Eftir Sindra Sverrisson
sindris@mbl.is
OFANRITAÐUR hefur ekki hugmynd um hvað það er sem Njarðvíkingar hafa gert inni í búningsklefa í hálfleikjum viðureigna sinna við Stjörnuna í 8-liða úrslitum Iceland Express-deildar karla í körfuknattleik. Hvað sem það er þá svínvirkar það hins vegar því Suðurnesjamenn hafa í öllum þremur leikjunum mætt af mun meiri krafti í 3. leikhlutann og unnið hann sannfærandi. Í fyrsta leik 28:16, þeim næsta 22:10 og á fimmtudag 23:13 en þá tryggði Njarðvík sér sæti í undanúrslitum með öruggum 16 stiga sigri, 88:72.
Sé mið tekið af seinni hálfleiknum á fimmtudag, en staðan eftir þann fyrri var 45:44 Stjörnunni í vil, er undarlegt til þess að vita að þetta einvígi hafi farið í þrjá leiki. Njarðvíkingar hreinlega völtuðu yfir „steingelda“ heimamenn sem virtust jafnvel hræddir við að skjóta á körfuna. Garðbæingar skoruðu enda bara 27 stig í seinni hálfleik gegn 44 stigum Njarðvíkur.
Magnús Gunnarsson, Friðrik Stefánsson og Jóhann Árni Ólafsson mynduðu banvænt þríeyki hjá Njarðvík og gerðu 20 stig hver. Magnús komst í mikinn ham í seinni hálfleiknum og gerði þá 17 sinna stiga, þar af 15 úr glæsilegum þriggja stiga körfum við mikinn fögnuð áhorfenda. Sigurinn ætti hins vegar allt eins, ef ekki frekar, að skrifa á frábæran varnarleik Njarðvíkinga sem héldu Justin Shouse, lykilleikmanni Stjörnunnar, vel niðri í leiknum auk þess sem þeir lokuðu algjörlega á Jovan Zdravevski í seinni hálfleik. Zdravevski gerði 22 stig í fyrri hálfleik en aðeins eitt eftir hlé og munaði um minna fyrir Stjörnumenn sem hafa síður en svo úr jafnbreiðum hópi góðra leikmanna að velja og Njarðvíkingar.
Stjarnan er því fallin úr leik í 8-liða úrslitum annað árið í röð. Njarðvík er hins vegar komin í undanúrslit þar sem liðið mætir erkifjendunum í Keflavík, sem slógu einmitt Njarðvík út í 8-liða úrslitum á síðasta ári.
„Svona erum við töluvert betra lið“
„ÉG er náttúrlega með rosalegar hálfleiksræður,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkur, léttur í bragði eftir sigurinn á Stjörnunni þar sem Njarðvíkingar rúlluðu yfir heimamenn í seinni hálfleik eftir jafnan fyrri hálfleik.„Nei, nei, við einfaldlega spilum á fleiri leikmönnum og getum sett meiri kraft í þetta í seinni hálfleik. Þar hlýtur munurinn að liggja,“ sagði Sigurður og Magnús Gunnarsson tók í svipaðan streng.
„Við bara spiluðum miklu betri vörn í seinni hálfleik og með góðri vörn verður sóknin auðveldari. Það voru allir að spila vel sem lið og þegar þetta gengur svona erum við töluvert miklu betra lið en Stjarnan,“ sagði Magnús og honum líst vel á Suðurnesjaslag í undanúrslitunum. „Ég elska það að við skulum fá Keflavík núna. Þeir slógu okkur út í fyrra svo við höfum harma að hefna og slátrum þeim núna.“
Justin Shouse, leikmaður Stjörnunnar, var öllu leiðari á svip enda hefur Stjarnan sýnt í vetur að liðið getur á góðum degi unnið öll lið.
„Við erum hrikalega vonsviknir. Spilamennskan hjá okkur í 3. leikhlutanum hefur verið „flatari en pönnukaka“ og ég veit ekki alveg hver ástæðan er fyrir því. Njarðvíkingar eru með sterka og reynslumikla menn sem vita hvað til þarf. Þeir stigu vel á bensíngjöfina í seinni hálfleik á meðan við drógum löppina að okkur.“ sindris@mbl.is
Stjarnan – Njarðvík 72:88
Ásgarður, 8-liða úrslit Íslandsmóts karla, oddaleikur, fimmtudag 1. apríl 2010.Gangur leiksins : 23:21, 45:44, 58:67, 72:88.
Stig Stjörnunnar : Jovan Zdravevski 23/4 fráköst, Justin Shouse 20/4 fráköst/10 stoðsendingar, Djorde Pantelic 9/10 fráköst/4 varin skot, Fannar Freyr Helgason 8, Magnús Helgason 6/6 fráköst, Kjartan Atli Kjartansson 4, Guðjón Lárusson 2, Jón Pétur Þorsteinsson 0, Birkir Guðlaugsson 0, Ólafur J. Sigurðsson 0, Erling Gauti Jónsson 0, Birgir Björn Pétursson 0.
Fráköst : 28 í vörn – 7 í sókn.
Stig Njarðvíkur : Friðrik E. Stefánsson 20/9 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 20/6 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 20/4 fráköst, Nick Bradford 13/4 fráköst/5 stoðsendingar, Páll Kristinsson 6, Hjörtur Hrafn Einarsson 5, Rúnar Ingi Erlingsson 4, Kristján Rúnar Sigurðsson 0, Elías Kristjánsson 0, Egill Jónasson 0, Grétar Már Garðarsson 0, Guðmundur Jónsson 0.
Fráköst : 24 í vörn – 11 í sókn.
Villur : Stjarnan 18 – Njarðvík 23.
Dómarar : Kristinn Óskarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson.
Áhorfendur : Um 500.