Eftir Sigurð Boga Sævarsson
sbs@mbl.is
HESTAMENN hafa í vetur tekið hross seinna á hús en áður auk þess sem nýliðar eru færri. Þetta er ein birtingarmynda efnahagslægðarinnar, sem kemur við hestamennskuna eins og annað.
„Kostnaður við að halda hross er talsverður en fólk virðist samt leggja fé í þjálfun og tamningu og þjálfun kynbótahrossa enda er það fjárfesting sem skilar sér. Þá virðist þeim sem eru nýir hafa fækkað. Lauslega áætlað kostar eina milljón króna að koma sér af stað og fólk bíður því meðan kreppan er að ganga yfir. Áhugi á hestamennskunni er þó síst á undanhaldi,“ segir Valgerður Sveinsdóttir sem kjörin var formaður Hestamannafélagsins Fáks á aðalfundi félagsins sem haldinn var í dymbilviku.
Valgerður er fyrst kvenna til að gegna formennsku í Fáki en hún tók við embættinu af Bjarna Finnssyni sem kenndur er við Blómaval.
Fákur er fjölmennasta hestamannafélag landsins en innan vébanda þess eru um 1.400 félagsmenn. Að baki hverjum þeirra er oft heil fjölskylda og áætlar Valgerður að á bilinu fjögur til fimm þúsund manns tengist starfi félagsins með einum eða öðrum hætti.
„Ég fékk snemma áhuga á hestamennskunni, en eignaðist ekki minn fyrsta hest fyrr en um tvítugt. Mér finnst þetta skemmtilegt og stússið í kringum hrossin tíu sem fjölskyldan á er afar gefandi,“ segir Valgerður sem er lyfjafræðingur og jafnframt varaformaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar.
Seinna tekið á hús
Í hestamennskunni í dag eins og annars staðar þarf aðstæðna vegna að spara. Þumalputtareglan hefur lengi verið sú að sígarettupakki og að leigja hesthúspláss með fóðrun og hirðingu fyrir eitt hross sé svipuð tala, það er í kringum þúsund krónur á dag.„Fólk hefur gjarnan verið að taka hrossin á hús um áramót en nú í vetur mánuði síðar enda var slíkt mögulegt tíðarfarsins vegna. Þannig hefur verið hægt að spara hey og spæni sem er undirburður í húsunum. Um slíkt munar talsvert, því spænirnir hafa snarhækkað í verði á síðustu misserum. Spónabaggi sem er um 30 kg kostar yfir 2.000 kr. á dag og í mínu húsi förum við með fast að því einn slíkan á dag. Þetta telur allt saman,“ segir Valgerður.
Mikið umleikis
Mikið er umleikis í starfi Fáks um þessar mundir. Margir eru, að sögnValgerðar, farnir að undirbúa sig fyrir landsmótið sem verður á Vindheimamelum í Skagafirði í sumar, sem og önnur hestamannamót sem eru á dagskrá. Stærsta og metnaðarfyllsta verkefni félagsins á næstunni er þó undirbúningur fyrir Landsmót 2012 sem haldið verður í Reykjavík.
„Á síðustu árum hefur áhersla í starfi Fáks beinst talsvert að námskeiðahaldi og starfi með börnum og unglingum og ég vil sem formaður halda áfram á þeirri braut. Við erum reglulega með reiðnámskeið og hafa knapamerkjanámskeiðin verið vinsæl jafnt hjá börnum sem fullorðnum. Auk þess erum við að hefja samstarf við Norðlingaskóla, sem er í næsta nágrenni við okkur í Víðidalnum, þar sem hestamennska verður fléttuð saman við skólastarfið og kennslu í efstu bekkjunum. Með því komum við til móts við krakka sem ekki eiga hesta en langar til að kynnast hestamennskunni.“