéttbýli innan þéttbýlis án þess að settur sé rammi af löggjafanum eins og gert er um vistgötu? Gagnvart umferðarmerkingum í lögunum 7. gr. er talað um vistgötu í eintölu!
Þar sem það er á ábyrgð lögreglustjóra sbr. 81.gr. umferðarlaga að sjá um og samþykkja umferðarmerkingar innan þéttbýlis sem ekki eru þjóðvegir sem eru á forræði Vegagerðarinnar, má þá ekki segja að þegar bæjarfélögin eru að samþykkja hvert í sínu lagi það sama, að það séu mistök og opni fyrir vitlausar merkingar og misskilning? Það er mér fagnaðarefni að gert sé átak gegn umferðarlagabrotum en felur orðið „átak“ ekki í sér að slælega hafi verið haldið á málum áður eða a.m.k ekki nægjanlega vel? Væri þá ekki skynsamlegra, ef ná á niður hraða, að breyta 37. gr.umferðalaga, þ.e.a.s. ef vilji er fyrir því hjá löggjafanum þannig að í þéttbýli væri 30 km hámarkshraði í stað 50 km og síðan væru allar stofnæðar og annað sem við ætti merkt sérstökum takmörkunum á hámarkshraða. Umfram allt ekki hraðasvæðismerki aftur innan hraðasvæðismerkja, þéttbýli innan þéttbýlis, takk, takk!
Höfundur er atvinnubílstjóri.