Eftir Sigurð Boga Sævarsson
sbs@mbl.is
„ÓRÓI í nágrenni gosstöðvanna er síst að minnka og mælar í Goðalandi og undir Eyjafjöllum sýna titring. Á þessari stundu sést hins vegar lítið til eldgossins og við getum því lítið sagt til um framvindu þess en það gæti haldið svona áfram næstu vikurnar,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við Morgunblaðið.
Slæmt veður var á Fimmvörðuhálsi í gær, snjókoma og hvassviðri og gekk á með dimmum éljum. Ekki var þó vitað til þess að fólk hefði lent alvarlegum í vandræðum vegna þessa, skv. upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli. Björgunarsveitarmenn voru á Fimmvörðuhálsi í gær og voru vaktaskipti hjá þeim síðdegis í gær. Eitthvað var um að fólk fengi far með þeim til byggða en margir gengu á hálsinn upp frá Skógum og vélsleðamenn hafa gjarnan lagt upp af Sólheimajökli í Mýrdal.
Slysavarnafélagið Landsbjörg sá í gær ástæðu til þess að vara við sprungum á Mýrdalsjökli þar sem þeir sem eru á ferð um jökulinn voru hvattir til að nýta sér upplýsingar um skráða GPS-ferla. Jöklafarar hafa verið að færa sig sífellt utar í þá slóð sem þar hefur myndast. Þetta þýðir að slóðin er komin nærri sprungusvæði og segir Landsbjörg að þegar hafi komið tilvik þar sem farartæki hafa lent í sprungum.