RÉTTI klæðnaðurinn skiptir öllu máli þegar kemur að farsælum frama. Mismunandi fatnaður þykir við hæfi í mismunandi störfum, og eins og gengur og gerist ganga yfir minni og stærri tískubylgjur.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins úr íslenska tískubransanum er nú t.d. orðið algengt að sjá starfsmenn í fjármálageiranum frjálslegri til fara en áður og jafnvel sést til þeirra bindislausra. Eru uppi kenningar á þá leið að bæði endurspegli þetta breyttan anda innan fjármálafyrirtækja hér á landi, en einnig sé um smitun að ræða frá Alþingi sem ekki alls fyrir löngu afnam bindisskyldu.
Ekki líst öllum vel á þessa þróun, og þykir missir að þeim virðulega blæ sem fylgir bindinu. En hvað er þá til ráða?
Axlaböndin koma þar til bjargar.
Þessi fallegi aukahlutur hefur af einhverjum ástæðum ekki náð almennilegri útbreiðslu í íslensku viðskiptalífi. Og er það miður, enda má skipa axlaböndum í flokk með ermahnöppum og vasaklútum sem aukahlutum sem skerpa á „lúkkinu“ og fullkomna fallegan formlegan vinnufatnað.
Búkurinn rammaður inn
Axlaböndin bæta við tveimur lóðréttum línum að framan, og einni (og stundum tveimur) að aftan, og geta því verkað grennandi. Ekki er nóg með það heldur má segja að axlaböndin „rammi inn“ bindið, en þau ramma líka inn skyrtuna alla þegar bindið er ekki til staðar. Bindislaus maður með fráhneppt hálsmálið getur verkað hálfklæðalítill, satt best að segja, en ef hann er með falleg axlabönd þá gildir einu þó hálsmálið sé opið og jafnvel rúllað upp á ermarnar, virðugleikinn er enn til staðar.Auðvitað eru axlabönd ekki öll sköpuð jöfn og ljót og ódýr axlabönd geta jafnvel dregið úr fegurð fallegra jakkafata. Til að vera „alvöru“ eiga axlaböndin ekki að vera smellt á buxnastrenginn með málmklemmu. Vel klæddir menn nota hneppt axlabönd, þar sem leðurlykkja er á endanum á böndunum, sem helst eiga að vera úr silki, og festist á þar til gerða hnappa sem saumaðir eru á buxnastrenginn innanverðan.
Svo þarf vitaskuld að gæta að því að axlaböndin rími vel við klæðið í fötunum, bindið og skóna, en axlaböndin eiga einmitt ekki að vera í sama lit og aðrar flíkur heldur eiga þau að kallast á við þær nema hvað leðurparturinn á að vera í sama lit og skórnir. Einlit axlabönd fara t.d. betur við teinóttar skyrtur en teinótt bönd betur við einlitar skyrtur.
Það þykir sérlega hallærislegt að vera bæði með axlabönd og belti, og raunar líka til marks um lítinn tískuþroska að nota axlabönd við buxur sem eru með beltislykkjum.
Axlabönd í Hollywood
Þetta vita menn í fjármálahverfum bæði austan- og vestanhafs. Á Wall Street er til dæmis ekki óalgengt að þeir sem best kunna að klæða sig skarti fallegum axlaböndum. Smekkvísi af þessum toga má síðan sjá í myndunum frá Hollywood og muna lesendur eflaust margir eftir reffilegum Michael Douglas sem arkaði um skrifstofuna sína jakkalaus og með axlabönd í Wall Street . Sömuleiðis var hann Christian Bale stórglæsilegur að vanda í American Psycho enda axlaböndin á sínum stað og raunar morðtólin líka, en það er önnur saga.Nú síðast sáust axlaböndin í þáttunum Gossip Girl og Mad Men . Það bendir því allt til að axlaböndin séu að koma aftur í tísku.