Ingibjörg Hrönn Ingimarsdóttir
Ingibjörg Hrönn Ingimarsdóttir
Eftir Ingibjörgu Hrönn Ingimarsdóttur: "Sem þjóð berjumst við fyrir því að hafa sjálfsákvörðunarétt í mikilvægum málum og fatlaðir eiga sér öfluga forystumenn í sinni baráttu sem telja að notendastýrð þjónusta sé það sem koma skal."

MIKLAR breytingar eru fyrirhugaðar á þjónustu við geðfatlaða hér á landi með flutningi á málaflokknum frá ríki til sveitafélaga. Byrjað er á að sameina þjónustu við geðfatlaða sem tilraunaverkefni, en flutningur málaflokks fatlaðra í heild sinni til sveitarfélaga er fyrirhugaður um næstu áramót. Gefa þessar fyrirætlanir kannski tilefni til þess að við stöldrum aðeins við og hugsum um það hvert við stefnum? Erum við með þessum skipulagsbreytingum að einblína á þjónustukerfin sem aftur styðja hugmyndir um að í svokallaðri „afstofnanavæðingu“ höfum við í raun ekki gert annað en að flytja stofnanirnar út í samfélagið? Það skiptir máli að ábyrgð þjónustukerfanna dreifist og sé ekki öll á einni hendi heldur sé framkvæmd í þverfaglegri teymisvinnu þar sem einstaklingurinn sjálfur er í miðju skipuritsins og allar áætlanir eru byggðar á.

Ég tek undir orð Páls Matthíassonar framkvæmdastjóra geðsviðs LSH sem fram komu í afmælisriti Geðhjálpar þann 26. mars síðastliðinn þar sem hann taldi það ekki ákjósanlegt að setja alla þjónustuna undir einn hatt, í þessu tilfelli sveitarfélögin, heldur væri æskilegra að um væri að ræða stjórnskipulagseiningu sem á í miklu samspili við aðra velferðarþjónustu í landinu. Hvernig verða til dæmis fyrirhugaðar breytingar í framkvæmd? Verður um virkt eftirlitskerfi að ræða og hver á að sinna því? Verður til staðar einhver sameiginlegur vettvangur fatlaðra, þjónustuaðila og fræðimanna? Getum við verið fullviss um að sameining þjónustukerfanna skapi ekki einokunarstöðu sem verður nýtt í þeim tilgangi að spara í þjónustu við geðfatlað fólk á þessum krepputímum sem við nú lifum?

Sem þjóð berjumst við fyrir því að hafa sjálfsákvörðunarrétt í mikilvægum málum og fatlaðir eiga sér öfluga forystumenn í sinni baráttu sem telja að notendastýrð þjónusta sé það sem koma skal. Í notendastýrðri þjónustu er það einstaklingurinn sjálfur sem stýrir því hvar, hvernig og af hverjum þjónustan er veitt. Slíkt fyrirkomulag væri ákjósanlegt fyrir marga geðfatlaða. Nánari skilgreiningu á notendastýrðri þjónustu má m.a. finna á vef Sjálfsbjargar: http://www.sjalfsbjorg.is/images/skjol/hvad_er_npa_september_2009.pdf

Á ráðstefnu sem nýlega var haldin á vegum Rannsóknarseturs í fötlunarfræði við Háskóla Íslands var notendastýrð þjónusta ásamt mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til umfjöllunar. Í setningarræðu félagsmálaráðherra á ráðstefnunni kom m.a. fram að ekki kæmi til greina annað en að fatlaðir veldu sjálfir hvað hentaði þeim. Það væri þeirra val með hverjum þeir byggju og hverjir það væru sem veittu þeim þjónustu, jafnvel þótt það kostaði meira en einhver önnur lausn.

Félagsmálaráðherra hefur nýlega undirritað mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd en fjölmörg lönd hafa þegar undirritað sáttmálann og skuldbinda sig til þess að fylgja honum. Mannréttindasáttmálinn er til þess fallinn að brjóta blað í réttindabaráttu fatlaðra. Tengil á mannréttindasáttmálann á íslensku er að finna á slóðinni: http://fotlunarfraedi.hi.is/page/rif_fotl_log_lagasetn

Höfundur er geðhjúkrunarfræðingur og MA í fötlunarfræði.

Höf.: Ingibjörgu Hrönn Ingimarsdóttur