Eftir Hólmfríði Gísladóttur
holmfridur@mbl.is
ÞAÐ eru orðin þó nokkur ár síðan Radíusbræður hristu saman upp í landanum með útvarps- og sjónvarpsþáttum sínum. Sketsar þeirra lifa þó góðu lífi á vídeóvefnum YouTube, en þar má sjá nokkrar flugur frá frægðardögum þeirra. Nú snúa bræðurnir aftur, en í þetta sinn með sína eigin útfærslu á tveimur uppistöndum eftir breska grínistann Ricky Gervais, Animals og Politics . Verður frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins 24. apríl næstkomandi.
Vísir að endurkomu
„Það var komið að máli við mig, hvort ég væri til í að þýða þessi tvö uppistönd með Ricky yfir á íslensku og hvort ég sæi einhvern flöt á því að staðfæra og heimfæra yfir á íslensku það sem er mjög breskt,“ segir Davíð Þór. „Svo fæddist sú hugmynd að fá okkur Stein til að setja þetta upp, að þetta yrði einhver svona vísir að comeback -i fyrir Radíusbræður, fyrir þá sem ekki hafa séð okkur eða eru farnir að sakna okkar. Þannig að við ákváðum bara að slá til, það er langt síðan við höfum unnið og gert eitthvað skemmtilegt saman, ég tala nú ekki um þegar við erum að gera þetta öðruvísi en við erum vanir, við erum með leikstjóra og vinnum þetta eins og leiksýningu,“ segir hann og lýsir mikilli ánægju með samstarfið við Gunnar Björn Guðmundsson, leikstjóra sýningarinnar.Þessi uppistönd Gervais hafa verið gríðarlega vinsæl en þar sem þau hafa verið þýdd er óhjákvæmilegt að grínið sé aðlagað íslenskum aðstæðum. „Þetta er í raun og veru okkar útfærsla á því sem hann er að gera grín að þarna sjálfur. Auðvitað er kannski meginuppistaðan textinn hans Rickys, en ef hann sæi þessa þýðingu á íslensku er ég ekkert endilega viss um að hann myndi kannast við nema helminginn af því, hann myndi kannski meira kannast við andann og stemninguna heldur en beinlínis brandarana sjálfa.“
Davíð mun sjálfur sjá um þann hluta sem unninn er úr Politics en Steinn Ármann mun túlka Villidýrin . „Við í grunninn skiptum þeim á milli okkar þannig að Steinn tekur annað og ég tek hitt. En við gerum þetta ekkert alveg eins og hann og við munum væntanlega hjálpa hvor öðrum og skemma hvor fyrir öðrum eins og við getum,“ segir Davíð og hlær, en hann reiknar með því að hvor hluti verði um 45 mínútur með hléi á milli.
Hvað varanlega endurkomu varðar segir hann allt vera opið en að það verði að gerast á þeirra forsendum; harkið í bransanum sé langt frá því að vera eins spennandi og margur haldi og þeir séu búnir með þann pakka að reka sjálfa sig eins og fyrirtæki.
Ekkert hræddir við að fara neðan beltis
Davíð Þór segist hafa orðið aðdáandi Rickys Gervais um leið og hann vandist honum. „Ég verð að játa það að ég þurfti að horfa á nokkra þætti af Office áður en mér fannst þessi húmor þægilegur.“Þar á Davíð þó ekki við víðfrægan neðanbeltishúmor Rickys því hann segir Gervais vera kettling miðað við þá Radíusbræður. „Ég efast um að við verðum jafn mikið og lengi fyrir neðan beltið og við vorum á okkar blómaskeiði en við verðum alls ekkert penni en Ricky,“ segir hann um túlkun þeirra félaga á verkum grínistans viðkunnanlega.