Mamma María Sif Ericsdóttir ásamt börnum sínum. Hún segir Kvennasmiðjuna hafa verið sér mikils virði. Eftir vímuefnaneyslu komst hún á beina braut og er í dag í sjúkraliðanámi í Fjölbrautaskólanum í Ármúla.
Mamma María Sif Ericsdóttir ásamt börnum sínum. Hún segir Kvennasmiðjuna hafa verið sér mikils virði. Eftir vímuefnaneyslu komst hún á beina braut og er í dag í sjúkraliðanámi í Fjölbrautaskólanum í Ármúla. — Morgunblaðið / Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigurð Boga Sævarsson sbs@mbl.is „Ást mín á eiturlyfjum var sterkari öllu öðru. Í fyrsta sinn sem ég komst í vímu var sem ég hefði fundið sjálfa mig og það markaði framhaldið.

Eftir Sigurð Boga Sævarsson

sbs@mbl.is

„Ást mín á eiturlyfjum var sterkari öllu öðru. Í fyrsta sinn sem ég komst í vímu var sem ég hefði fundið sjálfa mig og það markaði framhaldið. Við tóku erfið ár og þegar ég lít til baka er saga mín býsna sorgleg. Á síðustu árum hefur hins vegar mikið verið að rofa til og þar á ég Kvennasmiðjunni mikið að þakka,“ segir María Sif Ericsdóttir.

Evrópuárið 2010, sem helgað er baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun, hófst formlega á dögunum með ráðstefnu á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytis. Þar voru kynnt úrræði sem hafa gefist vel til að bæta aðstæður fólks og rjúfa félagslega einangrun. Kvennasmiðjan er samstarfsverkefni Tryggingastofnunar ríkisins og velferðarsviðs Reykjavíkur. Fjöldi ungra kvenna, sem hafa búið við erfiðar félagslegar aðstæður, hefur á vettvangi smiðjunnar fengið fræðslu og stuðning og þannig komist á beina braut til að skapa sér og sínum betra líf. María Sif lauk átján mánaða námi í Kvennasmiðjunni fyrir tæpum tveimur árum sem hún segir hafa valdið straumhvörfum í sínu lífi.

Kynntist aldrei fjölskyldulífi

„Báðir foreldrar mínir voru virkir fíklar og framan af kynntist ég aldrei eðlilegu fjölskyldulífi. Ég hraktist úr einum stað í annan og fann mig hvergi. Tíu ára gamalli var mér komið í fóstur hjá fjölskyldu í Mosfellsbæ sem reyndist mér vel. Samt ánetjaðist ég vímuefnum mjög ung, til að mynda róandi lyfjum sem voru læknadóp. Ég átti vissulega stundum mína edrútíma en vantaði samt alla fótfestu í lífinu,“ segir María Sif sem eignaðist stúlku, sitt fyrsta barn, árið 1997. Dóttirin var ekki gömul þegar María missti tök á neyslunni og í framhaldi af því slitnaði upp úr sambandi Maríu og barnsföður hennar. Hann fékk forræðið og María fékk ekki að hitta dótturina nema undir eftirliti.

„Stundum var ég í vímu þegar ég hitti dótturina og í annan tíma henti að ég hélt ekki út þann stutta tíma sem við máttum eiga saman. Og samt var þetta barnið mitt; sú manneskja sem ég elskaði öllum öðrum meira,“ segir María Sif sem kveðst á þessum tíma hafa upplifað algjört niðurbrot í sálarlífinu. Hún eignaðist aðra dóttur í mars 2005 en var á þeim tíma langt leidd í neyslu. Á haustdögum 2005 komst María Sif í sex mánaða vímuefnameðferð í Krýsuvík. Þar kveðst hún hafa fengið stuðning og smám saman fór að sjást til sólar.

Innihaldsríkt nám

Í Krýsuvík kynntist María Sif sambýlismanni sínum og saman eiga þau son sem núna er eins og hálfs árs.

„Áður sá ég varla tilgang í því að fara á fætur; klæða mig og greiða mér. Félagsráðgjafinn hjá Reykjavíkurborg sem ég var í tengslum við hjálpaði mér hins vegar að finna þá möguleika sem voru í stöðunni. Námið í Kvennasmiðjunni var mér nánast opinberun og ég gerði mér ljóst að ég gæti lært eins og aðrir,“ segir María sem í dag stundar nám á sjúkraliðabraut Fjölbrautaskólans í Ármúla í Reykjavík en stefnir á hjúkrunarnám í fyllingu tímans. „Mikilvægasta verkefni mitt í dag er að vera börnunum mínum góð og sterk fyrirmynd og búa þeim öruggt heimili. Í því bý ég að mörgu góðu úr innihaldsríku námi í Kvennasmiðjunni.“

Markmið að auka lífsgæði kvennanna

Kvennasmiðjan er samstarfsverkefni Tryggingastofnunar ríkisins og velferðarsviðs Reykjavíkur. Alls hafa 13 hópar hafið starfsemi frá því í apríl 2001 þegar þetta úrræði var sett á laggirnar. Frá byrjun hafa 190 konur komið í smiðjuna og 111 þeirra útskrifast eftir fulla dvöl. Í dag eru tveir hópar starfandi með 30 konum.

Nám í Kvennasmiðjunni er átján mánuðir. Nemar fá greidda endurhæfingarörorku frá TR á námstímanum en Reykjavíkurborg greiðir námskostnað. Markmið Kvennasmiðjunnar er að auka lífsgæði einstæðra mæðra sem búa við félagslega erfiðleika og styðja þær til sjálfshjálpar.

Gert er ráð fyrir því að þátttakendur Kvennasmiðjunnar taki virkan þátt og mæti stundvíslega í alla tíma. Nemendur fá dagbækur og er stöðugt unnið að betra skipulagi og stundvísi. Áhugi nemenda er kannaður reglulega og síðan er leitast við að koma til móts við óskir þeirra. Reglulega er gert mat á starfseminni. Vonir þeirra sem stjórna Kvennasmiðjunni eru þær að lífsgæði nema aukist við þátttökuna, að þeir komist út á vinnumarkað, í áframhaldandi nám eða í frekari endurhæfingu.

Í hnotskurn
» Fíknin í eiturlyf var öllu öðru sterkari og um þau snerist tilvera Maríu Sifjar, sem náði áttum í langtímameðferð í Krýsuvík 2005.
» Mikilvægast að vera börnunum mínum fyrirmynd og búa þeim öruggt heimili.
» Kvennasmiðjan hjálpaði Maríu eins og fjölda annarra kvenna. 2010 er Evrópuár helgað baráttu gegn fátækt og félagslegri einangrun.